Ellidi.is logo

Auğvitağ á ağ flytja opinber störf á landsbyggğirnar

2 júlí 2014

 Á Íslandi eru 17.516 stöðugildi opinberra starfsmanna (tölur frá 2011).  Þeim hefur fjölgað um 227 síðan 2007.  Mest hefur fjölgunin orðið erlendis (og óstaðsett) um 157 stöðugildi.    Þá hefur þeim einnig fjölgað á höfuðborgarsvæðinu og eins og fram kom í tíufréttum RÚV í gær þá er talið nánast öruggt að
 
... þar fjölgi þeim áfram.   Því hefur verið haldið fram –réttilega að mínu mati- að eitt af vopnum hins opinbera við byggðaþróun sé val á staðsetningu opinberra starfa.  Helstu sérfræðingar þjóðarinnar (td. Þóroddur Bjarnason framkvæmdastjóri Byggðastofnunar) hafa haldið því fram að án efa sé stærsti byggðastyrkur allra tíma sá að hafa valið að staðsetja nánast allar stofnanir sem fjármagnaðar eru með sameiginlegum sjóðum á höfuðborgarsvæðinu.  Þar eru nú 12.330 stöðugildi á vegum ríkisins eða rúmlega 70% allra opinberra starfa.
 
Áfallahjálp
Á seinustu dögum hafur skapast mikil umræða um þá ákvörðun að flytja Fiskistofu af höfuðborgarsvæðinu til Akureyrar.  Í ársbyrjun voru um 75 starfsmenn hjá Fiskistofu á 5 starfsstöðvum en athygli vekur að starfsmannavelta er óvenju há eða um 16%.  Við flutninginn norður færast um 30 störf frá Hafnafirði norður yfir heiðar.  Starfsmönnum hefur verið boðin áfallahjálp.
 
Misskipting
Á Akureyri eru nú um 1024 stöðugildi ríkisstarfsmanna.  Eftir þessa breytingu verða þeir 1054.  Á Akureyri búa 18.103 íbúar og fjöldi íbúa á bak við hvert opinbert stöðugildi er því 18. Opinberum störfum er mjög misskipt á landið.  Þannig eru til dæmis 23 íbúar á bak við hvert starf í Fjarðabyggð, 24 í Vesturbyggð, 17 í Norðurþingi, 15 á Ísafirði og 13 í Árborg.  Í Vestmannaeyjum eru 4280 íbúar og hér eru 135 stöðugildi hjá ríkinu.   Það merkir að á bak við hvert slíkt stöðugildi í Vestmanneyjum eru 31 íbúi.  Á sama tíma liggur fyrir að engir íbúar þessa lands greiða meira til hins opinbera en Eyjamenn.  Ég veit ekki til þess að þingmönnum Suðurlands hafi verið boðin áfallahjálp í ljósi þessara staðreynda.
 
Efndir
Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að núverandi ríkisstjórn standi við þau fyrirheit að flytja störf á landsbyggðina.  Í stjórnarsáttmálanum segir enda: „Mikilvægt er að stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, m.a. með dreifingu opinberra starfa...“  Ég fagna því sérstaklega að fyrsta skrefið skuli nú hafa verið tekið hvað efndir varðar og að fyrirhugað sé að flytja Fiskistofu norður á Akureyri.  Vissulega skiptir sköpum að allra leiða verði leitað til að gera þetta sem sársaukaminnst fyrir starfsmenn Fiskistofu.  Það er verðugt og mikilvægt úrlausnarverkefni en ekki óyfirstíganleg hindrun.  Svo verð ég nú að viðurkenna að mér þykir það „pínu“ fyndið að sumir sem ganga hart fram í gagnrýni á efndum þessa loforðs eru nýbúnir að standa á Austurvelli margar helgar í röð og krefjast efnda á kosningaloforðum.
 
Nú er komið að Vestmannaeyjum
Næst er svo komið að Vestmannaeyjum.  Vestmannaeyjar eru næst stærsti byggðakjarni á landsbyggðinni utan höfuðborgarsvæðisins (sjá skilgreiningu sóknaráætlunar), eingöngu Akureyri er stærri.  Óvíða eru jafn góð tækifæri til sóknar.  Hingað væri til að mynda hægt að flytja Hafrannsóknarstofnun, Lögregluskólann, Einkaleyfastofu og Þjóðskrá.  Svo mikið er víst að tími landsbyggðanna er að renna upp.  Langlundargeð íbúa þar er löngu þrotið.  Þar er ekki lengur vilji til að vera nýlendur sem framleiða verðmæti sem nýtast til velferðar annarsstaðar.