Ellidi.is logo

Opiš bréf til žingmanna Sjįlfstęšisflokksins - Alžingi hefur fariš offari gagnvart sjįvarbyggšum

7 október 2014

 Morguninn hófst á lestri forsíðugreinar Morgunblaðsins: "Minni framlegð, meiri skattur".  Þar kom fram að:
 
"Framlegð sjávarútvegsfyrirtækja á árinu 2013 var sú lakasta síðan 2005.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir lækkaði um 20% á milli áranna 2012 og 2013 og hefur hann ekki verið lægri í hlutfalli af tekjum í átta ár.  Samtímis hafa skattgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja farið vaxandi.  Alls greiddu þau 21,5% af heildarsköttum ríkissjóðs á tekjur og hagnað lögaðila á árinu 2013."  
 
Í framhaldi af þessu fréttum og með hliðsjón af því hvernig kaupin hafa gerst á eyrinni skrifaði ég því þingmönnum Sjálfstæðisflokksins svohljóðandi töluvpóst:

Kæru þingmenn

Á seinustu árum hef ég haft miklar áhyggjur af framtíð sjávarútvegs á Íslandi og þá ekki síst afleiddra áhrifa á sjávarbyggðir.  Aðkoma mín hefur verið margvísleg.  Ég sit sem bæjarstjóri í sveitarfélagi þar sem allir íbúar eiga allt undir sjávarútvegi, á sæti í stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga og hef fylgst vandlega með þeirri þróun sem orðið hefur á seinustu árum.

 

Að mínu mati hefur það stjórnsýslustig sem þið starfið á –alþingi- farið offari gagnvart sjávarútvegi og sjávarbyggðum og þar með gagnvart hinu stjórnvaldinu –sveitarstjórnum- sem þó er jafn sett skv. íslenskri stjórnskipan.  Frumvörp hafa komið fram með stuttum fyrirvara og án samráðs við sjávarútvegssveitarfélögin sem þó eiga allt undir því hvernig að málum er staðið.  Skollaeyrum hefur verið skellt við vönduðum umsögnum og látið undir hælinn leggjast að meta áhrif lagafrumvarpa á íbúa sjávarbyggða og fyrirtækin sem þeir eiga og/eða starfa hjá.

 

Vonir mínar og fjölmargra annarra um breytt vinnulag og áherslur í kjölfar stjórnarskipta hafa því miður ekki gengið eftir.  Nú er jafnvel svo komið að Vestmannaeyjabær og fyrirtæki í Vestmannaeyjum stefna að dómstólaleið til að ná leiðréttingu á stjórnvaldsákvörðunum í sjávarútvegi sem umboðsmaður Alþingis hefur metið ólöglegar.  Í dag hef ég hef rökstuddan grun um að full ástæða sé til að hafa vaxandi áhyggjur af því hvernig staðið er að verki undir verkstjórn sjávarútvegsráðherra með stuðningi ykkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

 

Eitt af því sem sameinar okkur í Sjálfstæðisflokknum er einlægur ásetningur um að búa atvinnulífinu hagfellt umhverfi, enda er öflugt atvinnulíf forsenda þess að við getum staðið undir sterku velferðarkerfi og góðum lífskjörum. Þetta á ekki síst við um sjávarútveg sem stóð af sér stöðugar hótanir og gríðarlegar álögur í tíð vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms J.

 

Sjávarútvegur hefur sannarlega verið öflugur á seinustu árum.  Það er ekki hvað síst þess vegna sem viðreisn íslensks efnahagslífs hefur gengið vonum framar.  Nú eru hinsvegar blikur á lofti.

 

Staða er þessi:

  • Útflutningsverðmæti sjávarafurða á fyrstu átta mánuðum ársins minnkaði um nær 20 milljarða króna eða úr 173,8 milljörðum, janúar til ágúst 2013, í 153,2 milljarða á þessu ári. Þetta er 11,8% samdráttur. 
  • Heildarafli íslenskra fiskiskipa dróst saman á milli ára um liðlega 27% eða yfir 283 þúsund tonn. Þetta þýðir að meðaltali var aflinn rúmlega 35 þúsund tonnum minni í hverjum mánuði á þessu ári en á sama tíma fyrir ári. 
  • Afurðaverð á sjávarafurðum hefur lækkað á alþjóðlegum mörkuðum. Miklir erfiðleikar eru á mikilvægum mörkuðum íslenskra fyrirtækja. Þetta á ekki síst við um Rússland og Úkraínu sem eru stærstu kaupendur íslenska makrílsins. 
  • Á sama tíma og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki glíma við erfiðar markaðsaðstæður og þurfa að standa undir þungum veiðigjöldum, njóta margir helstu keppinautar þeirra víðtækrar aðstoðar hins opinbera. Þannig veitir norska ríkið þarlendum útflytjendum sjávarafurða yfir 90% útflutningstryggingu. (Að ekki sé talað um umfangsmikla ríkisstyrki í öðrum löndum). 
  • Líklegt er að útflutningstekjur af kolmunna, norsk-íslenskri síld og makríl muni dragast saman um sjö milljarða króna á komandi ári og er þá miðað við nýja veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Samdrátturinn yrði um 10% í kolmunna og makríl og nær 50% í síld. Fyrir útgerðarfyrirtæki sem byggja á uppsjávarveiðum er þetta mikið högg enda um grundvallarstofna að ræða auk loðnunnar og íslensku síldarinnar.

 

Það er á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins að bregðast við þessum blikum og koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar fyrir íbúa sjávarútvegs sveitarfélaga og á íslenskt hagkerfi.

 

Á yfirstandandi þingi þarf stjórnarmeirihlutinn að taka til endurskoðunar álagningu veiðigjalda, enda ljóst að þar hefur verið gengið fram af mikilli hörku og ósanngirni. Þær breytingar sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gerði sumarið 2013 og fyrr á þessu ári, voru í besta falli í skötulíki og tóku lítt tillit til versnandi afkomu útgerðar né voru þær til þess fallnar að jafnræðis verði gætt við álagningu opinberra gjalda, líkt og við sjálfstæðismenn höfum alla tíð lagt áherslu á.  

 

Von mín nú er sú að sterk staða Sjálfstæðisflokksins tryggi að þær breytingar sem lofað var í aðdraganda seinustu kosninga nái brátt fram að gagna.  Ég trúi því og treysti að þingmenn Sjálfstæðisflokksins tryggi að við afgreiðslu laga um veiðileyfagjöld verði gætt hófsemdar og jafnræðis, með það í huga að efla íslenskan sjávarútveg og hvetja til frekari fjárfestinga. Ég þarf ekki að taka fram hve hagsmunir sjávarbyggða eru samþættir afkomu sjávarútvegsins og getu hans til að halda uppi öflugri starfsemi.

 

Með sama hætti geng ég út frá því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins tryggi samráð við sjávarútvegssveitarfélög og þar með að engar breytingar verði gerðar á lögum um stjórnkerfi fiskveiða sem grafa undan öflugum sjávarútvegi til langrar framtíðar. Í þessu sambandi er einnig vert að undirstrika mikilvægi þess að unnið sé náið með öðrum hagsmunaaðilum að öllum breytingum frá upphafi.

 

Kveðja

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum

 

Sent á;

Ásmundur Friðriksson (ÁsF)

[email protected] 

Birgir Ármannsson (BÁ)

[email protected]

Bjarni Benediktsson (BjarnB)

[email protected]

Brynjar Níelsson (BN)

[email protected]

Einar K. Guðfinnsson (EKG)

[email protected]

Elín Hirst (ElH)

[email protected]

Guðlaugur Þór Þórðarson (GÞÞ)

[email protected]

Hanna Birna Kristjánsdóttir (HBK)

[email protected]

Haraldur Benediktsson (HarB)

[email protected]

Illugi Gunnarsson (IllG)

[email protected]

Jón Gunnarsson (JónG)

[email protected]

Kristján Þór Júlíusson (KÞJ)

[email protected]

Pétur H. Blöndal (PHB)

[email protected]

Ragnheiður E. Árnadóttir (REÁ)

[email protected]

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (RR)

[email protected]

Unnur Brá Konráðsdóttir (UBK)

[email protected]

Valgerður Gunnarsdóttir (ValG)

[email protected]

Vilhjálmur Árnason (VilÁ)

[email protected]

Vilhjálmur Bjarnason (VilB)

[email protected]