Ellidi.is logo

Samgönguáætlun skorin niğur um 10 milljarğa

Hvernig hefği fariğ fyrir smíği nırrar Vestmannaeyjaferju?

Loks bjart framundan

8 mars 2017

Í lok seinasta árs og upphafi þessa lögðust bæjarfulltrúar í Vestmannaeyjum þungt á árarnar í samstarfi við þingmenn Suðurlands til að tryggja undirskrift nýs smíðasamnings.  Hér heima og víðar blöskraði ýmsum sú mikla áhersla sem við lögðum á að drífa í undirskrift.   Nú les fólk hinsvegar um 10 milljarða niðurskurð í áætluðum samgöngumálum.
Mörg góð og brýn verkefni lenda þar undir hnífnum svo sem vegur um Teigskóg, Dettifossvegur, hringvegurinn í Berufirði og ný brú yfir Hornafjarðarfljót.  Blessunarlega var búið að skrifa undir samning um nýsmíði Vestmannaeyjaferju.  Óvíst er hver örlög þess verkefnis hefði annars orðið.
 
Ekki ólíklegt að ný Vestmannaeyjaferja hefði verið skorin niður.
Miðað við allt og allt tel ég sjálfur ekki ólíklegt að til álita hefði annars komið að falla frá nýsmíði Vestmannaeyjaferju.  Tjónið hefði orðið gríðarlegt fyrir samfélagið í Eyjum því hvað sem hver segir þá er flestum nú ljóst að núverandi Herjólfur ræður afar illa við aðstæður við Landeyjahöfn.  
 
Enn óleyst verkefni
Mörg verkefni eru þó enn óleyst og ber þar fyrst að nefna mikilvægi þess að koma upp einhverskonar blöndu af föstum og færanlegum búnaði til dýpkunar á því litla svæði sem er til mestra vandræða hvað dýpi varðar, það er að segja á milli hafnargarðanna.
 
Kynna þarf drög að lausnum strax í vor
Vestmannaeyjabær hefur óskað eftir því að lausnir verði kynntar núna í vor og boðnar út nægilega tímalega til að hægt verði að fá reynslu á búnaðinn næsta vetur.  Samkvæmt þeim upplýsingum
sem fengist hafa er nú unnið að lausnum hvað þetta varðar.
 
Bjart framundan
Í fyrsta skipti síðan 2010 er nú bjart framundan í samgöngum á sjó við Vestmannaeyjar.  Samkvæmt áætlun á smiði nýrrar ferju að ljúka sumarið 2018, eða nánar tiltekið 20. júní samkvæmt samningum. Þá á að vera búið að tilraunakeyra nauðsynlegan dýpkunarbúnað.  Samhliða þarf síðan að finna verkfræðilega lausn á því hvernig skipinu verður tryggt skjól í aðsiglingu og ráðast í framkvæmdir þar að lútandi.
 
Nýtum tækifærin
Gangi áætlanir eftir á mannlíf og búsetugæði í Vestmannaeyjum eftir að njóta verulega góðs af þessum samgöngubótum.  Með samstilltum vilja verður jafnvel  hægt að laða hingað nýja íbúa, ný fyrirtæki og fjölga tækifærum þeirra sem þegar búa í okkar góða samfélagi.  Þar njótum við Eyjamenn svo vel að eiga 4300 íbúa sem vilja Eyjunum allt hið besta og eru því óhræddir við að tala af jákvæðni og bjartsýni um það samfélag sem þeir byggja.  Án slíks nýtast engin tækifæri.