Ellidi.is logo

Stağa siglinga şetta voriğ - nıjasta dıptarmælinging

Á núverandi skipi er einfaldlega ekki hægt ağ gera betur

18 mars 2017

Samgöngur eru og verða mál málanna á lítilli Eyju með kröftugt atvinnulíf og öflugt mannlíf.  Þegar samgöngur á sjó eru tvennskonar; annarsvegar að sigla í þrjá tíma tvisvar á dag eða í fjörutíu mínútur þrisvar til fimmsinnum á dag, þá er vilji íbúa og gesta alveg skýr.  Þeir vilja af sjálfsögðu sigla skemmri leiðina sem einnig er margfalt ódýrari. Þegar röskun verður þar á eins og seinustu daga þá er ég mikið spurður: "Afhverju er ekki verið að sigla í Landeyjahöfn".  Nú er það svo að Vestmannaeyjabær ræður engu um samgöngur.  Sú ábyrgð liggur hjá ríkinu sem síðan hefur samið við Eimskip um að sinna siglingum.  Eftir sem áður reyndi ég að afla mér upplýsinga hjá Vegagerðinni og rekstraraðilum Herjólfs með það fyrir augum að miðla þeim til íbúa.
Í gær var dýpið í og við Landeyjahöfn mælt.  Niðurstaða þeirra mælinga gefa þrátt fyrir allt ástæðu til bjartsýni og heilt yfir er dýpið nokkuð gott.  Á þessari mynd má sjá niðurstöðu þessara mælinga:
 
 
 
Ástæða er til að geta þess að þessi mæling miðar við svo kallaðan núllpunkt eða stórstraumsfjöru (það minnsta sem dýpið getur orðið) og svo veltur það á sjávarföllum hvernig raundýpi er háttað.  Þannig er til að mynda meðalstraumur í dag.  Á blússandi fjöru (sem í dag er kl. 15:08) má samt bæta 0,7 metrum við þessa mælingu hér að ofan.  Á flóði (sem í dag er kl. 21:27) má síðan bæta 2,3 metrum við hana.  Þannig að til dæmis á milli garða þar sem núllpunktsmælingin sýnir 5,7 metra dýpi, þar verður 6,4 metra dýpi á fjöru og 8 metra dýpi á flóði
Þessa þætti eru skipstjórar Herjólfs nú að reyna að nýta sér og haga siglingum í samræmi við þetta.
 
Þess mynd sýnir flóðastöðu næstu daga:
 
 
Eftir sem áður hafa siglingar í Landeyjahöfn ekki gengið sem skyldi og fréttir borist af því að núverandi Herjólfur hafi kennt botns á siglingu yfir rifið.  Í kjölfarið hafa ferðir fallið niður og stöðug óvissa um hvert verður siglt hvenær.
 
Fátt í þessu kemur á óvart og svona verður þetta amk. þar til nýtt skip kemur.  Staðreyndin er enda sú að núverandi Herjólfur er mjög óheppilegur til siglinga í Landeyjahöfn enda ekki hannaður til slíkra siglinga.  Hann ristir of mikið, er afar viðkvæmur fyrir straumum og sérstaklega er hættulegt þegar hann fær ölduna undir skutinn.  Með það verða núverandi skipstjórar og áhöfn að vinna og það eina sem þeir geta gert er að fella niður ferðir ef og þegar telja farþegum, áhöfn og farmi sé hætta búin.
 
Þessi gallar núverandi skips koma síðan meira og meira í ljós eftir því sem betri tök nást á höfninni sjálfri og þá sérstaklega dýpisvandanum.  Nú þegar dýpið er ágætt færist flöskuhálsin eðlilega að skipinu sjálfu.  Þetta tvennt spilar síðan saman enda þarf núverandi Herjólfur meira dýpi en sú sem kemur á næsta ári.
 
Margir spyrja hvort ég trúi því að allt verðir bara í himnalagi eftir að ný ferja kemur.  Svarið við því er “Nei, svo sannarlega dettu mér það það ekki í hug að allt verði í lagi”.  Ég er hinsvegar mjög bjartsýnn á að eftir að nýja ferjan kemur, næsta vor, verði staðan langum betri en nú er.  Seinustu daga hefði til að mynda verð siglt í Landeyjahöfn án vandkvæða og þannig yrði einnig um næstu daga – næstum eins langt og spár ná. Það er þá til einhvers unnið.
 
Þessi mynd sýnir samanburð á þeirri ölduhæð sem miðað er við á nýverandi Herjólfi og þeirri sem nýja ferjan verður hönnuð til að ráða við.  Hér við bætist síðan að nýja ferjan verður ekki eins háð dýpi, vindstyrk, straumum og fleiri þáttum.
 
 
Ég veit að eftir að nýja ferjan kemur verður ástandið betra hvað Landeyjahöfn varðar.  Það verða frátafir og part úr árinu verður meira að segja tómt bras í þessum siglingum.  Öll skref áfram eru hinsvegar betri en kyrrstaða.
 
Á meðan við búum við núverandi Herjólf verðum við hinsvegar að búa við þetta óþolandi ástand sem nú er að ekki sé siglt í Landeyjahöfn þótt dýpi sé með því sem best hefur sést á þessum árstíma og ölduhæð um eða undir 2 metrum.
 
Við verðum síðan að sýna ákvörðunum skipstjóra Herjólfs skilning.  Skipstjórar Herjólfs vita að við viljum sigla í Landeyjahöfn og ekki þarf að efast um að þeirra vilji er sá sami.  Þeir eru einfaldlega ekki með skip í höndunum sem heppilegt er til þessara siglinga og þeirra ákvarðanir eru teknar með hagsmuni farþega, áhafnar og farms í huga.  Þótt sannarlega viljum við sigla sem oftast í Landeyjahöfn þá viljum við að það sé gert af varúð.