Ellidi.is logo

Mikil uppbygging jnustu vi eldri borgara stuttum tma

30 ra afmli flags eldri borgara Vestmannaeyjum

Veri a stkka Hraunbir, byggja njar jnustubir, bta dagdvl og mislegt fl.

8 janúar 2018

 Núna um helgina átti félag eldri borgara í Vestmannaeyjum 30 ára afmæli.  Félagið gegnir einu af lykilhlutverkum í þjónustu og hagsmunagæslu eldri borgara hér í Vestmannaeyjum.  Það var mér heiður að vera boðið til afmælisins en samband Vestmannaeyjabæjar og félagsins hefur ætíð einkennst fyrst og fremst af trausti, gagnkvæmri virðingu og skilningi á einlægum vilja til samstarfs.

Félgsstarf og hagsmunaþjónusta

Hlutverk félags eldri borgara er að vinna að hagsmuna-, velferðar- og áhugamálum aldraðra og koma fram fyrir hönd aðildarfélaganna gagnvart hinu opinbera og öðrum, sem sinna málefnum aldraðra fyrir landið í heild.  Þá er rík áhersla lögð að efla félagslegt samneyti eldri borgara og auðga líf þeirra með öflugu framboði á menningu, dægrastyttingu, hreyfingu og öllu því öðru sem bætt getur lífsgæði eldri borgara.

 

Ríki og sveitarfélög þjónusta bæði eldri borgara

Sannarlega eru málefni aldraðra fyrst og fremst á ábyrgð ríkisins en ábyrgð sveitarfélaga er þó rík.  Þannig rekur Vestmannaeyjabær Hraunbúðir (fyrir framlög frá ríkinu), á og styður við rekstur félagsaðstöðu eldri borgara í Kviku, á og rekur íbúðir aldraðra svo sem í Eyjahrauni, Kleifarhrauni og Sólhlíð, veitir dagþjónustu, heimaþjónustu og margt fl. 

 

Einlægur vilji í Vestmannaeyjum

Í framsögu minni í afmælinu stiklaði ég meðal annars á stóru um þá miklu breytingu sem orðið hefur í þjónustu við aldraðra hér í Vestmannaeyjum á stuttum tíma og næstu skref hvað það varðar.  Vilji bæjarfélagsins er enda einlægur þegar kemur að því að gera vel við eldri borgara. 

 

Stuðningur við sjálfstæða búsetu

Fyrir nokkru var tekin ákvörðun um að fella niður fasteignagjöld (rukka eingöngu þjónustugjöld) á fasteignir eldri borgara sem þeir búa sjálfir í.  Þessu framtaki hefur verið afar vel tekið og að mati eldri borgara auðveldar þetta þeim að búa lengur í sjálfstæðri búsetu.  Samhliða var rík áhersla lögð á að styðja betur við bakið á félagi eldri borgara með hækkuðum rekstrarstyrk, nýrri félagsaðstöðu (þar sem m.a. er í boði fönduraðstaða, minigolf, snóker og fl.), auknu framboði af skipulögðum þjónustutilboðum og fl.

 

Bætt aðstaða til dagþjónustu

Dagdvölin á Hraunbúðum hefur verið bætt verulega.  Matsalurinn var færður, fönduraðstaðan flutt og hún stækkuð mikið, komið var upp aðstandendaherbergi, líkamsræktaraðstaða stækkuð og ýmislegt fl.  Þannig var í senn bætt aðstaða fyrir heimilisfólk á Hraunbúðum sem og þá sem þangað sækja þjónustu.

 

Hraunbúðir stækkaðar til að þjónusta betur þá Alzheimer sjúklinga og fl.

Það var einnig afar ánægjulegt að geta sagt frá því að innan mjög skamms tíma verður tekin í notkun stækkun á Hraunbúðum sem fyrst og fremst mun bæta þjónustu við þá sem glíma við heilabilun svo sem Alzheimer.  Um verður að ræða mikla breytingu enda hið nýja rými afmarkað frá öðrum hlutum heimilisins, herbergin sérhönnuð, bjart sameiginlegt rými með afgirtum garði og ýmislegt fl.

 

 

 

 

Nýjar þjónustuíbúðir

Þá eru þegar hafnar framkvæmdir við byggingu nýrra þjónustuíbúða við Eyjahraun.  Þar er nú verið að undirbúa framkvæmdir við 5 nýjar íbúðir auk þess sem ein eldri íbúð verður stækkuð og gerð betri til að mynda fyrir hjónafólk.  Samhliða þessu verður byggð tengibygging við Hraunbúðir til að auðvelda  íbúum þessara 10 íbúða sem þá verða í Eyjahrauninu að sækja þangað þjónustu.

 

 

Áfram þarf að halda, betur má ef duga skal

Í Vestmannaeyjum er einlægur vilji til að halda áfram að efla þjónustu við eldri borgara, bæta hana og útvíkka.  Öllum er okkur ljóst að skóinn kreppir sannalega fyrst og fremst í hjúkrunar- og dvalarrýmum á Hraunbúðum og áfram þarf að vinna í því að ríkið bæti þar um betur.

Ég óska félagi eldri borgara hjartanlega til hamingju með afmælið og þakka þeim afar gott samstarf á liðnum árum.