Ellidi.is logo

Gosi reyndist Eyjamnnum erfitt

45 r fr upphafi gossins Heimaey

Magna a s kynsl sem undan gekk hafi hr reyst b sinn r sku.

23 janúar 2018

Í dag eru 45 ár frá upphafi gossins á Heimaey. Eyjamenn og landsmenn flestir minnast þess nú þegar jörðin rifnaði í jaðri byggðarinnar í Vestmannaeyjum og gló-andi hraun vall úr. Í ávarpi sínu við upphaf gossins sagði þáverandi biskup að varla hefði í annan tíma jafn mikill voði vofað yfir jafn mörgum Íslendingum á sama andartaki og þá nótt. Gosið á Heimaey væri einn hrikalegasti atburður sem orðið hefði í sögu landsins. Það voru vafalaust orð að sönnu og mikil var sú mildi að ekki varð tjón á lífi íbúa, björgunarmanna og framtíð byggðar.
 

 

 

Gosið var Eyjamönnum erfitt

Þeir sem ekki upplifðu þessa atburði hljóta að eiga erfitt með að skilja þær tætingslegu tilfinningar sem við Eyjamenn berum enn í dag til þessara hamfara. Ég hef áður haldið því fram að gosið hafi verið okkur Eyjamönnum erfiðara en seinni tíma söguskýring hefur viljað vera láta.  Eftir því sem ég hef orðið eldri hefur sú skoðun mín styrkst.  Eftir sem áður ber ég mikla og djúpa virðingu fyrir því viðhorfi sem oftast var haldið að mér sem barni og fólst í því að ræða þetta ekki of djúpt.  

 

Ekki dvalið við vandamálin

Sú skýring á sjálfsagt rót í því að við Eyjamenn dveljum ekki lengi við vandamálin en snúum þeim í verkefni. Hjá því verður þó ekki horft að Eyjamenn urðu að hverfa í hendingskasti frá heimilum sínum með fátt annað með sér en fötin sem þeir klæddust. Eignatjónið varð gríðarlegt og við tóku tímar fullkominnar óvissu. Fjölskyldur tvístruðust og fréttirnar sem bárust af heimahögum voru oftar en ekki þungbærar.

 

Samfélag byggt á kjarki

Þeim mun ótrúlegri var sá kjarkur sem Eyjamenn höfðu til að bera þegar þeir völdu að flytja aftur heim til Eyja. Að velja að takast á við það risavaxna verkefni að hreinsa bæinn af ösku og eignast á ný það samfélag sem var þeim svo kært. Að taka tafarlaust í sátt þá óblíðu náttúru sem ógnað hafði bæði lífi og eignum. Að veðja á rjúkandi eldfjallaeyju sem framtíð sína og sinnar fjölskyldu. Undir gunnfánum samheldninnar sneru Eyjamenn aftur og byggðu það fyrirmyndarsamfélag sem í dag á sér ekki hliðstæðu. Það þurfti kjark, dáð og þor til að endurreisa byggð í Eyjum. Af því áttu Eyjamenn nóg til að takast verkefnið.

 

Samhugur og drengskapur

Ár hvert nota Eyjamenn 23. janúar til að staldra við og minnast þessa ótrúlegu atburða. Þá þakka þeir þá guðsmildi að ekki hafi farið verr og hversu vel þó tókst við hrikalegar aðstæður. Í hörmungunum sýndi hin íslenska þjóð hvers hún er megnug. Samhugurinn og drengskapurinn var alger. Fyrir það færum við Eyjamenn Íslendingum öllum þakkir. Á sama hátt réttu vinaþjóðir okkar Íslendinga Eyjamönnum hjálparhönd, bæði í gosinu og því ógnvænlega verkefni sem við tók í kjölfar þess. Það voru vinahót sem Eyjamenn gleyma aldrei.

 

Þakkir til þeirrar kynslóðar sem á undan fór

Þeir Eyjamenn sem ekki fluttu til baka hafa síðan þá upp til hópa reynst sínum heimahögum vel. Það eru þeir sem svo oft mynda varðlínu um hagsmuni Vestmannaeyja sem um hefur munað. Öllum þessum aðilum færa Eyjamenn þakkir.

 Sjálfur færi ég sérstaklega því hugrakka fólki sem á tvísýnustu tímum byggðar í Eyjum sneri heim strax að gosi loknu, hreinsaði Eyjuna af ösku og byggði á ný samfélag sem ekki á sér hliðstæðu í veröldinni.