Ellidi.is logo

a hvorki datt af honum n draup. Hann kvartai aldrei.

Munurinn okkur afa

Vann sn verk af samviskusemi stt vi gu og menn.

27 nóvember 2020

 Hann afi minn, Guðni Kristófersson, fæddist í Stóra-Dal undir Eyjafjöllum árið 1903. Fyrstu skrefin tók hann á moldargólfinu í torfbænum enda komu ekki fjalir þar yfir fyrr en hann var um fermingaaldur. Hann var 11 ára þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst. Þegar henni lauk var afi 15 ára. Á þeim tíma dóu 22 milljónir manna. Afi lifði þetta af.
Þetta ár, 1918, þegar heimsstyrjöldinni lauk, heilsaði árið Íslendingum með veðurfari sem var með þeim hætti að það hefur síðan verið kallað „frostaveturinn mikli“. Katla tók upp á því að gjósa með tilheyrandi búsifjum þremur vikum áður en afi fagnaði 15 ára afmæli . Tveimur vikum síðar skall á heimsfaraldur sem hér var kallaður „spænska veikin“. 484 létust hér á landi og um 50 milljónir í heiminum. Áfram lifði afi.
 
 
Þegar afi var 26 ára skall á alþjóðleg kreppa, kreppan mikla. Um allan hinn vestræna heim tóku við miklar hörmungar. Talið er að um sjö milljónir hafi dáið úr hungri. Samhliða geisaði óðaverðbólga, atvinnuleysi og óstöðugleiki. Áfram lifði afi.
 
 
Fyrsta barn sitt eignuðust hann og amma Svava árið 1931. Afi var þá 28 ára. Hún hlaut nafnið Auðbjörg eftir langömmu minni. Barnið var fríðleiksstúlka, bráðger og björt. Hún drukknaði í bæjarlæknum í Stóra-Dal árið 1933. Þá var afi 30 ára. Hann hélt áfram.
 
 
Þegar afi var 36 ára skall á önnur heimsstyrjöld. Áður en yfir lauk höfðu 60 milljónir manna látist í þessum átökum. Hér á landi létust 159 Íslendingar til viðbótar við hina tugi milljónanna sem létust erlendis. Hann var 42 ára þegar þessari styrjöld var lokið. Áfram lifði afi.
 
 
Afi átti enn eftir að sjá heiminn í átökum og hörmungum. Hann var 47 ára þegar Kóreustríðið hófst (4,5 milljónir létust), 52 ára þegar átökin brutust út í Víetnam (4,3 milljónir létust) og 64 ára þegar borgarastyrjöldin í Nígeríu geisaði (þrjár milljónir létust). Áfram hélt ástandið og þegar afi var 75 ára tók Afganistan að loga í ófriði (tvær milljónir létust), 88 ára þegar stríð skellur á í Bosníu (200 þúsund létust) og 91 árs þegar hörmungar ríða yfir með borgarastyrjöld í Rúanda þar sem hátt í milljón lést. Þetta eru bara nokkrar þeirra fjölmörgu styrjalda sem geisuðu á ævi afa. Áfram lifði hann.
 
 
Þetta voru bara stríðin. Þá eigum við eftir aðrar hörmungar sem gerðust á líftíma hans. 47 ára hefur hann lesið um flóðin í Gvatemala sem kostuðu 40 þúsund manns lífið, 63 ára þegar fréttir bárust um að jarðskjálfti í Tyrklandi hefði tekið þrjár milljónir lífa, 67 ára þegar stormsveipur fór yfir Indland og olli dauða 500.000 manns og 92 ára þegar jarðskjálfti í Japan varð 6.500 manns að bana. Áfram lifði afi.
 
 
Svo voru það farsóttirnar. Það var ekki eins og afi væri sloppinn þótt hann hafi lifað af spænsku veikina þegar hann var 15 ára. Til að nefna örfáar (á ævitíma afa geisuðu 48 heimsfaraldrar) þá var hann 21 árs þegar bólusóttin tók hálfa milljón lífa, 52 ára þegar Asíuinflúensan varð fjórum milljónum að bana og 67 ára þegar Hong Kong-flensan kostaði fjórar milljónir mannlífa. Ekki má svo gleyma því að afi var 78 ára þegar AIDS tók að breiðast út. Hann var svo sem ekki í áhættuhópi en engu að síður sá hann þann vágest taka 32 milljónir lífa.
 
 
Afi fæddist árið 1903 og dó árið 1996, 93 ára gamall. Ég fullyrði að hann tók þessu öllu, og langtum fleiru, af fullkomnu æðruleysi. Það hvorki datt af honum né draup. Hann kvartaði aldrei heldur vann sín verk af samviskusemi í sátt við guð og menn. Barmaði sér ekki þrátt fyrir hörmungar. Ég var honum blessunarlega samferða öll mín mótunarár. Ég vildi að ég hefði lært meira af honum.
 
 
Ég nefnilega nenni ekki þessu Covidveseni. Mig langar að komast á pöbbinn og geta horft á handbolta.