Ætternið er ráðríkt
Ég hef gaman af grúski. Sérstakt dálæti hef ég á því að rótast í gömlum dagblöðum og tímaritum. Ræða við foreldra mína um gamla tíma og krukkast í kringum þá sem eru mér eldri og vitrari. Sjálfsagt er það meðal margra ellimarka þegar maður fer í auknu mæli að skoða hvaðan maður kemur. Kannski hefði maður átt að gera það fyrr. Þannig hefði maður ef til vill átt auðveldara með að átta sig á hvert maður ætti að fara. Í kvöld rótaðist ég í að lesa gömul eintök af Tímanum. Öðru fremur til að bera saman orðræðu um landbúnað fyrr og nú. Mér til gleði rakst ég þar á....
... minningargrein í blaðinu sem kom út þriðjudaginn 6. maí 1947 um hann langafa minn Kristófer Þorleifsson bónda í Stóra-Dal undir Eyjafjöllum.
Mig grunaði að einhver af mínum fjölmörgu skyldmennum kynnu að hafa gaman að því að sjá hvernig skrifað var um þennan merka mann.
Svona var um hann skrifað:
MINNINGARORÐ:
Kristófer Þorleifsson
Bóndi í Stóra-Dal undir Eyjafjöllum
Hinn 2. marz þ. á. andaðist að heimili sínu, Stóra-Dal undir Eyjafjöllum, öðlings- og sæmdarmaðurinn Kristófer Þorleifsson bóndi þar. Hann var fæddur í Stóru-Mörk 16/2.—1866, sonur hjónanna Þorleifs Árnasonar og Kristínar Hannesdóttur.
Ungur fluttist Kristófer að Stóra-Dal, höfuðbólinu forna, sem þjóðin mun telja, að sífellt hafi verið í eign og ábúð manna af sömu ættinna, afkomenda goðans stórbrotna, Runólfs Úlfssonar. Tengsl Kristófers við þá ætt voru ótvíræð, en hann var einnig tengdur 'böndum náins skyldleika annarri merkri ætt, Högnaætt, sem jafnan hefir verið í margt þjóðkunnra ágætismanna. Nægir í því sambandi að minna á eina grein hennar, Þorvaldsættina og Tómas Sæmundsson, sem allir íslendingar elska og dá. Jón gamli Sigurðsson í Syðstu-Mörk sagði: Ætternið er ráðríkt og víst er um það, að Kristófer bar glögg merki góðrar ættar.
Árið 1891 kvæntist hann Auðbjörgu Ingvarsdóttur frá Neðra-Dal, mannkostakonu að allra dómi, sem hana þekktu. Lífið krafðist mikillar atorku af þeim og fórna og lét þeim enda raunir í té, en mikið gaf það þeim. Tólf mannvænleg börn gaf það þeim, sem öll éru á lífi. Auðbjörg andaðist eftir langvarandi vanheilsu 19. ágúst 1943.Með Kristófer í Stóra-Dal hvarf á braut einn gagnmerkasti fulltrúi hinnar eldri kynslóðar undir Eyjafjöllum, maður, sem stóð jöfnum fótum í hinum gamla og nýja tíma og hafði nóg vit og fulla djörfung til að hagnýta sér hvort tveggja til aukins þroska, manndóms og menningar.
Gáfur átti hann, sem hefðu getað skapað honum sess meðal helztu menntamanna þjóðarinnar, ef efni hefði ekki brostið til þjálfunar þeim. Hlutskipti hans varð þrotlaust brauðstrit frá æskudögum til elliára, sem oft gaf lítið í aðra hönd. Það sá þó borgið uppeldi tólf góðra og dugmikilla borgara og óðal ættmenna hans mun lengi bera
handtökum hans vitni. Það er sýnilegur og dýrmætur ávinningur af ævi þessa dáðríka drengs. Likamlegt strit hans gaf honum ærið verkefni, en þó sneið það anda hans engan veginn þröngan stakk. Víðsýnn og leitandi andi hans var gæddur orku og magni, sem jafnan leitaðist við að brjóta til mergjar viðfangsefni samtíðarinnar á sviði þeirra andlegu efna, sem mestu varða og fróðleikur hans og ást hans á sögu þjóðarinnar og aðdáun hans á baráttu hennar við mannraunir og erfiðleika og þeim mönnum, sem fyrr og síðar stóðu í fylkingarbrjósti og vörðuðu veginn, var hverjum þeim heimil eign, sem eyru hafði til að heyra. Var fengur og yndi að ræða við hann um þau efni, sem önnur, er á góma bar hjá honum.
Ég hefi drepið lítillega á fáa en merka þætti í ævi Kristófers, bóndann, eiginmanninn, föðurinn, trúmanninn og fræðimanninn, en fleiri mætti nefna.
Ekki væri óviðeigandi að minnast líka á gestgjafann, sem öllum tók opnum, hlýjum örmum og naut í því góðrar aðstoðar konu og barna, og það samir líka vel að geta þess, þegar Kristófers er minnzt, að hann var einn þeirra mörgu, frjálslyndu umbótamanna með þjóð vorri, sem hugsjón samvinnustefnunnar var ekki hégómi, heldur hjartans mál. Ungur hafði hann kynnzt hörðum fjötrum verzluharhátta, sem voru leyfar útlendrar áþjánar og hann vissi, að samvinnan var merkur þáttur í baráttu íslenzkrar alþýðu fyrir bættum lífskjörum og meiri menningu. Kjörorð hans virtist: Ekkert mannlegt er mér óviðkomandi. Átthagatryggð virðist nú í rénun hér á landi og los á mörgu. Kristófer í Stóra-Dal var þar rótfastur og hann varð þeirrar náðar aðnjótandi að fá að dvelja þar til hinztu stundar í öruggu skjóli barna sinna og látinn hlaut hann legstað í nálægð kirkju sinnar í Stóra-Dal, sem hann hafði þjónað með elsku og trúmennsku á helgum dögum lengst af ævinnar.
Jarðarför hans var fjölmenn, glöggur vottur vinsælda hans, og þrír prestar mæltu yfir moldum hans af næmum skilningi og mikilli hlýju í garð hins góða drengs, sem kvaddur var hinztu kveðju.
Svo þakka ég Kristófer margar ánægjulegar viðræðustundir og óska honum til hamingju með það samfélag, sem ég veit, að hann dvelur nú í í dýrð guðs.
Eyfellingur.
Það er ef til vill mismunandi hvað við tökum með okkur úr svona lestri en einhvern veginn stendur þetta upp úr fyrir mér: „Gáfur átti hann, sem hefðu getað skapað honum sess meðal helztu menntamanna þjóðarinnar, ef efni hefði ekki brostið til þjálfunar þeim. Hlutskipti hans varð þrotlaust brauðstrit frá æskudögum til elliára, sem oft gaf lítið í aðra hönd.“
Minningargreinina í Tímanum má lesa hér: (http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=57452&pageId=1004228&lang=is&q=Krist%F3fer%20%DEorleifsson%20St%F3ra)
Þannig var það nú!