Framlög Vestmannaeyjabæjar með þjónustu dagforeldra aukin um helming

Dagforeldra úrræði er einn af hornsteinum þjónustu við foreldra og börn þeirra.  Hér í Vestmannaeyjum höfum við verið afar heppin með það fólk sem valist hefur í þessa þjónustu.  Það þekki ég bæði sem foreldri og síðar sem bæjarstjóri.  Hlutverk sveitarfélagsins hvað þessa þjónustu varðar er að veita leyfi til starfseminnar en dagforeldrar eru að öðruleiti sjálfstætt starfandi.  Þeir ákveða sjálfir sína gjaldskrá og stjórna starfseminni. Hér í Eyjum eins og víðast eru daggæslugjöldin niðurgreidd af sveitarfélaginu

Þar til viðbótar hefur Vestmannaeyjabær tekið upp svo kallaðar heimagreiðslur eða ummönnungargreiðslur, ætlaðar foreldrum sem velja að nýta sér ekki dagvistunartilboð.

Þjónusta dagmæðra þarf að þróast í takt við leikskólagjöld

Í dag liggur fyrir að mismunur á kostnaði vegna vistunar barna hjá dagforeldrum annars vegar og á leikskóla hins vegar hefur aukist mikið undanfarið m.a. vegna ákvörðunar ráðsins um að lækka leikskólagjöld. Það er því orðið brýnt að mæta þessar stöðu og auka framlög Vestmannaeyjabæjar til þessarar þjónustu. 

Því hefur nú verið tekin ákvörðun um að framlög Vestmannaeyjabæjar vegna dagvistunar í heimahúsum hækki um 50% frá því sem er í dag og að hækkunin taki gildi frá og með 1. janúar 2018.

Mikil aukning á framlögum með þjónustu dagforeldra

Tilgangurinn með þessari hækkun er að létta álögum af nýbökuðum foreldrum vegna dagvistunar í heimahúsum með því að færa greiðslur nær þeim kostnaði sem er fyrir barn á leikskóla þótt vissulega sé gjaldskrá dagforeldra ákveðin af þeim sjálfum án aðkomu Vestmannaeyjabæjar.  Niðurgreiðsla fyrir mánaðarklukkustund er nú 4.706 kr fyrir foreldra í sambúð en hækkar í 7.059 kr. Fyrir einstæða foreldra er niðurgreiðslan 5.430 kr en fer í 8.145 kr.

Stór skref tekin

Þjónusta við börn eru fjárfesting til framtíðar. Vestmannaeyjabær hefur á seinustu árum lagt þunga áherslu á að bæta þjónustu við börn og barnafjölskyldur eftir því sem við verður komið.  Á seinustu tveimur árum höfum við til að mynda: tekið upp heimagreiðslur, niðurgreitt þjónustu dagmæðra frá 9 mánaða aldri, fjölgað leikskólaplássum, lækkað leikskólagjöld, tekið upp frístundakort og fl.  Nú tökum við eitt skrefið í viðbót og aukum framlög með daggæslugjöldum hjá dagforeldrum.

Previous
Previous

Fæðingaþjónusta er óviðunandi í landsbyggðunum

Next
Next

Það þarf kjark til að breyta