Fáránleg ákvörðun framkvæmd á fáránlegan máta.
Bresku gamanþættirnir "Yes Minister" sýndu baráttu ráðherrans Jim Hacker við skrifræði og afskipti opinberra starfsmanna, einkum fastaritara hans, Sir Humphrey Appleby. Þar til núna hélt ég að þessir þættir sýndu á öfgakenndan hátt hvernig embættismenn seilast eftir valdi og láta sér fátt um finnast þótt ráðherrar maldi í móinn. Eftir kaup Landsbankans á TM sé ég að þessir þættir eru ekki nægilega ýktir til að ná yfir íslenskan veruleika.
Eins og kók og pulsa
Í ljós hefur komið komið að ríkisfyrirtækið Landsbankinn tók sig til og keypti eitt stykki Tryggingafélag fyrir 28.600 milljónir í andstöðu við vilja fjármálaráðherra, án upplýsinga til bankasýslunnar (sem fer með 98,2% eignarhlut í bankanum) og í trássi við eigendastefnu. Kaupverðið greiðist með reiðufé, svona eins og þegar maður kaupir sér kók og prins.
Mér er drull.....
Lilja Björk Einarsdóttir -bankastjóri í ríkisbankanum- var alveg skýr hvað þetta varðar og sagði að það breytti ekki neinu þótt að fulltrúar eigenda -fjármálaráðherra og bankasýslan- væru á móti þessum kaupum. Umorðað þá sagði hún hreint út: „Mér er drullusama hvað fjármálaráðherra, bankasýslan og allt þetta lið vill – við ætlum samt að gera þetta“.
Fáránleg ákvörðun, fáránleg framvæmd
Mér er minnistætt eitt atriði í þessum þáttunum góðu, „Yes Minister“. Þá sagði Sir Humphrey:
Staðreyndin er sú að það er fráleitt að ríkið færi út kvíarnar á samkeppnismarkaði. Það er enn fáránlegra að gera það á þennan máta.