Fyrirliggjandi samgönguáætlun fyrir árin 2019 til 2033 er óásættanleg

Í morgun fór fram fundur í bæjarráði í Ölfusinu.  Meðal þess sem þar var rætt var samgönguáætlun fyrir árin 2019 til 2033.  Að mati allra sem sátu fundinn er áætlunin langt frá því að vera ásættanleg.  Hér í Ölfusinu, eins og um allt land, er bent á brýna þörf sem ekki er fyrirhugað að mæta til ársins 2033.  Þrátt fyrir góðan vilja þá er fyrirliggjandi samgönguáætlun óásættanleg. Það er hreinlega þörf á þjóðarátaki þegar kemur að úrbótum og eðlilegt að gerð sé krafa á ríkisstjórn að stíga fastar fram.  

6822 umferðaslys, þar af 13 banaslys.

Þegar rætt er um samgöngur er það oft í tengslum við slys.  Sú umræða ein ætti að vera valdhöfum næg ástæða til að grípa til aðgerða sem vart eiga sér fordæmi meðal þessarar þjóðar.  Í fyrr urðu enda 6822 umferðaslys og þar af 13 banaslys og 156 alvarleg slys.  Það er ekki ásættanlegt.

350 þúsund manns að standa undir samgöngum sem þjónusta þarf milljónir

Við Íslendingar erum ekki nema rétt tæplega 350 þúsund.  Við tókum hinsvegar á móti rúmlega 2 milljónum gesta í fyrra.  Hingað til höfum við farið þá leið að fjármagna framkvæmdir af skattfé þessara 350 Íslendinga.  Það þarf ekki stórkostlegt hugmyndaflug til að átta sig á að við þurfa nýja hugsun ef við ætlum að byggja upp innrigerð fyrir þennan vaxandi fjölda.  Hóflega má áætla að það vanti a.m.k. 10 milljarða á ári til að það sé hægt.  Það fjármagn liggur ekki á laus í núverandi rekstrarumhverfi.

Bættar samgöngur eru hluti af lausn á lóðaskorti

Höfuðborgarsvæðið er vanmátta þegar kemur að því að svara eftirspurn eftir lóðum.  Fasteignaverð hefur hækkað von úr viti, ungt fólk situr fast í foreldrahúsum, húsnæðismarkaðurinn er fátækragildra og talað er um neyðarástand hvað húsnæðismál varðar.  Húsnæðisskorturinn -ásamt samgöngum- er að verða eitt stærsta úrlausnarefni okkar sem þjóðar.  Með bættum samgöngum út úr borginni er hægt að bregðast hratt við.  Þannig gætum við í Ölfusinu auðveldlega tekið á móti tvö til þrjúþúsund íbúum á skömmum tíma svo fremi sem ríkið sinni nauðsynlegum samgöngubótum.  Ölfusið er ekki í nema rétt um 30 mín akstursfarlægð frá borginni og tækifærin þar mikil.

Samgönguráðherra bæði kann og getur

Lengi má áfram telja rökin fyrir þörfinni á þjóðarátaki hvað samgöngur varðar.  Rökin eru öllum kunn.  Við vitum líka öll sem er, það er ekki endalaust hægt að leggja þyngri klafa á ríkissjóð.  Það þarf að leita nýrra leið.  Þetta allt er þekkt.  Það sem helst vantar er kraftur og þor til að fara nýjar leiðir.  Ég hef þekkt núverandi samgönguráðherra lengi og veit að hann býr yfir hvorutveggja.  Sigurður Ingi bæði kann og getur tekið þátt í lausn þessarar stöðu.  Ég er því bjartsýnn á þjóðarsátt um bættar samgöngur.  

Previous
Previous

Ungt fólk leitar út fyrir borgina

Next
Next

Drengirnir okkar nauðga