Katrín við það að missa af tækifæri til áhrifa
Nú hillir undir nýja ríkisstjórn undir forystu Bjarna Benediktssonar þar sem Sjálfstæðisflokkur hyggst mynda stjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð. Með fyrirvara um að enn hefur ekki komið fram hverjar forsendur slíkrar stjórnar eru þá líst mér nokkuð vel á þessa fyrirætlan. Vissulega er ekki víst að svo tæpur meirihluti haldi í heilt kjörtímabil en þetta er tilraunarinnar virði.
Ætlar ekki að smala villköttum
Nái þessi stjórnarmyndun fram að ganga má öllum ljóst vera að Katrín Jakobsdóttir formaður VG lét framhjá sér fara tækifæri til að axla ábyrgð. Í stað þess að sýna forystu og stjórnun fylgdi hún straum stjórnleysis innan eigin flokks. Straumnum sem bergmálar gagnrýni án lausna. Hávaða án innihalds, orða án merkinga. Hún staðfesti í raun að hún ætlar sér ekki að verða sá villikattasmali sem þörf væri á ef flokkur hennar ætlar að hafa alvöru áhrif.
Horfið tækifæri
Þar með sópast af borðinu tækifæri fyrir hina íslensku þjóð til að leiða í jörðu deilumál seinustu áratuga undir stjórn tveggja stærstu flokka á alþingi sem standa fyrir sitthvorn pólinn og hafa eftir því breiða skírskotun til umbóta. Tækifæri til að sætta sjónarmið um náttúruvernd, nýtingu auðlinda, afstöðu til Evrópusambandsins, framtíðar fyrirkomulag í landbúnaði, uppbyggingu heilbrigðiskerfis og svo margt annað.
Hefði getað endurmótað heftandi samstarfsmunstur
Um leið hefði Karín í samstarfi við Bjarna getað endurmótað löngu úrelt og heftandi samstarfsmunstur í íslenskum stjórnvöldum þar sem kaldastríðsviðhorf hafa reist girðingar mili flokka og þar með tryggt miðjuflokkum áhrif langt umfram lýðræðislegt umboð.
Katrín meðvituð um stöðuna
Ekki efast ég um að Katrín er meðvituð um stöðuna og missinn. Það er ekkert óeðlilegt að hún reyni í örvæntingu að berja í brestina þótt vissulega komi á óvart að hún skuli leita liðsinnis Framsóknarflokksins í þeim tilraunum (sjá hér).
Sérstaða VG liggur í að gagnrýna án vilja til að axla ábyrgð
Eftir stendur að Vinstri græn ætla að marka sér sérstöðu sem flokkur sem vill standa á hliðarlínunni og gagnrýna fremur en að axla ábyrgð og veita forystu. Vel má vera að vinstrimönnum á Íslandi líki vel að styðja þannig flokk. Annar möguleiki er að þeir telji atkvæðum betur varið hjá flokkum sem eru til í að axla ábyrgð.