Mannvirðing er almenn og ekki valkvæð

Ég hef áður skrifað pistil um hugtakið „mannvirðing“.  Í þessu gagnsæja orði felst sú virðing sem allir eiga skilið fyrir það eitt að vera manneskja.  Mannvirðingin er almenn.  Hún á við alla, öllum stundum í öllum aðstæðum.  Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna segir að: „...allir séu jafnbornir til virðingar og óafsalanlegra réttinda sem er undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.“ 

Settu hann í apabúrið

Í nýliðinni viku kom upp leiðindaatvik þar sem áhorfendur á íþróttaleik á Sauðárkróki kölluðu inn á leikvöllinn niðrandi orð þar sem vegið var að íþróttamanninum Kristófer Acox.  Þessi frábæri íþróttamaður er dökkur á hörund og hin niðrandi orð voru: „Ingi, taktu Kristó útaf og settu hann í apabúrið.“  Sannarlega ömurleg framkoma og eðlilega báðust ábyrgðaraðilar leiksins afsökunar á þessu.  Sem betur fer á ekki að viðgangast að íþróttamenn njóti ekki mannvirðingar.

Samfélagið bregst við

Athyglisvert þótti mér hvernig samfélagið stóð saman um þessa kröfu um mannréttindi til handa íþróttamönnum.  Á twitter, facebook og víðar voru hin niðrandi orð fordæmd.  Slíkt hið sama var eðlilega gert í almennum fjölmiðlum.  Það athyglisverða við þetta þótti mér að svo virðist sem samfélagið telji að mannréttindin séu ekki almenn heldur sértæk.   Sjálfur hef ég í hartnær 20 ár tilheyrt stétt stjórnmálamanna.  Fáir krefjast mannréttinda þeirri stétt til handa.

Er mannvirðingin fyrir stjórnmálafólki minni?

Að gamni mínu fletti ég upp bæði sjálfum mér og nokkrum félögum mínum úr stétt stjórnmálafólks.  Hér fyrir neðan má finna nokkur dæmi um hvernig sjálfsagt þykir að tala um persónur stjórnmálamanna:

Bjarni Benediktson; „Þetta er sjálfstæðiskítseiði sem lýgur því sem honum dettur í hug.“

Áslaug Arna; „Þessi stelpa er heimsk og veruleikafirrt tík.“

Sigmundur Davíð;  „Hann er latur, lyginn og falskur popúlisti sem eingöngu er í pólitik fyrir sjálfan sig.“

Jóhanna Sigurðardóttir; „Þessi kelling ætti að kveikja í sér“

Elliði Vignisson; „hrokagikkur, hálfviti, kjáni og siðblindingi“

Dagur B. Eggertsson; „Heimsk bulluskjóða sem er örugglega með Alzheimer“.

Vigdís Haukdsóttir „Æiii nennir einhver að segja henni að enginn þoli hana enda er hún ömurleg persóna“.

....listinn er endalaus.

Gagnrýni er ekki skortur á mannvirðingu

Nú er rétt að taka það fram að það er sjálfsagt og eðlilegt að fólk gagnrýni bæði stjórnmálamenn, íþróttafólk og hvað það sem þeim sýnist.  Þannig er ekkert að því að einhver segi að Kristófer Acox hafi verið slakur í tilgreindum íþróttaleik eða jafnvel að þú vonir að hann hitti ekki úr einu einasta skoti.  Það er heldur ekkert að því að segja að Sigmundur Davíð og Elliði Vignisson séu slæmir stjórnmálamenn sem skilja ekki kjósendur eða jafnvel að þú vonir að þeir tapi kosningum. 

Bóndi í Ölfusi og þingmaður á fyllerí eiga báðir rétt á mannvirðingu.

Ég minni enn og aftur á að mannvirðing er grundvallarvirðing sem allir eig rétt á.  Hún er jafn sjálfsögð og rétturinn til að takast málefnalega á.  Ekkert getur svipt okkur henni og enginn hefur rétt til að afsala sér henni.  Hún tekur til allra, allsstaðar.  Það skiptir ekki máli hvort þú ert hörundsdökkur leikmaður á Sauðárkróki, fjármálaráðherra, bóndi í Ölfus eða þingmaður sem fer á fyllerí og talar ógætilega. 

Málið er stærra en svo að þetta snúist bara um líðan eða velferð stjórnmálafólks.  Málið er að ef við lítum ekki á mannréttindi sem almenn og ófrávíkjanleg þá erum við þar með búin að ákveða að það megi útdeila þeim til sumra, til dæmis eftir húðlit eða starfi, en ekki annarra.

Allir verða að eiga skilið mannvirðingu og það er hættuleg hræsni að krefjast mannvirðingar til handa einum en taka þátt í að svipta aðra henni.

Previous
Previous

Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og efling samkeppnissjóða

Next
Next

Stórframkvæmd í Ölfusinu