Samgöngur snúast um lífsgæði

Enn eitt sumarið fjölgar ferðamönnum til Vestmannaeyja mikið.  Séu júní og júlí í ár borin saman við sömu mánuði í fyrra kemur í ljós að ásóknin eykst um 20 til 30% á milli ára.  Samt er fluttningsgeta skipsins ekki full nýtt.  Samt liggur skipið bundið í nokkra klukkutíma hvern dag þótt áhöfn sé á launum á meðan,  Samt erum við heimamenn látnir berjast um þessi lífsgæði við vaxandi straum ferðamanna.

Vegna þessa sendi ég samgönguyfirvöldum neðangreindan póst:

_________________________________________________________________________________

Komiði sæl

Með tilvísun í þá staðreynd að aldrei hafa fleiri farþegar ferðast með Herjólfi milli lands og Eyja óska ég eftir því að tafarlaust verði bætt við ferðum í áætlun skipsins þannig að ferðir þess verði aldrei færri en 6 á dag fram í miðjan september þegar ferðasumrinu lýkur.  Samhliða er óskað eftir því að ferðir í vetraráætlun verði ekki færri en 5 á dag.  Það myndi merkja að fram í miðjan september sigli skipið viðbótarferð kl. 16:00 á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum, fimmtudögum og laugardögum. 

Samkvæmt upplýsingum sem Vestmannaeyjabær býr yfir hefur farþegum fjölgað um 25% til 30% í júní og júli samanborið við árið 2015.  Öllum má ljóst vera að lífsgæði íbúa eru skert þegar þeir komast ekki til á frá heimilum sínum vegna ásóknar ferðamanna í þá grunnþjónustu sem samgöngur eru.  Sannleikurinn er sá að á hverjum degi myndast biðlisti á bíladekk og oft gerist slíkt einnig með farþega.  Það er fráleitt að samgönguyfirvöld skuli ekki tafarlaust hafa brugðist við og bætt við ferðum inn í áætlun.  Það er fráleitt að skipið skuli liggja bundið við bryggju í Vestmannaeyjum með áhöfn á fullum launum á meðan fólk getur ekki ferðast milli lands og Eyja.  Það er fráleitt að samgönguyfirvöld skuli skammta íbúum Vestmannaeyja þau lífsgæði úr hnefa sem fylgja því að hafa frelsi til að ferðast til og frá heimilum sínum.

Vestmanneyjabær skorar á þingmenn Suðurlands og samgönguyfirvöld öll að bregðast nú hratt við.  Ferðaþjónusta er ein mest vaxandi atvinnugrein hagkerfis okkar Íslendinga og Vestmannaeyjar vinsæll áfangastaður.  Yfirvöld verða að skilja að fjárfesting í innviðum er forsenda vaxtar. Það má ekki gerast að heimamenn missi velviljann gagnvart ferðamönnum.  Gerist það verður á brattann að sækja hvað varðar að efla þessa annars góðu atvinnugrein. 

Ég óska eftir tafarlausri endurgjöf á þetta erindi með svörum við því hvort og þá hvernig þessari beiðni verður mætt.

Kveðja

Elliði Vignisson

Bæjarstjóri í Vestmannaeyjum

 (afrit verður sent á þingmenn Suðurkjördæmis og bæjarfulltrúa í bæjarstórn Vestmannaeyja)

_______________________________________________________________________________

Vonandi verður brugðist við með aðgerðum í samræmi við mikilvægi.

Previous
Previous

Herkostnaður hagræðingar í sjávarútvegi var -og er- greiddur af sjávarbyggðunum

Next
Next

Gef ekki kost á mér í prófkjöri