Samstarf kirkju og skóla í Vestmannaeyjum
Þótt hin íslensku jól eigi sér skírskotun í heiðnum sið þá eru þau í dag fyrst og fremst hátíð kristinna manna. Þótt markslögmálin setji mark sitt sannarlega á þessa hátíð, eins og flestar aðrar, þá er kjarni þeirra fyrst og fremst kærleikur. Deilt hefur verið um hvort skólar eigi að nálgast jólin á forsendum trúarinnar og þá í samstarfi við kirkjuna. Í mínum huga er þeirri spurningu auðsvarað: „Já skólar eiga umbúðalaust að fagna þessari kærleikshátíð og nota tækifærið til að uppfræða nemendur um bæði siðferðið sem í henni er fólgin og siði íslendinga sem kristinnar þjóðar. Það er best gert með...
...nánu samstarfi við kirkjuna.
Gott samstarf
Í þessu fer skoðun mín saman við opinbera stefnu fræðsluyfirvalda í Vestmannaeyjum. Skólar í Vestmannaeyjum hafa –eins og víðast hvar um land- hafa átt því láni að fagna að eiga farsælt samstarf við trúfélög og þá sérstaklega kristna söfnuði. Samstarfið hefur bæði náð til formlegs samstarfs um trúarbragðarfræðslu, kirkjuferðir skólabarna á aðventu og aðstoð presta þegar nemendur eða starfsmenn verða fyrir áfalli. Kirkjur hafa staðið myndarlega að barna- og unglingastarfi og kynnt slíkt á vettvangi skólanna til jafns við önnur æskulýðsfélög. Skólabörn í Vestmannaeyjum hafa ennfremur notið góðs af dreifingu Gídeonfélaga á Nýja testamentinu til skólabarna en hana hafa þeir stundað í næstum 60 ár.
Þjóðkirkjan er lang stærst
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands eru 30 kristin trúfélög skráð á Íslandi. Í þau eru skráð tæplega 90% landsmanna. Þjóðkirkjan er langstærst en um 77% landsmanna eru skráðir í hana. Næst stærst er Kaþólska krikjan með rúmlega 3% og síðan koma Fríkirkjan í Reykjavík (2,74%) og Fríkirkjan í Hafnafirði (1,78%),
Umburðalyndi
Við hjá Vestmannaeyjabæ höfum séð það mikilvægt að skólar á okkar vegum skilgreini sig sem stofnanir í fjölmenningar- og fjölhyggjusamfélagi og gæti sem slíkir að réttindum allra. Skólastarf ber því að stuðla að umburðarlyndi og tillitssemi. Þannig ber að temja nemendum virðingu fyrir einstaklingum sem hafa aðra lífsskoðun eða aðra siði en þeir sjálfir. Umburðarlyndi lærist ekki í tómarúmi.
Verum ekki feimin
Í lögum um grunnskóla segir að starfshættir grunnskóla skuli mótast af umburðarlyndi, kærleika og kristinni arfleið íslenskrar menningar. Fræðsluráð Vestmannaeyja hefur því séð það sem skyldu skólanna að leggja sérstaka rækt við kristinfræði um leið og tekið er tillit til nemenda sem tilheyra minnihlutahópum.
Við höfum því hvat til og óskað eftir áframhaldandi samstarfi við trúfélög og kirkjur í Vestmannaeyjum.
Við eigum ekki að vera feimin við trú og trúarbrögð.