Það eru miklir peningar

Útsvarsgreiðendur velta oft fyrir sér hvað verður um peningana sem þeir fela sveitarfélaginu að sýsla með.  Eðlilega er þar oftast horft til þess sem er sjáanlegt í umverfinu.  Malbik á götur, laun fyrir starfsemenn, styrkir til félaga og margt fl.  Alla jafna hefur fólk þá tilfinningu að útsvar þeirra fari til að greiða fyrir þjónustu í nærsamfélaginu.  Fáir gera sér sennilega grein fyrir því að á hverju ári fara háar fjárhæðir út úr sveitarfélaginu í...

...sameiginlega pott, sem síðan er úthlutað úr til að jafna stöðu sveitarfélaga. 

 

Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Þá greiðir sjóðurinn framlög til samtaka sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra aðila í samræmi við ákvæði laga.

Til að einfalda málið má í raun segja að Jöfnunarsjóður virki þannig að öll sveitarfélög greiða 1,72 af álagningarstofni útsvars til sjóðsins.  Þessu, ásamt framlögum ríkisins,  útdeilir sjóðurinn svo aftur í samræmi við reiknaðar þarfir sveitarfélaga.

Vestmannaeyjabær hefur nú tekið saman greiningu á framlögum Vestmannaeyjabæjar til sjóðsins og greiðslur sem fást til baka.

Árið 2011 greiddi Vestmannaeyjabær um 106 milljónir meira til sjóðsins en hann fékk úr sjóðnum.  Árið 2012 greiddi hann um 118 milljónum meira til sjóðsins en hann fékk úr honum og árið 2013 var niðurstaðan sú að Vestmannaeyjabær greiddi um 160 milljónum meira í sjóðinn en hann fékk til baka. 

Þegar sérstaklega er litið til ársins 2013 kemur í ljós að Vestmannaeyjabær greiddi 107 milljónum meira til sjóðsins vegna framlaga til reksturs grunnskóla en úthlutað var til sveitarfélagsins vegna grunnskólans.  Á sama hátt greiddi Vestmannaeyjabær 53 milljónum meira til reksturs málaflokks fatlaðra en hann fékk til baka til að veita þá þjónustu.

Hér verður ekki efast um mikilvægi þess að styðja við veikari byggðir.  Stutt er síðan Vestmannaeyjabær var í þeirri stöðu að þurfa verulega á slíkum framlögum að halda.  Hér er eingöngu bent á að á þessum þremur árum hefur Vestmannaeyjabær greitt 383 milljónum meira í Jöfnunarsjóð en hann hefur fengið greitt til baka.

Það eru miklir peningar.

Previous
Previous

Auðvitað á að flytja opinber störf á landsbyggðirnar

Next
Next

Opið bréf til Eyjamanna og vina um allt land