43 ár frá goslokum - Sterkt samfélag með mikil tækifæri.

Í dag og næstu tvo daga fögnum við Eyjamenn því að 43 ár eru frá mesta gleðidegi í sögu Vestmannaeyja.  Deginum þegar tilkynnt var um formleg goslok í Vestmannaeyjum.  Ekki þarf að fjölyrða neitt um hversu hroðalegt gosið var fyrir íbúa Vestmannaeyja.  Allir sem einn máttu þeir um miðja nótt flýja heimili sín í fullkominni óvissu um hvort og þá hvenær þeir fengju aftur snúið til síns heima.  Fjölskyldur tvístruðust, verðmæti töpuðust og ógnin var rík.  Einhvern veginn gerist það ætíð að á þessum árstíma velti ég vöngum yfir stöðu samfélagsins.

Sterk staða

Í þessi 43 ár frá goslokum hafa skipst á skin og skúrir hjá okkur Eyjamönnum.  Í dag eru Vestmannaeyjar í gríðalega sterkri stöðu og framtíðin er björt svo fremi sem bæjarbúar sjálfir haldi vel á spöðunum. 

Ógnirnar...

....þekkjum við.  Þær eru fólgnar í skilningsleysi ríkisyfirvalda þegar kemur að samgöngum og heilbrigðisþjónustu.  Þar við bætist svo sú sterka ógn sem stöðugt er fólgin í sundurlindisfjandanum sem við ræsum reglulega.  Þegar við berjumst á banaspjótum hvert við annað og hlífum jafnvel ekki persónum hvers annars.  Sem betur fer er sú ekki staðan í dag, heldur ríkir bjartsýni og jákvæðni.

Tækifærin...

eru hinsvegar svo margfallt sterkari og framtíðin björt. 

Íbúafjölgun

Íbúum hefur nú fjölgað stöðugt í næstum áratug.  Búsettir Eyjamenn eru nú 4318 og þarf að fara aftur til ársins 2002 til að finna jafn marga íbúa.  Engin mælistika er betri til að meta ástandið en íbúafjöldi.  Undir henni eigum við framtíðina, styrkinn og stöðuna.  Án nægs íbúafjölda molna undirstöðurnar.

Sterkur rekstur

Rekstur sveitarfélgsins er sterkur sem gert hefur stjórnendum mögulegt að stórauka þjónustuna og þar með til að mynda að taka upp frístundakort, opna félagsheimili fyrir aldraða í Kviku, auka niðurgreiðslu til dagmæðra, taka upp heimagreiðslur, fjölga leikskólaplássum, byggja upp öflugan miðbæ, byggja upp innrigerð fyrir ferðaþjónustu og svo margt margt fleira. 

Sjávarútvegur er öflugur

Fyrirtæki í sjávarútvegi standa sterk.  Bæði Ísfélag og Vinnslustöð hafa fjárfest gríðarlega mikið í innviðum fyrirtækjana sem skapa þeim sterka stöðu inn í framtíðina.  Ný fyrirtæki í sjávarútvegi svo sem Marhólmar, Iðunn og Leo Fresh Fish hafa verið stofnuð og skapa störf og tækifæri fyrir tugi og jafnvel hundruði bæjarbúa.

Ferðaþjónusta styrkist hratt

Fyrirtæki í ferðaþjónustu eiga mikil tækifæri.  Á örskömmum tíma höfum við séð ótrúlega þróun í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum.  Í dag er stutt í að ferðaþjónustan verði alvöru stoð undir atvinnulífið á ársgrundvelli.  Það sem til þarf eru öflugri samgöngur.

Samgöngur

Samgöngur eru loks að nálgast það að fela í sér framtíðarsýn.  Hvað sem hver segir þá er ljóst að ný ferja kemur til með að valda straumhvörfum og stór fjölga þeim dögum sem hægt verður að sigla í Landeyjahöfn.  Áfram verða frátafir og áfram þarf að sigla eitthvað í Þorlákshöfn en það verður í langum færri tilvikum en verið hefur. Ernir sinna flugi af mikilli festu og veita frábæra þjónustu. 

Sterk innrigerð

Innrigerð Vestmannaeyja hefur styrkst. Samfara öflugri ferðaþjónustu og miklum straumi ferðamanna hefur afþreyingu og veitingaþjónusta stór aukist.  Ekki bara getum við heimamenn valið á milli bestu veitingastaða landins heldur höfum við aðgengi að fjölmörgum viðburðum og afþreyingarþjónustu.  Núna á næstu mánuðum bætist svo við bíó og ekki er að efast að þar er kærkomin viðbót.

Menning og mannlíf

Á fáums stöðum er menning og mannlíf öflugra en í Vestmannaeyjum.  Framboðið af slíku er líkara því að um væri að ræða milljónaborg.  Tónlist og myndlist er ofarlega á blaði hjá Eyjamönnum en leiklist og fleira á hér djúpar rætur.

Menntun

Framboð af menntunartækifærum í Vestmannaeyjum er gott.  Í við bót við grunnnám í grunnskóla höfum við hér þá mikilvægu stofnun Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum.  Þá er aðgengi að fjarnámi hjá Visku öflugt og gott og hafa hundruðir búsettra Eyjamanna nýtt sér þá leið til menntunar.  Ekki skiptir svo litlu að í fyrsta skipti í sögunni er nú verið að hefja staðnám á háskólastigi núna í haust þegar boðið verður upp á nám frá HR og HA í Sjávartengdri nýsköpun.

Samstaða og baráttuvilji

Í Vestmannaeyjum eigum við svo það öflugasta vopn sem til er í byggðabaráttu.  Við eigum samstöðu og baráttuvilja sem ekkert bítur á.  Eins og íslendingar standa með strákunum í Frakklandi, þannig standa Eyjamenn með sinni byggð.  Þannig fær ekkert okkur sigrað – ekki einu sinni eldgosið 1973 tókst að brjóta þrek Eyjamanna.  Með það vopn í fararteskinu kvíði ég ekki komandi tíma.

Gleðilega goslokahátíð.

Previous
Previous

Fullnaðarsigur - Landsbankanum gert að undirgangast óháð mat á verðmæti Sparisjóðs Vestmannaeyja

Next
Next

Hversu vel stendur ríkið við bakið á afrksíþróttafólki?