Hversu vel stendur ríkið við bakið á afrksíþróttafólki?

Nú áðan varð ég ásamt heimsbyggðinni vitni að því þegar afreksmenn í knattspyrnu frá rétt rúmlega þrjúhundruðþúsundmanna þjóð lagði stórveldi sem telur 55 milljónir íbúa.  Áhrifin eru gríðaleg.  Þau eru efnahagsleg, ímyndaleg, félagsleg, sálfræðileg og svo margt fleira.  Það leiddi hugann að því hvernig við sem þjóð stöndum að uppbyggingu og umhverfi afreksíþróttafólks.

Íþóttir sameina

Nú nýverið kusum við Íslendingar okkur forseta, ágætasta mann sem ég treysti vel í verkefnið.  Við erum um 330.000 manna þjóð og í hugum mjög margra er einn helsti tilgangurinn með þessu embætti að þar sé um sameiningartákn að ræða.  Embætti forseta kostar 259,7 milljónir á ári skv. gildandi fjárlögum.  Öll þjóðin er nú sameinuð í nafni íþrótta og í þetta skipti er það karlalandslið okkar í knattspyrnu. Heildarframlög ríkisins til afreksíþróttafólks þjóðarinnar eru 100 milljónir skv. þessum sömu fjárlögum. (Að megninu til eru íþróttamál annars greidd af sveitarfélögum svo sem öll íþróttahúsin, sundlaugarnar, knattspyrnuvellirnir, fimleikahúsin og fl.)

Gummi Ben orðinn landkynning

Björk er án efa fremsti tónlistamaður þjóðarinnar og sennilega fremsti listamaður hennar.  Hún hefur borið hróður okkar víða og við erum rík að eiga hana.  Á hálfu ári hafa um 650.000 manns horft á myndbandið við lag hennar Mouth mantra.  Á 4 dögum hafa um 300 þúsund manns horft á Gumma Ben fagna sigri á Austurríkissmönnum.

Tugir milljóna horfðu á leikinn gegn Englandi 

Talið er að yfir 200.000 Íslendingar hafi horft á allan landsleik Íslands og Englands núna áðan.  Þar við bætast tugir milljóna sem horfðu á hann í beinni útsendingu.  Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur vaxið mjög fiskur um hrygg og gestum þar hefur fjölgað stórkostlega, enda hljómsveitin frábær.  Heildar gestafjöldi á seinasta ári var um 77 þúsund.  Heildarframlög ríkisins til allra íþróttamála á seinasta ári var 602,9 milljónir. 

Allir eru að horfa til Íslands  

Íslandsstofa hefur verið að standa sig vel í kynningu á landinu.  Hún fær úthlutuðum 597 milljónum á hverju ári.  Fyrir það reynir hún –oft með góðum árangri- að ná athygli erlendra fjölmiðla.  Íslenska knattspyrnuliðið okkar er núna fyrsta frétt á flestum erlendum netmiðlum.  Umsögnin um liðið er undantekningalaust jákvæð og styrk þeirra er ekki hvað síst eignaður ótrúlegu landi og ótrúlegri þjóð.

Íþróttamenn eru fyrirmyndir

Það sem mestu skiptir eru svo áhrif íþróttamanna á ungmenni þjóðarinnar og hvatinn sem þeir eru okkur öllum –sem einstaklingum og þjóð- til að leggja okkur fram og standa okkur.  Það verður aldrei metið til fjár.

 Ríkið taki meiri ábyrgð á afreksíþróttafólki

Með þessum vangaveltum geri ég ekki lítið úr forsetaembættinu, Björk, Sinfó né Íslandsstofu.  Ekki frekar en nokkrum öðrum lið sem er á fjárlögum þótt sannarlega vilji ég forgangsraða í þágu grunnþjónustu.  Almennt vil ég líka fara varlega í að auka útgjöld ríkisins en mér þykir hinsvegar naumt skammtað af ríkinu þegar kemur að málefnum afreksíþrótta.  Sveitarfélögin bera hitann og þungann af mannvirkjum, áhugafélög og styrktaraðilar kosta þungann af þjálfun og uppbyggingu og það er því ekki til of mikils mælt að ríkið standi betur við bak afreksíþróttafólks.  Það er ekki hvað síst þau sem bera út hróður landsins, bæta ímynd okkar og efla okkur öllum dáð.

Áfram Ísland

Previous
Previous

43 ár frá goslokum - Sterkt samfélag með mikil tækifæri.

Next
Next

Samfélagsleg sátt rofin