47 ár frá upphafi gosins í Vestmannaeyjum
Í dag eru 47 ár frá upphafi gossins á Heimaey. Þessi dagur gerir mig ætíð tilfinningasaman og við fjölskyldan höfum það sem venju að gera okkur dagamun. Við, eins og svo margir minnumst þess þegar jörðin rifnaði í jaðri byggðarinnar í Vestmannaeyjum og glóandi hraun vall úr. Ég var þá fjögurra ára og sá náttúruhamfarirnar þeim augum. Myndin sem tekin var af mér þegar ég var nývaknaður þessa örlaganótt kemur mér oft í hug. Hún minnir mig á að að styrkur foreldra minna og æðruleysi þeirra komu í veg fyrir allan ótta. Nóttin og komandi mánuðir voru sama merki settir.
Einn hrikalegast atburður sem orðið hefur í sögu landsins.
Í dag skil ég hins vegar hversu litlu mátti muna að verr færi. Í ávarpi sínu við upphaf gossins sagði þáverandi biskup að varla hefði í annan tíma jafn mikill voði vofað yfir jafn mörgum Íslendingum á sama andartaki og þá nótt. Gosið á Heimaey væri einn hrikalegasti atburður sem orðið hefði í sögu landsins. Það voru vafalaust orð að sönnu og svo sárt sem þessi atburður lék marga þá var mikil sú mildi að ekki varð frekara tjón á lífi íbúa, björgunarmanna og framtíð byggðar.
Gosið var Eyjamönnum erfitt
Þeir sem ekki upplifðu þessa atburði hljóta að eiga erfitt með að skilja þær tætingslegu tilfinningar sem við Eyjamenn berum enn í dag til þessara hamfara. Ég hef áður haldið því fram að gosið hafi verið okkur Eyjamönnum erfiðara en seinni tíma söguskýring hefur viljað vera láta. Eftir því sem ég hef orðið eldri hefur sú skoðun mín styrkst. Eftir sem áður ber ég mikla og djúpa virðingu fyrir því viðhorfi sem oftast var haldið að mér sem barni og fólst í því að ræða þetta ekki of djúpt.
Heimsviðburður við svefnherbergisgluggann
Það er alveg ljóst að Heimaeyjagosið 1973 er stærsti einstaki atburðurinn í mínu lífi. Hvernig á annað að vera þegar maður sem fjögra ára gamalt barn horfir á heimsviðburð í örfárra tugi metra fjarlægð út um svefnherbergisgluggann heima hjá sér? Um miðja nótt máttu foreldrar mínir forða sér út úr nýbyggðu húsi þeirra, móðir mín þá ólétt af yngri bróður mínum, og halda til skips. Þar tók við sigling út í algera óvisssu með þá spurningu á vörunum hvort nokkru sinni yrði aftur snúið heim. Pabbi var megnið af gosinu í Eyjum við björgunarstörf en við mamma bjuggum megnið af tímanum í Stóra-Dal hjá föðurfólki mínu og í Grindavík hjá móðursystur minni. Maður skilur það þegar maður verður eldri hversu gríðarlegt álag þetta hefur verið fyrir Eyjamenn. Óvissan, röskunin, hættan og bjargarleysið hlýtur að hafa verið algert.
Einstök reynsla
Það er mér til þessa dags óskiljanlegt að fólk skuli hafa haft þetta af og hvað þá að hlífa okkur börnunum við þessu. Í minni minningu er gosið nánast eins og ævintýri. Ég man gosnóttina, ég man flatsængur í Grindavík og ég man eftir bíltúrum í sveitinni þar sem fylgst var með bjarmanum og vöngum velt yfir því hvað pabbi væri að gera á þeirri stundu. Að snúa heim til Eyja var fyrir fjögra ára barn eins og að flytja á tunglið. Allt var þakið ösku og hvergi grænan blett að sjá. Leiksvæðið var því bæði stórt, ókannað og spennandi. Fólk sem á sér jafn stóran viðburð sameiginlegan hlýtur að mótast af honum.
Ekki dvalið við vandamálin
Eyjamenn, eins Íslendingar almennt, dvelja ekki lengi við vandamálin en snúa þeim í verkefni. Með því er ekki lítið gert úr voðanum og þjáningunum. Hjá því verður ekki horft að Eyjamenn urðu að hverfa í hendingskasti frá heimilum sínum með fátt annað með sér en fötin sem þeir klæddust Ógnin var nálæg, auðskiljanleg og meðvituð. Eignatjónið varð gríðarlegt og við tóku tímar fullkominnar óvissu. Fjölskyldur tvístruðust og fréttirnar sem bárust af heimahögum voru oftar en ekki þungbærar.
Samfélög byggð á kjarki
Nú í kjölfar snjóflóða á vestfjörðum sér maður glöggt þann kjark sem leysist úr læðingi í litlum og nánum samfélögum við náttúruhamfarir. Hann er hreint magnaður sá kjarkur sem íbúar búa yfir þegar á reynir. Það þarf í senn æðruleysi og ríka ást á sínu samfélagi þegar ráðist er í að endurreisa og viðhalda samfélagi í kjölfar hamfara. Að velja að takast á við það risavaxna verkefni að byggja á nýi sinn bæ. Hreina hann ösku eða snjó og eignast á ný það samfélag sem er þeim svo kært. Að taka tafarlaust í sátt þá óblíðu náttúru sem ógnað hafði bæði lífi og eignum. Að veðja á rjúkandi eldfjallaeyju eða fjörð með snar bröttum og oft snæviþöktum hlíðum sem framtíð sína og sinnar fjölskyldu. Undir gunnfánum samheldninnar sneru Eyjamenn aftur og byggðu það fyrirmyndarsamfélag sem í dag á sér ekki hliðstæðu. Það þurfti kjark, dáð og þor til að endurreisa byggð í Eyjum. Af því áttu Eyjamenn nóg til að takast verkefnið. Það sýnir hvað hægt er að gera með samtakamætti og utanaðkomandi stuðningi.
Samhugur og drengskapur
Ár hvert nota ég og mín fjölskyld 23. janúar til að staldra við og minnast þessara ótrúlegu atburða. Það ætlum við einnig að gera í dag. Við þökkum þá guðsmildi að ekki hafi farið verr og hversu vel þó tókst við hrikalegar aðstæður. Í hörmungunum sýndi hin íslenska þjóð hvers hún er megnug. Samhugurinn og drengskapurinn var alger. Fyrir það er ég þakklátur Íslendingum öllum. Á sama hátt réttu vinaþjóðir okkar Íslendinga Eyjamönnum hjálparhönd, bæði í gosinu og því ógnvænlega verkefni sem við tók í kjölfar þess. Það voru vinahót sem Eyjamenn gleyma aldrei. Það eru vinahót sem Vestfirðingar og þá sérstaklega íbúar á Flateyri þurfa nú.