Að láta ekki sundurleitar skoðanir aftra samstarfi

Þegar vel tekst til eru stjórnmál list hins mögulega.  Það eru slæm stjórnmál að gera þau að list hins ómögulega og útiloka góða kosti fyrir land og þjóð.  Það er mín skoðun að farsælast væri fyrir land og þjóð að núna verði mynduð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og VG ásamt annað hvort Bjartri framtíð eða Viðreisn. 

Staðan er sterk

Eftir að kosningar hafa farið fram hljóta allir að geta viðurkennt að rekstrarleg staða ríkissjóðs er gríðarlega sterk.  Reyndar svo mjög að fara þarf langt aftur til að finna viðlíka stöðu.  Vandinn hér á landi er hinsvegar alvarlegur skortur á trausti, upplifun á ósanngirni og óróleiki.  Við þurfum því ríkisstjórn með breiða skírskotun.

Þurfum breiða skírskotun

Við þurfum ríkisstjórn sem sýnir í verki að stjórnmálin á Íslandi eru byggð á traustri lýðræðishefð og stjórnmálamenn láta sér í raun og veru annt um hag landsmanna og veg lands og þjóðar.  Við þurfum ríkisstjórn með talsamband jafnt við verkalýðsforystuna, atvinnulífið og almenning allan.  Ríkisstjórn með styrkan meirihluta og breiða ásýnd.

Nýsköpunarstjórnin

Árið 1944 var mynduð ríkisstjórn á Íslandi sem síðan átti eftir að reynast ein sú þekktari sem hér hefur verið mynduð.  Þar var um að ræða hina svokölluðu nýsköpunarstjórn undir forystu Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins.  Fáir efast um að sú ríkisstjórn lagði grunninn að þeim stóru skrefum sem land og þjóð tók á eftirstríðsárunum.  Skref sem tóku Ísland frá miðöldum inn í nútímann.

Hægri, vinstri og miðja

Nýsköpunarstjórnin var þriggja flokka stjórn Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokksins og Alþýðuflokksins.  Sem sagt sá flokkur sem var lengst til hægri, sá flokkur sem var lengst til vinstri og flokkur vinstramegin við miðju.  

Sterk staða þá sem nú

Nýsköpunarstjórnin tók við sterkri stöðu.  Erlendar innistæður Íslendinga námu þá meira en heildarútflutningsverðmæti tveggja ára.  Það voru tækifæri til að hefja stórsókn í atvinnuuppbyggingu, innviðum og velferð.  Þá uppbyggingu varð hinsvegar að gera á breiðum grunni.  Hljómar kunnuglega.

Að láta ekki sundurleitar skoðanir aftra sér

Stórsókn nýsköpunarstjórnar Ólafs Thors tóks ekki hvað síst vel vegna þess að hún hafði breiða skírskotun.  Hún var ríkisstjórn landsmanna.  Nýsköpunarstjórnin sýndi að ólíkir flokkar geta tekið höndum saman og unnið af miklum heilindum þegar brýn og krefjandi verkefni kalla á.

Orð Ólafs Thors í ræðu á alþingi 1944 eiga etv. jafn vel við núna og þegar þau féllu fyrir hart nær 72 árum. 

„Að þessari stjórn standa menn sem hafa í grundvallar atriðum sundurleitar skoðanir á því hvaða þjóðskipulag henti Íslendingum best. Þeir hafa nú komið sér saman um að láta ekki þann ágreining aftra sér frá að taka höndum saman um þá hagsmuni atvinnulífs og þjóðarinnar sem ég nú hef lýst og eru kjarni málefnasamningsins og byggð er á því þjóðskipulagi er Íslendingar nú búa við. „  

Verkefni sem kalla á breiða skírskotun

Í mínum huga verður verkefni næstu ríkisstjórnar ekki hvað síst að byggja upp traust, tryggja stöðugleika, efla innviði og stuðla að velferð.  Það verður best gert með ríkisstjórn sem styðst við sterkan meirihluta og hefur breiða skírskotun.  Sannarlega er hægt að gera þetta á margan veg en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Bjartrar framtíðar (eða Viðreisnar) hugnast mér vel.

Previous
Previous

Myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna

Next
Next

Það þarf fólk eins og þau, fyrir samfélag eins og okkar