Myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna

Stjórnmál eru ekki í tómarúmi.  Þau hafa áhrif á á samfélagið.  Óvissa á þeim vettvangi skaðar okkur öll.  Hún rýrir verðmæti og dregur úr lífsgæðum.  Stjórnmálamenn verða því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að gjörðir þeirra skapi ekki óvissu lengur en þörf er.  Ábyrgt fólk þarf núna...

...að sýna að það ræður við þau stóru verkefni sem við höfum kosið þau til.  Það þarf að mynda ríkisstjórn sjálfstæðismanna, vinstri grænna og til dæmis bjartrar framtíðar.

Það þurfti að reyna fyrst hægristjórn og vinstristjórn

Eins og búast mátti við tókst Bjarna Benediktssyni ekki að mynda hægristjórn.  Til þess var fjöldi þingmanna ekki nægur.  Eins og búast mátti við tókst Katrínu Jakobsdóttur ekki að mynda vinstristjórn.  Til þess var hvorki fjöldi þingmanna nægur né samstaðan fyrir hendi.  Allt þetta var fyrirsjáanlegt.  Engu að síður verðum við að bera virðingu fyrir því að þetta væri reynt, annað hefði í raun verið svik við þá flokka sem þetta reyndu.

Ítrekun á ákalli

Nú er komin upp sú staða sem ég spáði.  Búið að reyna bæði stjórn til hægri og stjórn til vinstri en enn er ekki komin ríkisstjórn.  Ég kallaði eftir því að þegar sú staða kæmi upp yrði mynduð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Bjartrar framtíðar (eða Viðreisnar).  Ég ítreka það kall hér með.

Ánægður með að hvorki tókst að mynda nauma hægristjórn né sundurleita vinstristjórn

Eigi ég að vera ærlegur var ég dáldið feginn að Bjarna tækist ekki að mynda þá ríkisstjórn sem hann reyndi.  Mér fannst meirihlutinn of tæpur og hafði ekki sannfæringu fyrir því að sú ríkisstjórn hefði orðið sú besta fyrir land og þjóð.  Eigi ég að halda áfram með ærlegheitin þá er ég óstjórnlega feginn að Katrínu tókst ekki að mynda þá sundurleitu ríkisstjórn sem hún reyndi.  Ég er sannfærður um að það hefði hreinlega orðið vont fyrir land og þjóð.

Sögulegt tækifæri til að leiða deilumál í jörð.

Staðreyndin er sú að við sem þjóð stöndum núna frammi fyrir sögulegum tækifærum til að leiða í jörð deilur og illindi sem klofið hafa þjóðina og valdið miklum skaða.  Við getum skapað ríkisstjórn sem hefur nægilega breiða skírskotun til að leiða til lykta deilu um Evrópusambandið, uppbyggingu velferðarkerfisins, virkjanir, gjaldtöku á ferðamálastöðum og fl.  Sterk stjórn getur skapað sátt um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, byggðamál og svo margt annað.  Auðvitað þurfa þá báðir aðilar að gefa eftir, en þannig gerast góðir hlutir.

Takið upp viðræður ekki seinna en strax.

Bjarni og Katrín verða nú að sýna þá ábyrgð sem við kusum þau til og mynda þessa ríkisstjórn.  Þau verða í öllu falli að sýna viljann til að taka hagsmuni þjóðarinnar fram yfir vantraustið hvert gagnvart öðru og því innan meini og vantrausti sem kann að vera innan þeirra eigin raða og taka upp formlegar viðræður ekki seinna en strax.

Previous
Previous

Vestmannaeyjar ætla sér stóra hluti í ferðaþjónustu

Next
Next

Að láta ekki sundurleitar skoðanir aftra samstarfi