Afskriftir sýna hvar óráðsían var mest, minni afskriftir á atvinnulíf landsbyggðarinnar en margir halda
Allir vita að afskriftir seinustu ára hafa verið gríðarlegar. Ein af þeim söguskýringum sem hafa verið bornar á borð fyrir hina íslensku þjóð eftir hrun er sú að sjávarútvegurinn hafi sem heild stundað brask í góðærinu og hvergi hafi verið meira um afskriftir en hjá „kvótagreifunum“. Þessi söguskýring virðist því miður vera orðin jafn útbreidd og sú skoðun fjármálastofnana að varasamat hafi verið að lána til atvinnustarfsemi á landsbyggðinni.
(Myndin hér fyrir ofan er af tveimur góðum sem tekið hafa drjúgan þátt í verðmætasköpun í þjóðfélaginu)
Gölluð söguskýring
Staðreyndin er þó ólík þessari söguskýringu. Þegar rýnt er í tölur kemur í ljós að á árunum 2008 til 2010 var afskrifað fyrir 25,6 milljarða hjá fyrirtækjum í byggingastarfsemi, 31 milljarð hjá fyrirtækjum í verslun, 34,7 milljarða hjá fyrirtækjum í fasteignaviðskiptum, 19,8 milljarða hjá þjónustu og fjármagnsfyrirtækjum en „einungis“ 10,7 milljarða hjá sjávarútvegsfyrirtækjum. Á sama tíma var afskrifað fyrir 15,6 milljarða hjá iðnaðar-, landbúnaðar- og mætvælafyrirtækjum. Þegar neðangreind mynd er skoðuð sést að það er sem sagt atvinnulíf landsbyggðarinnar sem minnstar hefur fengið afskriftirnar.
Hroki og hleypidómar
Þessar tölur er athyglisverðar. Þær sýna glögglega hversu miklum ósanndindum hefur verið beitt þegar því hefur verið haldið fram að sjávarútvegurinn hafi farið offari í fjárfestingum utan greinar og þurft meiri afskriftir en aðrir í kjölfar hrunsins. Þær sýna líka að afstaða lánastofnana gagnvart landsbyggðinni hafa verið byggðar á hroka og hleypidómum.
Tækifærin voru og eru á landsbyggðinni
Veð, tryggingar og atvinnustarfsemi á landsbyggðinni hafa verið tortryggð verulega á seinustu árum. Ég þekki til margra sem hafa viljað fara út í rekstur á landsbyggðinni og fengið þau svör að þau geti fengið lánað út á viðskiptahugmyndina svo fremi sem hún verði á höfðuborgarsvæðinu. Tækifærin hafa hinsvegar legið á landsbyggðinni. Það sýna afskriftartölurnar. Það er atvinnulíf landsbyggðarinnar sem minnstar hafa þurft afskriftir. Það er atvinnulíf landsbyggðarinnar sem nú setur vindinn í seglin sem drífa eiga þjóðarskútuna út úr þeim voða sem atvinnulíf höfuðborgarinnar kom þjóðarbúinu í.
Enn er hefur ekki öll sagan verið skrifuð
Enn eru ekki öll kurl komin til grafar. Það vantar að minnsta kosti 2 kafla í þessa sorgarsögu. Þannig hefur það komið fram að til viðbótar við það sem að ofan greinir þá eru óuppgerðar verulegar fjárhæðir hjá viðskiptalífinu. Sennilegt er að umtalsverðar fjárhæðir eigi enn eftir að afskrifa. Þannig hefur til að mynda Arion gert grein fyrir því að afskrifa þurfi 35 til 40 milljarða vegna viðskipta við Jón Ásgeir Jóhannesson og fjölskyldu vegna reksturs Haga og 1998 ehf. Seinasti kaflinn mun svo verða leið okkar út úr því rugli sem við létum viðgangast í blekkingarhagkerfi þennsluáranna. Kaflinn um 300.000 manna fiskveiði þjóð sem áttaði sig á veruleikanum og sneið sér stakk eftir vexti.
Hvar skal síst skera niður
Það er vonandi að nú þegar þingmenn sitja sveittir við að koma saman fjárlögum minnist þeir þess gríðarlega fjármagnstilflutnings sem átt hefur sér stað með afskriftum á atvinnulíf borgarinnar. Þess stóra byggðarstyrks sem borgarumhverfinu er lagt til í formi uppbyggingar á opinberri þjónustu. Þeirrar niðurstöðu sem borgarmiðuð stefna stjórnvalda leiddi til. Þá væri ekki úr vegi fyrir það góða fólk að skoða vandlega hvar gjaldeyristekjurnar verða til. Hvaða íbúar þessa lands hafa lagt og munu áfram leggja til grunnverðmætin sem knýja velferðarþjónustu. Þá vonandi kristallast fyrir þeim hvar síst skal skera niður grunnþjónustu svo sem löggæslu, heilbrigðisþjónustu, samgöngur og fleira.
Lifi landsbyggðin