Stuðningur úr óvæntri átt
Á vefmiðlum í dag mátti finna athyglisverða grein Ragnars Óskarssonar fyrrverandi frambjóðanda Vinstri grænna. Greinina er hægt að lesa hér:
http://www.eyjafrettir.is/frettir/2011/09/16/er_astaeda_til_ad_ottast
Sannast sagna kom það mér ekki mjög á óvart að greinin er í flesta staði góð enda Ragnar með tuga ára reynslu af stjórnmálum bæði á þingi og í bæjarmálum þar sem hann hefur unnið fyrir Alþýðubandalagið, V-listann og vinstri Græna. Fyrir það fyrsta er greinin vel skrifuð, það sem þó skiptir meiru er að boðskap hennar er í flesta staði hægt að vera sammála.
(myndin hér fyrir ofan var tekin af okkur Ragnari þegar við ferðuðumst saman til Svíðþjóðar fyrir nokkrum árum)
Auðvitað fellur Ragnar í þá sömu gryfju og skoðunarbræður hans í þessu máli svo sem Grétar Mar og Egill Helga. Það er að segja að gera samanburð við Tyrkjarán og elgos að áherslupunkti. Af þessum þremur hefði ég síst átt von á því að Ragnar færi í þann leik – en gott og vel. Við verðum öll að fá að fljúga eins og við erum fiðruð.
Ragnar tekur í upphafi undir með bæjarráði Vestmannaeyja um að íslenska þjóðin þoli ekki mistök í lagasetningu um fiskveiðistjórnun. Hér kemur liðsauki úr óvæntri átt sem eykur trú mína á að Vinstri grænir komi ekki til með að elta Samfylkinguna í þessu máli og heinlega fara að óskum bæjarráðs og draga hið skaðlega frumvarp til baka. Að mörgu leyti rímar þessi skoðun Ragnars við það sem Atli Gíslason þingmaður sunnlendinga og fyrrum liðsmaður í þingflokki VG hefur haldið fram.
Því næst telur Ragnar upp þrennt sem þarf að gæta að: eignarhald þjóðarinnar, að arðurinn af sjávarútvegnum haldist fyrst og fremst innan greinarinnar og tækifæri til nýliðunar. Þessu get ég í megin dráttum verið sammála.
Síðan kemur mergur málsins þar sem orð Ragnars bergmála það sem ég og svo margir höfum haft áhyggjur af. Sem sagt að reynt sé að stemma stigu við því að menn eða fyrirtæki geti eins og hendi sé veifað tekið kvótann úr bæjarfélaginu og skilið okkur bæjarbúa og samfélag okkar eftir bjargarlaust.
Ólíkt Ragnari er ég hinsvegar ekki heldur hrifinn af því að stjórnmálamenn sæki sér nánast guðlegt vald og svipti hundruði í Vestmannaeyjum lífsafkomu sinni með arfavitlausu frumvarpi byggt á hrokafullum meiningum um að höfundar þess einir skilji hugtakið sanngirni. Byggðalögin þurfa öryggi sem tryggja þau gegn yfirgangi stjórnmálamanna. Það skiptir ekki minna máli en að þau hafi öryggi fyrir því að kvóti flæði ekki hömlulaust úr byggðarlaginu.
Seinni hluti greinar Ragnars er svo hugsaður sem einhverskonar pilla á mig og aðra bæjarfulltrúa og í raun vart svaravert að öðru leyti en því að benda á að við Ragnar deilum áhyggjum af þeirri stöðu sem VSV er í vegna þeirra málaferla sem Guðmundur Kristjánsson á í gegn öðrum eigendum. Best er kannski að svara þeim hluta greinarinnar með því að vísa í texta Megasar í Paradísarfuglinum: "Ég veit ekki betur en það sé sýnt og sannað, að svo skal böl bæta með því að benda á eitthvað annað". Hið arfavitlausa frumvarp sem kostar Vestmannaeyjar um 9000 þorskígildistonn verður ekkert betra þótt að okkur steðji önnur (og e.t.v. verri) ógn.