Athyglisverð tilraun með tvíbytnu
Ég var svo lukkulegur að vera boðið í ferð í Landeyjahöfn með tvíbytnunni „Akranes“ sem Eimskip hefur leigt í 6 mánuði til siglinga milli Reykjavíkur og Akraness. Ferðin gekk í alla staði vel og ljóst að þessi farþegaferja er öflug og með góða stjórnhæfni. Ég hef alla trú á því að ekki líði um langt þar til bátur sem þessi hefji siglingar með farþega milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar í viðbótar við hinn ríksrekna Herjólf.
Það þarf tvær ferjur
Ég hef í langan tíma verið þeirrar skoðunar að það þurfi í raun tvær ferjur til að sinna samgöngum við Vestmannaeyjar. Í því samhengi hef ég fyrst og fremst verið að gæla við það að hér væru tvær bílaferjur sem pendúluðu á milli yfir háannartímann. Hvað sem slíku líður þá er ég algerlega sannfærður um að fyrr en seinna verði einnig komin ferja á borð við þá sem Eimskip hefur nú leigt. Lítil háhraðafarþegaferja sem getur skotist hér á milli á um 15 mínútum við bestu aðstæðu gæti nýst nánast eins og strætisvagn svo fremi sem þjónusta og verð væru þannig. Þar til viðbótar eru þessar ferjur afar heppilegar til útsýnissiglinga, hvalaskoðunar og margt fl. Tækifærin eru fjölþætt.
Gæti orðið byrjunin á einhverju stærra
Fyrst verið er að stinga niður penna, eða öllu heldur að hamra á lykla, er ástæða til að hrósa Eimskip fyrir þessa tilraun sem þeir standa nú að hvað ferjuleiðina milli Akraness og Reykjavíkur varðar. Með þessu er Eimskip að leggja sitt að mörkum til að þróa áfram samgöngukerfi okkar landsmanna og ekki kæmi það mér á óvart þótt að innan ekki langs tíma verði svona „sjóstrætóar“ farnir að sigla víða í kringum höfuðborgarsvæðið svo sem frá Reykjanesbæ, Akranesi, Hafnafirði og víðar. Í allri slíkri þróun og fjölgun heppilegra sæfra við Ísland eru fólgin tækifæri fyrir okkur Eyjamenn.
Tvíbyttnur eru viðkvæmari fyrir öldu
Hvað þennan tiltekna bát varðar þá er hann líkur þeim sem maður hefur áður siglt með víða um heim. Stutt og öflug ferja ætluð til að sigla í lágum sjó um styttri vegalengd. Sá galli fylgir gjöf Njarðar hvað ferjur sem þessa varðar að þær eru frekar viðkvæmar fyrir háum öldum. Það vakti athygli mína að í brúnni á þessari ferju var að finna töflu yfir þann hraða sem óhætt er að sigla á miðað við öldufar.
Eins og myndi sýnir þá kemur þar fram að í sléttum sjó (eins og var í þeirri ferð sem við fórum) getur hún siglt á allt að 34 mílna hraða. Sé aldan milli 1,5 og 2 meter fellur hraðinn niður í 18 mílur og fari ölduhæð yfir 2,5 metra á ferjan einfaldlega að leita neyðarhafnar á lágum hraða (Sök nödhavn med lav hastighet).
Við þurfum aukinn áreiðaleika
Það hversu viðkvæmar tvíbytnur eru fyrir hárri öldu er eitt af því sem gert hefur það að verkum að ferjur sem þessar hafa verið teknar úr siglingum og í staðinn stuðst við hefðbundnari „monohull“ ferjur. Það breytir því ekki að farþegaferja –lík þeirri sem við sigldum með núna í vikunni- gæti gert mikið fyrir samgöngur við Vestmannaeyjar til hliðar við áreiðalegri ferju sem siglt getur í Landeyjahöfn í allt að 3,5 metra ölduhæð. Við Eyjamenn þekkjum það of vel hversu slæmt það er þegar hefðbundnar samgöngur leggjast af við 2,5m. ölduhæð. Það er ástand sem við verðum að komast út úr.
Ég er ekki sérfræðingur í siglingum en sannarlega er ég –eins og allir aðrir Eyjamenn- áhugamaður um ferjur og samgöngur. Ég hef reynt að afla mér uppýsinga um ferjur og þar með talið hvernig rekstur á tvíbytnum hefur gengið. Því miður er ekki um auðgan garð að gresja þegar reynt er að kafa þar ofan í. Áhugasömum er þó bent á þessa grein hér „The Failure of Fast Ferry Catamaran Operations in New Zealand and Hawaii„ sem birtist í blaðinu „Journal of Transportation Technologies árið 2012“: