Það kostar 225 milljónum minna að láta Baldur sigla í Landeyjahöfn en Herjólf í Þorlákshöfn
Í dag ræddi ég við blaðamanna Frétta um Landeyjahöfn og þá þjónustu sem Baldur hefur veitt. Greinin var svohljóðandi:
Almenn ánægja hefur verið með Breiðafjarðaferjun Baldur sem hefur leyst Herjólf af meðan hann hefur verið í þurrkví í Danmörku. Eins og áður hefur komið fram hafa skipstjórnendur á Baldri notað aðra aðferð við að koma skipinu inn í Landeyjahöfn og hefur sú aðferð gefið góða raun fyrir Baldur, sem er talsvert minni en Herjólfur. Sem dæmi þá sigldi skipið í rúmlega þriggja metra ölduhæð í gær, þriðjudag.....
Elliði Vignisson, bæjarstjóri er jafnframt formaður samráðshóps vegna siglinga í Landaeyjahöfn. Hann segir að Baldur sé að veita þjónustu í Landeyjahöfn við aðstæður sem Herjólfur ræður ekki við. „Það vekur mann til umhugsunar um margt. Fyrir það fyrsta þá held ég að við sem um málið fjöllum höfum horft of mikið til þess að höfnin sé vonlaus eða að skipstjórarnir þurfi að toga öðruvísi í stýrið. Eftir því sem gögnin safnast upp þá held ég að böndin hljóti í auknum mæli að berast að skipinu. Það er margt sem bendir hreinlega til þess að Herjólfur geti ekki þjónustað í Landeyjahöfn á veturnar - alveg sama hver stýrir því eða rekur það. Á sama tíma bendir flest til þess að Baldur geti þjónustað betur.“
Hvað áttu við með því?
„Skipstjórar Herjólfs telja að ekki sé hægt að veita þjónustu í Landeyjahöfn þegar ölduhæð fer yfir 2,5 metra og það er engin ástæða til að efast um það mat. Öryggi skipsins verður alltaf að vera í fyrirrúmi. Þetta þýðir hinsvegar að frátafir Herjólfs frá nóvember til apríl verða um 20 til 40%, bara vegna ölduhæðar. Síðan er líklegt að eitthvað bætist við vegna vandamála með dýpi. Svo miklar frátafir réttlæta varla siglingar í Landeyjahöfn. Það bendir því allt til þess að Herjólfur sé að fara að þjónusta í Þorlákshöfn meira og minna í vetur. Þrátt fyrir að Baldur sé langt frá því að vera sérhannaður fyrir Landeyjahöfn þá er hann að sigla við amk. 3,3 metra ölduhæð. Það kemur frátöfum á þessum tíma vel innan þeirra marka sem við getum þolað og nálægt því sem rætt var í upphafi. Baldur getur sem sagt veit þjónustu í vetur í Landeyjahöfn en Herjólfur getur það ekki.“
En er eitthvað því til fyrirstöðu að Baldur haldi þá áfram að þjónusta í Landeyjahöfn?
„Já það eru ljón á þeim vegi. Fyrir það fyrsta þá er Baldur að veita mikilvæga þjónustu á Breiðafirðinum. Sæferðir hafa lagt mikið upp úr því að byggja upp sitt þjónustunet þar og af sjálfsögðu hvarflar ekki að neinum að samgöngur við Vestmannaeyjar verði bættar á kostnað annarra á landsbyggðinni. Í öðru lagi er Eimskip með samning við Vegagerðina um rekstur Herjólfs. Herjólfur er stór vinnustaður og þarf að umgangast af eðlilegri virðingu. Að öllu þessu sögðu er ég þó á því að reynslan af Baldri kenni okkur að það sé hægt að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar frá því sem nú stefnir í.“
Elliði segir jafnframt að það kosti mikið að byggja höfn en eiga svo ekki skip sem getur siglt þangað.
„Hinsvegar þarf að halda því til haga að kostnaðurinn við siglingar Baldurs í Landeyjahöfn eru umtalsvert ódýrari en siglingar Herjólfs í Þorlákshöfn. Eins og ég sagði áðan þá eru ákveðnar líkur fyrir því að Baldur geti veitt þjónustu í Landeyjahöfn í þá 5 mánuði sem Herjólfur þarf að sigla í Þorlákshöfn. Það eru 150 dagar. Ég spurði að því á seinasta fundi samráðshópsins hver kostnaðarmunurinn á þessum siglingum væri. Án þess að fyrir því lægju útreikningar þá töldu þeir sem best þekkja til að það gæti munað 1 til 1,5 milljónum á dag. Með öllum fyrirvara um þessar tölur þá ber að líta til þess að sé efri talan tekin þá munar um 225 milljónum á kostnaði við siglingar Baldurs í Landeyjahöfn samanborið við Herjólf í Þorlákshöfn. Við þetta bætast svo hærri tekjur af farþegum enda stór eykst fjöldi farþega þegar siglt er í Landeyjahöfn. Mér finnst þessar upplýsingar leggja þá skyldu á okkur að leggja meiri orku í að finna heppilegra skip þótt ekki sé nema til að brúa vetrartímann. Ég myndi því vilja fara að með öllum hlutaðeignandi, Sæferðum, Eimskip, Vegagerð og Siglingastofnun, að skoða þessi mál.“
Áttu þá við annað skip til að þjónusta á Breiðafirðinum og að Baldur haldi áfram hér eða að annað skip verði fengið erlendis frá til að þjónusta Vestmannaeyjar?
„Ég myndi vilja skoða hvoru tveggja og það sem fyrst. Sæferðir og Eimskip verða hinsvegar að fara með ferðina í þessu í samráði við ríkið. Ég er bara bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og ræð ekki nokkru um þetta. Mitt hlutverk er að reyna að standa vörð um hagsmuni okkar heimamanna í þessu stóra máli og vinna með þeim sem ráða.“
Eru þessi mál í einhverjum ferli?
„Samráðshópurinn hefur rætt þetta og sett ákveðna vinnu af stað. Vonandi verður hægt að taka einhver skref í þessu máli á næstu vikum. Það er þó ástæða til að taka skýrt fram að hér er ég bara að lýsa mínum skoðunum sem mega sín lítils gagnvart ákvörðunarvaldi ríksins. Eins og staðan er núna er ekkert annað í stöðunni en að Herjólfur veiti okkur Eyjamönnum þjónustu í vetur og því miður eru allar líkur fyrir því að sú þjónusta verði meira og minna í Þorlákshöfn,“ sagði Elliði að lokum.