Tíðindi kvöldsins eru tilhugalíf ríkisstjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar

Í kvöld hlýddi ég á stefnuræðu forsetisráðherra og umræðu stjórnarflokkanna þar að lútandi.  Fátt í máli þeirra stjórnmálamanna sem til máls tóku getur flokkast til mikilla tíðinda.  Fulltrúar ríkisstjórnar eru alsælir með sinn stórkostlega árangur og vísa í fjölda heilbrigðisvottorða frá útlenskum snillingum þar að lútandi.  Stjórnarandstaðan vill kosningar til að leysa þá pattstöðu sem veikasta ríkisstjórn Íslandssögunnar hefur leitt starf alþingis í.  

Einu tíðindi kvöldsins fannst mér felast í...

...í tilhugalífi Hreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar.  Leynt og ljóst bera Jóhanna og hennar fólk víurnar í fulltrúa Hreyfingarinnar og ekki verður betur séð en Amors örvar ríkisstjórnar hitti hið pólitíska hjarta Hreyfingarinnar. 

Að sumu leyti er þetta eðlilegt.  Jóhanna sér þarna leik á borði til að setja í lekana á hinu hálfsokkna stjórnarskipi.  Hreyfingin metur sjálfsagt stöðuna þannig að ef til kosninga kemur nú sé hæpið að þau hljóti náð fyrir augum þjóðarinnar aftur og þá ekki síst þegar Bestiflokkurinn ræðst til atlögu á landsvísu. Sennilegt er að þessar tvær Hreyfingar sæki á sömu mið.

Jóhanna tryggir sér einnig nokkuð öruggt fylgi í málum sem hún annars kemur ekki í gegn.  Nærtækast er böðulsskapurinn á stjórnarskránni, vanhugsaðar breytingar á sjávarútvegsstefnunni og blint fylgi við ESB.

Þá er ekki að efast um að Hreyfingin getur auðveldlega samþykkt það eina sem sameinar ríkisstjórnina – hatrið á Sjálfstæðisflokknum. 

Það hvort þetta verður landi og þjóð til framdráttar verður hver að meta fyrir sig.  Sjálfur er ég efins um að svo verði.

Previous
Previous

Nú er manni öllum lokið - Vegagerðin boðar gjaldskrárhækkun í Herjólf í stað þess að takast á við þann bráðavanda sem við nú eigum við að glíma þegar þjóðvegurinn er í sund

Next
Next

Það kostar 225 milljónum minna að láta Baldur sigla í Landeyjahöfn en Herjólf í Þorlákshöfn