Betra er kál í koti en krás á herrasloti - um opinber störf

Miðað við þá umfjöllun sem verið hefur um flutning Fiskistofu norður á Akureyri mætti halda að í fyrsta skipti væri ríkið nú að flytja störf á milli atvinnusvæða.  Svo er ekki.  Í á annan áratug hefur ríkið markvisst flutt störf frá Vestmannaeyjum (og víðar af landsbyggðunum) inn á atvinnusvæði höfuðborgarinnar sem í dag nær frá Borgarnesi, út í Árborg og yfir í Reykjanesbæ.  Enn er ríkið við sama heygarðshornið og núna síðast var lagt niður stöðugildi Vinnumálastofnunar í Vestmannaeyjum og Húsavík.  

Í gær fjallaði bæjarráð Vestmannaeyja um þennan gjörning.  Í ályktun þess segir:

„Bæjarráð harmar þá aðför gegn Landsbyggðunum sem ríkisvaldið stendur fyrir á forsendum flutnings opinberra starfa. Þrátt fyrir að óvíða séu færri ríkisstörf á bak við við hvern íbúa en í Vestmannaeyjum hefur hvert starfið eftir annað verið flutt frá Eyjum inn á atvinnusvæði borgarinnar.  Með störfunum fara bæði tækifæri og þjónusta. Sem dæmi um þessi störf má nefna stöðugildi á vegum Vinnumálstofnunar, Fiskistofu, Veðurstofu, heilbrigðisstofnunar, Framhaldsskóla, Skipaskoðunar, Vinnueftirlitis, Matís og fl.“

Það væri jöfnun að flytja 1280 störf frá höfuðborgarsvæðinu og út á landsbyggðirnar
Á Íslandi eru 16.765  stöðugildi opinberra starfsmanna.  Þar af eru 12.008 þessara starfa á höfuðborgarsvæðinu eða 72%.  Miðað við íbúafjölda ættu þau að vera 10.728.  Sé markmiðið að jafna dreifingu opinberra starfa þarf því að flytja 1280 slík af höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðirnar.  Svo langt vilja þó sjálfsagt fáir ganga enda er ákveðin samþjöppun æskilegt.  Í dag er hún hinsvegar of mikil.  

Það væri jöfnun að fjölga opinberum störfum í Vestmannaeyjum um a.m.k. 65
Í Vestmannaeyjum eru 135 stöðugildi opinberra starfsmanna.  Miðað við íbúafjölda ættu þau að vera a.m.k. 200.  Sé markmiðið að jafna dreifingu opinberra starfa þarf því að flytja þangað a.m.k. 65 slík störf.

Það er líka ójöfnun á milli landsbyggðanna
Landsbyggð er ekki eintöluorð.  Landsbyggðirnar eru margar.  Á sama hátt og það er ójöfnuður á milli landsbyggðanna og höfuðborgarinnar þegar kemur að fjölda opinberra starfa þá er afar mismunandi hversu margir íbúar eru á bak við hvert starf á landsbyggðunum.  Taflan hér fyrir neðan sýnir fjölda íbúa á bak við hvert starf í mismunandi landsbyggðum.   

Mestur niðurskurður í Vestmannaeyjum
Í skýrslu Byggðastofnunar frá 2013 „Breyting á fjölda ríkisstarfsmanna í kjölfar efnahagshrunsins“ segir:

 „Að endingu skulum við skoða Vestmannaeyjar sem eru það svæði á Suðurlandi þar sem mestur niðurskurður hefur átt sér stað“.  

 Síðan kemur útlistun á því að á árunum 2007 til 2011 hafi störfum á þremur stofnunum (Framhaldsskóli Vestmannaeyja, Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum) fækkað um 10.   

Betra er kál í koti
Þetta gerðist á þeim tíma sem ríkið segist í orði kveðnu ætla að jafna hlutfall opinberra starfa. Það gerist á þeim tíma sem atvinnulíf í Vestmannaeyjum verður einhæfara.  Það gerist á þeim tíma sem hátt í tuttugu manns (þar með talið hagfræðingar, viðskiptafræðingar og lögfræðingar) sækja um 50% stöðu ófaglærðs skrifstofumanns á launadeild Vestmannaeyjabæjar.  Það gerist á þeim tíma sem Eyjamenn fagna hverju einasta viðbótar starfi –hversu lítilfjörlegt sem það er- en höfuðborgarbúar taka lítið eftir þeim gæðum sem fyrir þá er lagt í opinberum störfum.  Þar sannast hið fornkveðna:

„Betra er kál í koti en krás á herrasloti." 

Ekkert kemur úr engu – aðgerða er þörf.
Það er því hverjum degi ljósara að í dag eins og undanfarna áratugi segir ríkið eitt en gerir annað.  Það setur fram stefnur en fer ekki eftir þeim.  Stjórnmálamenn lofa dreifngu opinberra starfa en standa lítt við það.  Þeir sem það reyna eru kaffærðir af fjölmiðlum og hagsmunaöflum.  Hvað sem líður stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar og byggðaáætlun sem hvoru tveggja kveða á um að fjölga störfum á landsbyggðinni þá er þeim ekki fylgt.  Þvert á móti er störfunum á landbyggðunum fækkað. 

Það er sjálfsögð og eðlileg krafa Eyjamanna að ríkið hafi sambærilega aðkomu að atvinnu- og þjónustu í Vestmannaeyjum og annarstaðar.  Vestmannaeyjar standa nú á krossgötum.  Störfum við veiðar og vinnslu er að fækka.  Við því þarf að bregðast.  Það kemur ekkert úr engu og ef ekkert verður gert þá gerist ekkert.  Í því samhengi vilja Eyjamenn ekki hvað síst horfa til opinberra starfa tengdum stoðkerfi sjávarútvegs sem og í nýsköpun í sjávarútvegi og menntunar á því sviði.

Previous
Previous

Fullyrðingar sem ekki standast skoðun

Next
Next

Drottinn dauður og djöfullinn á neðstu hæð