Fullyrðingar sem ekki standast skoðun
Í dag hefur það víða verið fullyrt að ástæða þess að ferðir Herjólfs í vetur hafa oftar fallið niður það sem af er árs en áður sé að breytingarnar sem gerðar voru á skipinu í seinustu slipptöku hafi gert það verra í siglingum í Þorlákshöfn. Þessum fullyrðingum hefur síðan fylgt að þar með sé ljóst að skip hannað til siglinga í Landeyjahöfn geti ekki siglt í Þorlákshöfn.
Til að fá þessi mál á hreint hafði ég samband við rekstrarstjóra Eimskipa. Hann fullvissaði mig um sögusagnir þess eðlis að ástæða frátafa Herjólfs í siglingum í Þorlákshöfn sé að sjóhæfni skipsins hafi versnað vð þær breytingar sem gerðar voru í seinustu slipptöku eiga ekki við rök að styðjast. Þvert á móti greina skipstjórar að stefnufesta skipsins hafi aukist eins og stefnt var að með breytingunum. Á það sérstaklega við þegar aldan er beint á móti, þ.e.a.s að skipið kljúfi nú ölduna betur en áður. Ástæða frátafanna er sú ein að innsigling í Þorlákshöfn er að mati skipstjóra hættuleg eins og staðan er núna. Sunnanaldan er há og um 189 metra löng (beint á hlið) í innsiglingunni.
Sonur minn er einn þeirra sem ætlaði að sigla heim með seinni ferð Herjólfs. Niðurfelling ferðar gerir það að verkum að keppnisferðalag sem átti að taka tvo daga (leikur á Akureyri) tekur þar með þrjá daga. Þrátt fyrir að ég skilji oft ekki þær forsendur sem liggja til grundvallar ákvörðun um að fella niður ferðir Herjólfs (eða flugs) þá er ég sem foreldri þakklátur fyrir að slíkar ákvarðanir eru teknar með öryggi sonar míns og annarra farþega í huga. Hvað sem öllu öðru líður þá vil ég ekki að tekin sé áhætta í samgöngum. Það eitt að skipstjórinn treysti sér ekki til siglinga við tilteknar aðstæður dugar mér.
Alltaf þegar ferðir milli lands og Eyja eru felldar niður veldur það miklu tjóni. Það eina sem réttlætir að samgöngur á sjó séu þannig rofnar er að sigling við ríkjandi aðstæður geti skapað verulega hættu fyrir öryggi farþega, áhöfn, farm og skip. Það er útgangspunkturinn í ákvörðun skipstjóranna.
Siglingar Herjólfs hafa verið gæfuríkar. Þrátt fyrir erfitt hafsvæði og mikið álag í flutningum á fólki og vörum þá hefur hyggjuvit, reynsla og hæfni skipstjóra og áhafnar tryggt okkur notendum öryggi. Við viljum ekki að breyting verði þar á.
Treystum því fólki sem hæfast er til að taka ákvarðanir til að gera það og gerum það ekki að landlægum vanda hér í Eyjum að láta vantraust umlykja svona stórt hagsmunamál.