Dýpi í Landeyjahöfn með því besta sem sést hefur á þessum árstíma

Í gær var dýpið í Landeyjahöfn mælt.  Eftir skítabrælu á sunnudaginn og þungan sjó átti maður allt eins von á því að dýpið væri orðið of lítið.  Ölduhæð þennan tíma fór í allt að 6 metra og hamagangurinn ógnvænlegur.  Þök rifnuðu af húsum hér í Eyjum og björgunarsveitir áttu annasaman tíma.  Það var því ánægjulegt að sjá niðurstöðu mælingar frá því eftir hádegið í gær sem sýnir að dýpið í Landeyjahöfn er heilt yfir með því besta sem verið hefur.

Þessi mynd sýnir heildarsvæðið sem mælt var og vekur það athygli að núna í nóvember skuli það vera jafn gott og raun ber vitni.

Sérstaklega er athyglsvert að vandræðasvæðið í hafnarmynninu skuli hafa dýpi upp á milli 7 og 8 metra.

Rennan innan hafnar er á sama máta sæmilega djúp, eða yfir 5 metrum allt að innrigörðunum.

Við innrigarðinn að austan er dýpið heldur minna en ákjósanlegast væri og sjálfsagt verður farið í að dýpka þar við fyrsta tækifæri. 

Innst, við viðlegusvæðið er sannarlega þröngt en viðlegusvæðið sjálft og snúningssvæðið þó í lagi.

Sem fyrr er það því ölduhæðin sem er að valda vanda en þumalputtareglan er sú að núverandi skip siglir ekki í Landeyjahöfn þegar ölduhæð fer yfir 2,5 metra.  Þá þarf einnig að líta til þess að aðstæður geta verið margvíslegar og ókyrrðin mikil eftir brælur.  Að lokum veldur það bæði áhyggjum og miklum vanda að Herjolfur er, eins og alþjóð þekkir, bilaður og því ekki mögulegt að beita fullu afli.

Skipstjórum Herjólfs og áhöfn er því nokkur vorkun.  Öllum er þeim ljóst að bæjarbúar og gestir vilja sigla i Landeyjahöfn og eðlilega eru þau öll af vilja gerð.  Aðstæður eru hinsvegar erfiðar, skipið afar óheppilegt og þar að auki bilað.  Þessu sýnum við öll af sjálfsögðu fullan skilning.

Við þurfum því á góðu veðri að halda svo Herjólfur geti siglt í Landeyjahöfn.  Vonandi fáum við það fljótlega því af fenginni reynslu þá lokast höfnin vegna grynninga milli ytri garða síðar í vetur.

(Enn og aftur minni ég á að Vestmannaeyjabær fer ekki með forræði á Landeyjahöfn og eru þessi skrif eingöngu til að upplýsa bæjarbúa um stöðu þessara mála.  Upplýsingar draga enda úr deilum og auka skilning.  Sameinum frekar en að sundra.)

Previous
Previous

Það þarf kjark til að breyta

Next
Next

Breytingar gerðar á Landeyjahöfn