Breytingar gerðar á Landeyjahöfn
Fátt, ef eitthvað er meira rætt í Vestmannaeyjum en samgöngur. Því miður hafa bábiljur og bullsögur verið hvimleiður fylgifiskur þessara umræðna. Enn eru þeir til sem telja að hin nýja ferja geti ekki siglt í Þorlákshöfn, að ekkert verði gert hvað varðar breytingar á Landeyjahöfn og jafnvel að ný ferja sé hreint ekkert í smíðum. Líklegt er að upplýsingaflæði í þessu mikilvæga máli hafi ekki verið nægilegt og því bálbiljunar fengið að lifa. Í þessum stutta pistli langar mig að gera grein fyrir því hver staðan er núna og hvað breytingar verið er að vinna að á Landeyjahöfn.
Dýpið í Landeyjahöfn var mælt á miðvikudaginn innanhafnar og á fimmtudaginn milli garða og utan hafnar. Niðurstaðan gefur fyrirheit um að hægt verði að sigla áfram í Landeyjahöfn eitthvað áfram fram eftir vetri, þó með þeim fyrirvara alda verði ekki há enda ræður núverandi Herjólfur ekki við að sigla í Landeyjahöfn þegar alda fer yfir 2,5 metra
Vel hefur gengið að dýpka
Í haust hafa hingað til komið tvö óveðursskot úr suðaustri sem hafa skilað miklu efni inn í höfnina en sem betur fer hefur gengið tiltölulega greiðlega að dýpka hana. Þetta er meira en oft áður en ekki óþekkt þar sem höfnin fyllist hratt af sandi á haustin þegar lægðir koma úr suðaustri. Þeir sem að dýpkun standa telja einnig að aurrennsli úr Markarfljóti hafa verið mikið undanfarið vegna rigninga sem veldur því að fínna efni er í kringum höfnina en vanalega. Eftir því sem efnið er fínna á aldan auðveldara með að hreyfa það.
Smíðatíminn verður nýttur til að gera breytingar
Í samræmi við vilja heimamanna og ályktanir bæjarstjórnar verður smíðatími nýrrar Vestmannaeyjaferju nýttur til að gera breytingar á höfninni. Höfuðáhersla er lögð á að tryggja skipinu nægt dýpi og gera aðrar þær breytingar strax sem mögulegt er en halda áfram að rannsaka og finna lausnir á öðrum þáttum.
i. Fokgirðing
Foksandur hefur gjarnan valdið miklum vanda. Þar er um að ræða afar fínt efni sem fýkur eftir suðurströndinni og sest sérstaklega fyrir í innrihöfninni. Erfitt er að komast að þessu efni til að fjarlægja það. Bæði veldur að erfitt er að koma dýpkunarröri dýpkunarskipa að því svo nærri viðlegukannti auk þess sem dæling á svo fínu efni er erfið. Til að draga úr þessum vanda var í vor rekið niður stálþil sem ”fokgirðing” til að draga úr fokasandi inn í höfnina.
ii. Breyting á viðlegukannti og innrigörðum
Ókyrð innan hafnar hefur valdið nokkrum vanda seinustu ár. Hreyfinign hefur ma. brotið ”rampinn” og orðið til að auka enn á frátafirí siglingum. Þess vegna hefur seinustu misserin verið unnið að stækkun innrihafnarinnar auk þess sem búið er að loka gafli bryggjunnar til að draga úr ölduhreyfinu við hana.
iii. Breyting á ytrigörðum
Í vetur hefur verið unnið við hönnun á breytingum á hafnarmynninu en það er sá staður í höfninni sem er viðkvæmastur fyrir sandburði. Nú er stefnt að því að gera breytingar á opi hafnarinnar með grjóttum og bæta aðkomu að garðsendum með vegi og plani á garðsendum þannig að unnt verði að keyra krana út á enda og dýpka svo frá þeim. Með þessum breytingum er gert ráð fyrir að unnt verði að dýpka í verri veðrum en nú er og að bæta fleiri valkostum við dýpkunaraðferðir í stað þess að vera algjörlega háð dýpkunarskipi. Með þessum aðgerðum er stefnt að því að tryggja nægjanlegt dýpi í hafnarmynninu fyrir hina nýju ferju sem er til muna grunnristari. Eins og allir þekkja hefur dýpið verið einn af aðal flöskuhálsunum við nýtingu Landeyjahafnar frá því að hún opnaði 2010.
Gert er ráð fyrir að breytingar á hafnarmynninu fari í útboð upp úr áramótum og verði unnið að mestu næsta sumar en að fullu lokið sumarið 2019. Áður en þetta verður boðið út verður fenginn erlendur sérfræðingur til að meta tillöguna og betrumbæta hana.
iv. Dýpkun úr landi
Búið er að bjóða út sanddælur sem ætlunin er að nýta við uppdælingu á sandi frá garðsendum. Krani (mobile krani) verður keyrður út á garðsenda þegar veður leyfir. Sanddæla verður hengd í kranann og sandi dælt upp á land og hann svo losaður út í straum hundruðum metra austan við höfnina. Standa vonir til að dælurnar komi í byrjun næsta árs og verði nýttar í vor til að flýta fyrir opnun hafnarinnar. Með þessum búnaði á að vera hægt að dæla upp og flytja í burtu 1000 rúmmetra af efni á klukkustundu og geta verið í gangi allan sólarhringinn, þegar á þarf að halda. Rör þurfa að geta flutt efnið 2,5 kílómetra í burtu. Dælurnar eiga að geta starfað við mun verri veðurskilyrði en dýpkunaskipin sem notuð hafa verið, eða allt að 3 metra ölduhæð.
v. Skjól fyrir skipið í aðsiglingu
Þá hefur Vegagerðin ítrekað að stefnt sé að áframhaldandi rannsóknum á mögulegum görðum fyrir utan höfnina eða einhverjum þeim aðgerðum sem veitt geta skipinu skjól í aðsiglingu að höfninni. Því miður hefur enn ekki tekist að finnan verkfræðilega lausn hvað það varðar en öllum er ljóst að hrygg þarf að setja í vinnu þar að lútandi.
Samstaða skilar meiru en sundrung
Landeyjahöfn er okkar nánasta framtíð hvað samgöngur varðar. Það verkefni að gera þær öruggar og góðar er risavaxið. Eins og kemur fram hér að ofan þá er verið að vinna markvissum skrefum að því að gera þær breytingar sem mögulegar eru. Auðvitað hefði maður viljað að skreifn hefðu verið stærri og þau tekin fyrr. Þetta er hinsvegar staðan og út frá henni verðum við að vinna. Sameinumst því um að tryggja að staðan verði á öllum stundum eins og góða og mögulegt er.
Sundrung, deilur og tortryggni hafa aldrei skilað árangri.