Dýpkun að hefjast í Landeyjahöfn
Eftir brælutíð er nú loks útlit fyrir að veður stillist. Gangi veður- og ölduspá eftir fer mars af stað með góðviðri og hægum sjó. Það er því að koma sá árstími að við Eyjamenn lítum til Landeyjahafnar með von um siglingar þangað.
Í gær hafði ég samband við Vegagerðina og óskaði eftir upplýsingum um það hvernig þessi blíðukafli verði nýttur.
Ekki stóð á svörum. Menn þar á bæ hyggjast mæla á morgun eða fimmtudag og vonir standa til þess að fljótlega í framhaldi af því verði hægt að hefja dýpkun á hinu gríðalega öfluga skipi „Galilei“ sem er í eigu Belgíska fyrirtækisins „Jan de Null“.
Dýpkun gæti hafist í þessari viku
„Galilei“ er núna statt á Reyðafirði en farið að hyggja að brottför til Eyja. Ég þyki nú oft full bjartsýnn og vissulega hefur það oft komið í ljós hvað Landeyjahöfn varðar. Hvað sem því líður þá ætla ég að leyfa mér að trúa því að dýpkun hefjist í þessari viku, vonandi á fimmtudag eða föstudag.
Enn of snemmt að spá um hvenær höfnin opnar
Þótt sannarlega sé sé gott að vita að dýpkun sé að hefjast og þar með styttist í opnun hafnarinnar þá vitum við af fenginni reynslu að allt er það háð veðri, sjólagi og bilunum hvenær höfnin opnar. Við vitum að það borgar sig síður en svo að halda niðri í sér andanum af eftirvæntingu. Enn er of snemmt að spá fyrir um það hvenær höfnin opnar og af sjálfsögðu verður siglt í Þorlákshöfn næstu vikur.
Við nálgumst því verkefnið af æðruleysi:
Guð - gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.