Niðurstaða dýptarmælingar við Landeyjahöfn

Í gær mældi Lóðsinn dýpið í Landeyjahöfn.  Að mörgu leiti er niðurstaðan vonum framar.  Eðlilega er eftirvænting meðal bæjarbúa enda eigum við allt undir því að blessuð höfnin sé nægilega djúp og sjólag sé þannig að Herjólfur geti siglt þangað.  Með það í huga reynum við að miðla þeim upplýsingum sem við höfum. 

Heildar niðurstöður mælingarinnar má sjá á þessari mynd.  Eins og á henni sést þá er staðan nú nokkuð góð miðað við það sem oft hefur sést á þessum árstíma.

Ekki lítur út fyrir að nein alvarleg fyrirstaða sé innan hafnar en vissulega þarf að dýpka eitthvað við innrihöfnina:

Á milli garða er sem fyrr sandbingur en þó minni en oft áður. 

Dýpið milli garða og rifs er mjög mikið:

Rifið sjálft er hinsvegar nokkuð hærra en oft áður.

Án þess að ég sé einhver sérfræðingur í því að lesa úr svona mælingum þá þætti mér ekki ólíklegt að fjarlægja þurfi um 25.000 rúmmetra á milli garða og ef til vill eitthvað svipað á rifinu til að hægt sé að hefja siglingar, þótt slíkt væri þá háð sjávarstöðu. 

Í heildina verður þó dýpkað mun meira eða sennilega hátt í 200.000 rúmmetrar. 

Í dag mun mælingabátur Vegagerðarinnar vinna stærri mælingu í kjölfar þess verður auðveldara að átta sig á stöðunni.

Galilei er nú komin til Vestmannaeyja og hefur hafið undirbúning að dýpkun.  Vondir standa til að þeir geti byrjað að dýpka í dag eða á morgun.

Spáin er góð næstu daga og því leyfir maður sér að vera nokkuð bjartsýnn á gott gengi.

Previous
Previous

Magnaður árangur

Next
Next

Dýpkun að hefjast í Landeyjahöfn