Færum skömmina á gerendur - vöndum umræðu um það alvarlega mein sem kynferðisofbeldi er
Allt ofbeldi er slæmt. Kynferðislegt ofbeldi er hreinn viðbjóður. Ekkert kemst nær morði. Ég á ekki nægilega sterk lýsingaorð til að fanga hug minn til kynferðislegs ofbeldis. Ég óttast það, skammast mín fyrir tíðni þess, fyrirlít það. Þess vegna finnst mér brýnt að við Íslendingar –sem lítið og náið samfélag- berjumst gegn þessu alvarlega meini sem því miður er algengt. Til þess að gera slíkt verðum við að bera gæfu til að afvegaleiða ekki umræðuna. Greina vandann rétt, gangast við honum og bregðast við.
Lúkasarumræðan hin nýja
Umræðan seinustu daga hefur borið einkenni hins víðfræga Lúkasarmáls þó með þeirri undantekningu að nú voru það fjölmiðlar sem knúðu æsingarmótorinn og í þetta skipti voru það alvarleg afbrot sem lágu til grundvallar umræðunni. Það sem er verst við æsistílinn er að hann afvegaleiðir umræðu um þetta alvarlega samfélagsmein sem kynferðislegt ofbeldi er. Þeir sem lengst hafa gengið í afvegaleiðingunni eru fjölmiðlamenn og sumir jafnvel svo langt að þeir hafa fært skömmina af gerendum og yfir á aðra. Yfir á brotaþola, þjóðhátíð, Eyjamenn eða aðra. Það baráttumál sem kristallast hefur í kröfunni um að skömmin verði færð yfir á gerendur var yfirgefið af mörgum fjölmiðlum seinustu vikuna. Skömmin er þeirra sem nauðga – ekki annarra.
Stígamót búa yfir mikilvægri reynslu og gögnum
Stígamót eru í dag á sínu 26. starfsári. Þar hafa safnast upp mikilvægar upplýsingar sem vert er að huga sérstaklega að. Virði þessara upplýsinga verða enn mikilvægari í ljósi þess að opinberir aðilar hafa ekki staðið sig vel í að greina umfangið og vinna úr honum gagnabanka.
75,5% nauðgana eiga sér stað í heimahúsum
Ef umfjöllun seinustu daga er í takt við raunveruleikann þá eru útihátíðir og þá sérstaklega þjóðhátíð helsta uppspretta nauðgana. Í nýjustu ársskýrslu Stígamóta segir: „Nauðganir og nauðgunartilraunir eiga sér oftast stað á heimili ofbeldismanns, á heimili þess sem er beittur ofbeldinu, sameiginlegu heimili brotaþola og ofbeldismanns og í heimahúsi, nauðganir í 75,5% tilvika og nauðgunartilraunir í 60,5% tilvika. Þessi hlutföll nauðgana og nauðganatilrauna eru einnig svipuð hlutföll og komu fram í ársskýrslu Stígamóta ársið 2013.“
Skógurinn og trén
Árið 2014 leituðu 4 einstaklingar til Stígamóta vegna nauðgana á útihátíðum (2%). Það er hroðalegt og mikilvægt að við leggjumst á eitt til að koma í veg fyrir þann veruleika. Við sem höfum aðkomu að slíkum hátíðum berum ábyrgð og eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir þessi brot sama hvaða prósenta liggur þar að baki. Á bak við þessi 4 tilvik hjá Stígamótum er fólk sem á um að sárt að binda og það er okkur ekki léttvægt. Því miður leituðu þó helmingi fleiri til Stígamóta vegna nauðgunar á vinnustað eða 8 (4%). 152 einstaklingur leitaði aðstoðar vegna nauðgunar í heimahúsi (75,5%). Gleymum ekki þessum skógi í umræðu um trén.
„Afar fá brot höfðu verið framin í tengslum við útihátíðir.“ Segir í skýrslu Hildar Fjólu og Þorbjargar Sigríðar
Þegar rýnt er í skýrslu sem Hildur Fjóla Antonsdóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir unnu í samvinnu við innanríkisráðuneytið um tilkynntar nauðganir til lögreglu á árinum 2008 og 2009 og skiluðu í október 2013 kemur margt fróðlegt í ljós. Í fyrsta lagi staðfestist þar margt af því sem fram kemur í ársskýrslum Stígamóta til að mynda hvað brotavang varðar. Heimili eru lang algengasti vettvangur ofbeldis (61%). Nokkur voru í bíl (11%) en mjög lítil hluti í húsasundum (5%), eða á tjaldstæðum (2%). Hvað útihátíðir varðar þá er best að vitna beint í þessa skýrslu:
„Afar fá brot höfðu verið framin í tengslum við útihátíðir.“
Fjölmiðlar hafa brugðist
Þrátt fyrir þetta hafa fjölmiðlar sett kastljóstið nánast eingöngu á tónlistahátíðir og þá fyrst og fremst Þjóðhátíð í Eyjum.. Þar með er ekki bara verið að færa skömmina á þá sem þar að koma heldur nánast látið í veðri vaka að konum sé nær að vera að mæta á slíka skemmtun. Allir hljóta þó að geta verið sammála því að konur eiga að vera algerlega frjálsar til athafna.
Kvenfrelsi
Það væri ömurlegt afturhvarf í baráttu fyrir kvenfrelsi að segja að hætta þurfi með tónlistahátíðir af því að annnars nauðgi einhver þeim konum sem þangað koma til að skemmta sér jafnfætis körlum. Það væri nánast jafn ömurlegt og að taka upp hætti þeirra landa þar sem kúgun kvenna er landlæg og meina konum aðgengi að slíkum skemmtunum þar sem þær væru truflun fyrir eðli karlmanna. Við eigum ekki að hætta fyrr en við höfum byggt um samfélag þar sem konur eru öruggar. Þær eiga skilyrðislausan rétt á að vera öruggar inn á heimilum, í bílum, í húsasundum og á vinnustöðum. Þær eiga líka þennan sama rétt til að sækja skemmtanir hvort sem er innan dyra eða utan. Þjóðfélag sem ekki getur tryggt slíkt er ekki gott þjóðfélag.
Vöndum umræðuna
Við getum byggt upp slíkt samfélag, um það efast ég ekki en þá verðum við að vanda umræðuna. Skömmin er ekki þeirra sem halda tónlistahátíðir né þeirra sem þangað mæta heldur þeirra sem nauðga. Ábyrgðin er einnig okkar sem mótum hið íslenska samfélag. Gleymum því ekki að í Danmörku er haldin hliðstæða þjóðhátíðar í svo kallaðri Hróarskelduhátíð. Þar er áfengisnotkun síst minni og þar er meðalaldurinn síst hærri. Þar eru nauðganir hinsvegar fátíðari rétt eins og að nauðganir í Danmörku eru fátíðari en á Íslandi. Árið 2009 voru 6,4 nauðganir pr. hverja 100.000 íbúa kærðar í Danmörku en 24,7 á Íslandi. Ofbeldið á útihátíðum, í bílum, inn á heimilum og víðar er því afleiðing af einhverju samfélagslegu meini sem við verðum að takast á við. Umræðan seinustu daga hefur fært okkur fjær árangri í stað þess að færa okkur nær því. Þar er ábyrgð fjölmiðla mikil.
Tíminn til aðgerða er nú.
(þótt í skrifum hér að ofan sé fjallað eingöngu um kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum þá á allt hið sama við um slíkt ofbeldi gagnvart körlum. Staðreyndin er hinsvegar sú að ofbeldi gagnvart konum er langtum algengara og því eðlilegt að ræða það út frá þeim forsendum)