Ferðaþjónusta verður að vera í sátt við íbúa á ferðaþjónustusvæðum
Ferðaþjónusta er í dag mikilvæg atvinnugrein fyrir hið íslenska hagkerfi. Til landsins í fyrra komu 998.600 ferðamenn og fjölgaði þeim um 9,3%. Hlutur ferðaþjónustu í þjóðarframleiðslu hefur vaxið úr 18,8% í 27,9% á árunum 2010 til 2014. Heildarfjöldi starfandi í ferðaþjónustugreinum var 21.600 árið 2014 og hafði þá fjölgað um 2600 manns á milli ára. Frá 2010 hefur þeim sem starfa í ferðaþjónustu fjölgað um 37,6% á meðan fjöldi starfandi alls í landinu hefur fjölgað um rúm 6%.
Vestmannaeyjar
Hér í Eyjum höfum við ekki farið varhluta af þessu. Seinasta heila árið sem Herjólfur sigldi í Þorlákshöfn ferðuðust 127.000 manns með skipinu. Í fyrra nálgaðist farþegafjöldi að vera 300.000 manns. Það gerir 136% fjölgun farþega, og það þrátt fyrir þær miklu frátafir sem ætíð hafa verið í siglingum í Landeyjahöfn.
Mikill fjöldi ferðamanna
Sumarið í sumar hefur verið stórkostlegt hvað ferðaþjónustu varðar. Á hverjum einasta degi streyma þúsundir ferðamanna til Eyja. Fyrir mörgum er ferðin til Eyja hápunktur Íslandsdvalar, það sýna bæði formlegar og óformlegar mælingar. Vestmannaeyjar eru enda vel fallnar til ferðþjónustu. Einstök og aðgengileg náttúra, lundar, Eldheimar, frábærir veitingastaðir, fjölbreytt afþreying (sund, sprang, bátsferðir, segway, skipulagðar gönguferðir, rútuferðir og margt f.l.).
Ríkið hefur 30 þúsund milljónir í tekjur
Mestallar tekjur sem opinberir aðilar á Íslandi fá af ferðamönnum renna í ríkissjóð. Virðisaukaskattur, bensíngjöld, leyfisgjöld, gjöld af flugumferð o.s.frv. fara að öllu leyti til ríkisins. Landsbankinn hefur unnið ítarlega greiningu á tekjum ríkisins af ferðaþjónustu. Hún leiddi í ljós að beinar skatttekjur ríkisins af ferðaþjónustu eru um 20 milljarðar. Óbeinar skatttekjur sennileg nærri 10 milljörðum. Samtals gera það um 30 þúsund milljónir. Ferðaþjónustan er því ekki baggi á ríkissjóði heldur mikilvæg uppspretta tekna.
Álag á innviði
Að beina 998.000 ferðamönnum til lands þar sem búa um 330.000 manns veldur álagi á innviði. Sé því ekki mætt með fjárfestingu í innviðum –og þá fyrst og fremst samgöngum- er hætt við að illa fari. Umfram flestar aðrar atvinnugreinar eru samgöngur háðar velvilja landsmanna eða öllu heldur íbúa ferðamannasvæða.
Bæjarbúar eru enn velviljaðir
Hér í Vestmannaeyjum er staðan sú að almennt þykir Eyjamönnum gott að búa í ferðamannabæ. Bæjarbúar kunna vel að meta þá miklu þjónustu sem slíku fylgir og ekki fer fram hjá neinum hversu mikið fjölbreyttari atvinnulífið verður. Bæjarbúar kunna hinsvegar ekki vel að meta þá staðreynd að efling ferðaþjónustu hefur verið á kostnað ferðafrelsis heimamanna. Samgöngur til Vestmannaeyja eru mjög takmörkuð auðlind og enn á ný er ástandið orðið okkur erfitt. Við komumst einfaldlega hvorki heiman né heim á þeim tíma sem ferðaþjónustan er öflugust.
Það þarf að fjölga ferðum
Ef ríkið bregst ekki við með bættum samgöngum svo sem fleiri ferðum Herjólfs er hætt við að bæjarbúar missi þolinmæðina gagnvart ferðaþjónustu. Það væri afleitt. Ábyrgðin liggur hjá ríkinu og á einfaldan máta er hægt að bæta við ferðum með Herjólfi. Í dag þurfum við 6 ferðir á dag.
Sömu sögu er að segja um allt land. Ríkið verður að fjárfesta í innviðum ef ekki á illa að fara fyrir þessum öfluga vaxtarbroddi í hagkerfi þjóðarinnar.