Fasteignaþróun í miðbænum - Í Vestmannaeyjum á hjartað að slá fyrir alla

Það sem af er þessu kjörtímabili hefur Vestmannaeyjabær lagt áherslu á að nýta rekstrarhagræðingu seinustu ára til að auka þjónustu við bæjarbúa.  Þannig var höfuðáhersla lögð á hlut barna og barnafjölskyldna sem meðal annars skilaði mikilli fjölgun á leikskólaplássum, frekari niðurgreiðslu til dagmæðra, heimagreiðslum til foreldra, tómstundastyrkjum til barna undir 16 ára auk þess sem ákveðið var að viðhalda þjónustuþáttum á borð við að veita öllum börnum gjaldfrjálst aðgengi að sundlaug og fl.

Á meðan innleiðing á þessum þjónustuþáttum gagnvart börnum og barnafólki stóð yfir var hafinn undirbúningur að stóreflingu þjónustu við aðra þjónustuhópa og þar með talið við fatlaða en mat okkar var að löngu tímabært væri að þeir þjónustuþegar fengju aukna athygli.

Á aðalfundi Þroskahjálpar sem fram fór í seinustu viku voru ný þjónustuúrræði kynnt.  Fundurinn sjálfur var haldinn í nýrri hæfingastöð sem starfrækt er í því húsnæði sem áður hýsti Kertaverksmiðjuna Heimaey sem nú hefur verið endurgert og aðlagað þörfum samtímans og breyttum áherslum. Hin nýja hæfingamiðstöð varð til þegar Hæfingastöðin Hamar og Kertaverksmiðjan Heimaey sameinuðust og er þar í dag veitt alhliða hæfing með áherslu á að mæta á heildstæðan máta þörfum fatlaðs fólks á hverskonar dagþjónustu, vinnu, hæfingu og þjálfun í margvíslegri hæfni.

Markmiðið að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör og öðrum íbúum Vestmannaeyja

Á þessum fundi fór ég einnig yfir hvernig Vestmannaeyjabær hyggst halda áfram að bæta hag fatlaðra í Vestmannaeyjum.  Markmið Vestmannaeyjabæjar er enda að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra íbúa Vestmannaeyja og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.

Stór þáttur í því að ná þessu markmiði er að tryggja að fatlaðir geti komist ferða sinna og aðgengismál því aðkallandi.  Með það fyrir augum hefur Vestmannaeyja ráðist í mikið átak við að bæta aðgengismál.  Auk þess sem lyftur hafa verið settar í nánast allar stofnanir Vestmannaeyjar sem eru með starfsemi á fleiri en einni hæð (td. Eldheima, Kviku, Barnaskólann, Safnahúsið og fl.) hafa gangstéttir og annað verið hannaðar og lagðar með þessi sömu markmið í hug.

Höfum ekki staðið okkur nægileg vel í húsnæðismálum fatlaðra

Það sem helst hefur staðið út af borðinu eru hinsvegar húsnæðismál fatlaðra.  Þegar að þeim kemur hefur Vestmannaeyjabær einfaldlega ekki staðið sig jafn vel og ætlast má til og því löngu tímabært að gera þar bragabót á.

Ráðist í fasteignaþróun í miðbænum

Upphaflega stefndum við að því að byggja 4 til 6 íbúðir í sem mestu nábýli við núverandi sambýli við Vestmannabraut.  Það reyndist þó þrautinni þyngri enda lóðakostur í nágreninu þröngur.  Í þeirri stöðu var ákveðið að horfa til annarra lóða í miðbænum. Þegar upp kom sú staða að fella ætti gömul og úrsérgengin fiskvinnsluhús í hjarta miðbæjarins kviknaði áhugi á því að skoða fasteignaþróun á þeim reit með íbúðir fyrir fatlaða í huga.  Í kjölfar auglýsingar þar sem leitað var eftir samstarfi við áhugasama um slíka fasteignaþróun var ákveðið að vinna með Steina og Olla að slíku meðal annars með húnsæðisþarfir fatlaðra í huga.

Unnið gegn félagslegri einangrun með samþættingu á þjónustu

Þar var skoðað að koma 4 til 6 íbúðum fyrir í nýju húsnæði þar sem Ísfélagið hefur hingað til verið.  Frekari fasteignaþróun og rýnivinna með hagsmunaðailum fatlaðra kveikti síðan þá hugmynd að flytja starfsemi Sambýlisins í þetta sama húsnæði.  Til grundvallar þeirrar ákvörðunar lá annarsvegar að koma Sambýlinu í nýtt og heppilegra húsnæði enda núverandi húsnæði barn síns tíma enda hátt í 30 ára gamalt.  Þá var það sterk skoðun okkar sem að þessu komu að mikilvægt væri að gefa fötluðum kost á að njóta góðs aðgengis að stuðningi hvort sem þeir væru í sjálfstæðri búsetu eða á Sambýli auk þess sem í þeirra hópi, eins og annarra, er maður manns gaman og mikilvægt að stilla hlutum þannig upp að unnið sé gegn félagslegri einangrun og þvert í móti að hvatt til samgangs og samneytis.

Nú erum við því að vinna útfrá þeirri tilgátu að byggt verði bæði nýtt sambýli og allt að 6 íbúðir fyrir fatlaða í sama húsinu.  Ástæða er þó til að taka skýrt fram að enn er fasteignaþróun ekki lokið og ekkert hefur verið klappað í stein þótt mótaðar hugmyndir liggja nú fyrir.

Skoðað að staðsetja nýtt sambýli einnig í miðbænum

Þessar hugmyndir fela sem sagt í sér að nýtt sambýli verið staðsett á annarri hæð nýbyggingar við Strandveg 26 þar sem Ísfélagið hefur hingað til haft höfuðstöðvar sínar og á þriðjuhæð verði 4 til 6 íbúðir fyrir sjálfstæðabúsetu fatlaðra sem þannig geta sótt þjónustu í sambýlið og notið samneytis við aðra íbúa þar.  Hugmyndin felur það einnig í sér að hluti af burðarvirki þess húss sem þarna hefur staðið verði nýttir og þannig verði bæði tíma og fjármagn sparað án þess að á nokkurn máta verði gefið eftir af kröfum um gæði byggingar.  Í því fellst að þótt húsið verði að mestu fjarlægt og þar með talið botnplötur, allt byggingarefni annað en steypa og fl. þá nýtist burðavirkið áfram og þannig er einnig vernduð sú ásýnd sem Eyjamenn og gestir þekkja.

Tækifærið notað til að efla mannlíf og menningu miðbænum

Miðað við fyrst tillögur er gert ráð fyrir að megnið af fyrstuhæðinni og öll fjórðahæðin verði í eigu einkaaðila en Vestmannaeyjabær mun þó stefna að því að eiga sjálfann bogan og nýta hann til að efla menningu og mannlíf í Vestmannaeyjum.

Sólarhringsþjónusta og aðstoð veitt við athafnir daglegslífs

Öll önnur hæðin verður hinsvegar nýtt undir Sambýli fatlaðra ef hugmyndir ná fram að ganga.  Þar verður veitt sólarhringsþjónusta og aðstoð veitt við athafnir daglegslífs.  Frumhönnun gerir ráð fyrir 5 íbúðum líkt og í dag eru á sambýlinu en gert er ráð fyrir möguleika á því að nýta rúmlega 100 m2 í viðbót þegar þörf verður á.

Almennar íbúðir í bland

Á þriðjuhæðina er svo stefnt að því að vera með allt að 6 íbúðir sem verða sérhannaðar fyrir fatlaða.  Miðað við frumhönnun er um að ræða rúmlega 50m2 íbúðir með sérinngangi auk sér svala fyrir hverja íbúð.  Þar til viðbótar verða sennilega 2 stærri íbúðir á þeirri hæð í einkaeigu.  Sem fyrr segir er svo gert ráð fyrir því að öll 4. hæðin verði í einkaeigu.

Stefnt að því að hefja nýtingu á næsta ári 

Öll undirbúningsvinna hefur gengið nokkuð vel og vonir standa til að hönnun ljúki núna í vor og verklegar framkvæmdir hefjist í beinu framhaldi af því.  Auðvitað eru enn margir óvissuþættir en við stefnum að því að árið 2018 verði hægt að flytja inn í fyrstu íbúðirnar.  Reynslan er þó sú að ekki er ólíklegt að óvissuþættir kunni að valda einhverjum drætti.

Hjartað á að slá fyrir alla í Vestmannaeyjum

Stefna okkar er sem fyrr segir að Vestmannaeyjar séu góður staður fyrir alla.  Við erum stöugt að leggja okkur fram um að bæta samfélagið og í þetta skiptið eru það mýkri málaflokkarnir sem eiga hug okkar því í viðbót við það sem hér getur um og þá miklu þjónustuaukningu sem orðið hefur í því sem snýr að börnum og barnafjölskyldum þá erum við einnig í miklum framkvæmdum við málaflokk aldraðra, viðbyggingu við leikskóla og ýmislegt fleira.  Við göngum fram undir kjörorðunum „Það sem hjartað slær“ og það er okkar allra að tryggja að hjartað slái fyrir alla og þá ekki síst börn og þá sem af einhverjum ástæðum þurfa sérstaka aðstoð.

Previous
Previous

Umhverfisframkvæmdir

Next
Next

Staða siglinga þetta vorið - nýjasta dýptarmælinging