Umhverfisframkvæmdir

Á seinustu árum hefur Vestmannaeyjabær fengið styrki til að bæta aðgengi að ferðamannastöðum víða um Eyjuna.  Styrkirnir eru hvetjandi en sjaldnast duga þeir til að standa undir framkvæmdum.  Á seinustu dögum hefur nokkuð verið rætt um hvernig þessum styrkjum hefur verið varið og jafnvel hvort þessum styrkjum hafi verið til þeirra framkvæmda sem þeir voru ætlaðir.

Ég vil því með þessum skrifum gera grein fyrir þeim framkvæmdum sem um ræðir:

Göngustígur meðfram hamrinum

Búið er að leggja göngustíg meðfram hamrinum allt frá Kaplagjótu og suður fyrir Torfmýri.  Stígurinn var þar tengdur við eldri stíg og hann merktur og afmarkaður.  Stígur við suðurhluta hamarsins var einnig bættur verulega í kjölfar ábendinga frá göngufólki.   Hluti af þessari framkvæmd var að brúa leið yfir kletta og fleira.  Framkvæmdin var því veruleg og loka kostnaður liggur sennilega nærri 10 til 12 milljónum (styrkurinn var 6 milljónir).  Göngustígurinn er mikið notaður enda mjög falleg gönguleið.  Það kom mér á óvart að fólk sem fylgist með í Eyjum skuli ekki vita af þessum fallega göngustíg og ástæða til að hvetja fólk til að leggja bílunum og skoða þessa skemmtilegu framkvæmd.

Framkvæmdir við Blátind.

Ráðist var í slipptöku, þéttingu, málningu og undirbúningi að flutningi á svæðið við Skansinn þar sem fyrirhugað er að framtíðarsvæði hans verði.  Þar er búið að jafna út púða undir þann stað sem Blátindur á að vera á en eftir er að steypa slikjurnar svo hægt sé að setja hann á sinn stað.  Heildarkostnaður við þetta nálgast 6 milljónir (styrkurinn var 3 milljónir).  Þar er þó sennilega ekki um að ræða nema helming til 1/3 af lokakostnaði.  Búið er að semja við verktaka um að koma skipinu á sinn tilgreinda stað en vegna anna hefur hann ekki enn komist í verkið.  Eftir að búið verður að koma þessum fallega bát á réttan stað er síðan stefnt að því að fella hann að Skanssvæðinu með því að byggja trébryggju/pall í kringum hann.  Myndin hér að neðan gefur hugmynd að því hvernig þetta er hugsað.  Hér er þó ekki um neina endanlega hönnun að ræða.

Spröngusvæðið

Á seinustu árum er búið að skipta um fallmöl, setja bekk, setja upp skilti sem varar við hættu og sitthvað fleira.  Vilji er til að ganga lengra á þessu svæði í umhverfisframkvæmdum en það er flókið þar sem Vestmannaeyjabær hefur ekki forræði yfir landinu undir spröngunni.  Veruleikinn er sá að lóð steypustöðvarinnar nær alveg upp að berginu og um hana gildir lóðaleigusamningur.  Nú er verið að vinna að nýju skipulagi þessa svæðis og vonir okkar standa til að lóðaskipti geri Vestmannaeyjabæ mögulegt að eignast þessa mikilvægu lóð.  Í framhaldi af því verður vonandi hægt að laga svæðið betur með góðum merkingum td. á örnefnum og fl. og tengja svæðið með göngustígum og sitthvað fleira.

Heimaklettur

Verulega mikið hefur verið gert í að bæta aðgengi að Heimakletti, sem er jú stolt okkar Eyjamanna.  Þar hefur Vestmannaeyjabær sannarlega notið góðs af eldhugum sem þekkja klettinn og láta sér annt um umhverfi hans.  Búið er að endurnýja stiga, setja tröppur í sandinn í Kleifunum til að hindra framskrið, merkja örnefni og ýmislegt fleira.  Hér er rétt að þakka hjartanlega fyrir alla þá miklu aðstoð sem einstaklingar og félagasamtök hafa veitt hvað þetta varðar auk þess sem styrkur frá ríkinu var góður hvati.

Verkefni hér að ofan eru eingöngu dæmi um það sem hér um ræðir.  Í viðbót við þetta má nefna nýja gönguleið á Eldfellið, merkingu gönguleiðarinnar um Eggjarnar, útsýnispall til móts við Surtsey og margt fleira.

Skipulagsmál í Vestmannaeyjum eru flókin.  Eyjan okkar er ekki nema 13 km2 og hún þarf að hýsa allan þann kraft sem í samfélaginu býr.  Hér viljum við um leið geta tekið á móti 10 til 12% af aflaheimildum þjóðarinnar, haldið knattspyrnumót með þúsund gestum, haldið þjóðhátíð með 20.000 gestum, gengið með hundana okkar, haldið kindur, stundað hestamennsku, byggt iðnaðarhús, gengið um ósnortna náttúru, byggð upp öfluga ferðaþjónustu, verndað fallegar byggingar, byggt nýjar byggingar og allt hitt sem prýðir okkar góða samfélag.  Það verður eingöngu hægt ef við höfum umburðarlyndi hvert gagnvart öðru.  Að við sýnum hvort öðru og okkar fallega umhverfi virðingu.

Previous
Previous

Hagur Íslendinga er að vænkast

Next
Next

Fasteignaþróun í miðbænum - Í Vestmannaeyjum á hjartað að slá fyrir alla