Herjóflur fór bilaður og kemur jafn bilaður

Sem sagt, núna er staðan þessi eftir því sem ég kemst næst:

Herjólfur er í slipp í Hafnafirði.  Búið er að taka upp gírinn.  Því miður er varahluturinn hinsvegar ekki á leið til landsins.  Næsta skref er því að loka gírnum og sigla Herjólfi aftur til Eyja, jafn biluðum og hann var.

Til landsins kom skip sem heitir „Röst“.  Ágætis skip, nánast eins og Herjólfur.  Eini munurinn hvað haffæri varðar er hlið sem sett var í Herjólf fyrir nokkrum árum en er ekki í Röstinni.  Þess vegna má hún ekki sigla í Þorlákshöfn. 

Á næstu dögum spáir skítabrælu.  Ölduhæð slær yfir 4 metra og vindur í 24m pr. sek.  Sem betur fer telja skipstjórnarmenn Röstina heppilegri til siglinga í Landeyjahöfn en Herjólf.  Að hún ráði við hærri öldu.  Til að mynda hefur hún nú þegar siglt í Landeyjahöfn í 2,7m öldu án nokkurra vandkvæða.  Vonir standa til að hún ráði við talsvert hærri öldu, rétt eins og Baldur gerði.  Sá böggull fylgir þó skammrifi að eftir því sem ég kemst næst þá miðar norska útgerðin við 20m vindhraða.  Það er því vesen framundan.

Upplýsingaflæðið í kringum þetta er svo sér kapítuli.  Engu líkara en að Vestmannaeyjabæ -sem þó er fulltrúi heimamanna- komi þetta ekki við.  Enn hefur til dæmis ekki komið formleg tilkynning um að Herjólfur þurfi í slipp, né heldur að hann sé í slipp, hvað þá að okkur sé tilkynnt formlega að viðgerðin gangi ekki eftir.  Við lásum um það á Facebook.

Niðurstaðan er því þessi: Herjólfur var bilaður og verður það áfram.  Búið verður að taka hann úr drift í næstum tvær vikur þegar hann kemur jafn bilaður til baka.  Beinn útlagður kostnaður ríkisins hleypur á tugum milljóna og kostnaður samfélgsins ómældur.  Hver ber ábyrgðina? Það veit ekki nokkur maður.

Ég held að höfundar áramótaskaupsins hafi notað orðin „Helvítis fokking fokk“ yfir þær tilfinningar sem með mér bærast.  Ætli eina leiðin sé ekki að bíða eftir að það opni á Brothers Brewery, fá sér einn Gölla og blóta.  Bíða síðan eftir því að við tökum þennan rekstur yfir.  Þetta gengur ekki svona.

Previous
Previous

Staðan núna

Next
Next

Vegagerðin leitar allra leiða til að tryggja gott afleysingaskip fyrir Herjolf