Staðan núna

Eins og komið hefur fram leigði Vestmannaeyjabær dæluskipið Galilei núna um helgina.  Hægt er að lesa um það hér í frétt Eyjafrétta (umfjöllun Eyjafrétta). Var það gert til að höggva á ákveðinn hnút og reyna að opna höfnina sem fyrst.

Dýpkunin gekk vel og ljóst að dýpkunarskipið sem verið er að nýta í þetta er afar gott rétt eins og áhöfnin sem er almennt með áratuga reynslu af störfum sem þessum um allan heim

Myndirnar hér fyrir neðan eru teknar þegar við gengum frá leigusamningi við þá á laugardaginn.

Staðan núna er sú að eftir vel lukkaðar tilraunir um helgina hefur tekist að fjarlægja megnið af hólnum sem sópast hafði upp milli garða.  Eftir sem áður var dýpið þar í gærkvöldi ekki nægt til að hefja siglingar Herjólfs þangað, a.m.k. ekki óháð sjávarföllum. Eins og sést á þessari mynd sem er af mælingu sem gerð var í gærkvöldi vantaði þá a.m.k. meter til einn og hálfan upp á að slíkri stöðu væri náð.

JDN í samstarfi við Vegagerðina stefna nú að því að halda dýpkun áfram svo fljótt sem verða má þannig að dýpi milli garða verði í a.m.k. 6 metrar og 7 metrar þar fyrir framan.  Slíks dýpis er þörf þar sem Herjólfur ristir mikið dýpra en gert var ráð fyrir við hönnun hafnarinnar.

Vandinn nú sem fyrr er að eftir að haustlægðirnar byrja að dembast yfir þá er erfitt að vinna þarna á dýpkunarskipum.  Núna er dýpkuarskipið t.d. komið í land og fer vart af stað fyrr en í nótt eða á morgun. 

Myndin hér fyrir neðan sýnir ölduspána og ljóst að gluggarnir til dýpkunar eru bæði þröngir og þeir fáir.

Við megum þó ekki missa móðinn þótt stöðugt blási á móti.  Nú er að fara af stað útboð á dælubúnaði sem stjórnað verður af krana úr landi. Þannig verður dýpkun ekki jafn háð ölduhæð og nú er.  Þeim búnaði er ætlað að koma í veg fyrir þá stöðu sem nú er uppi.  Þá er einnig að verið að gera breytingar á viðlögukanti Herjólfs sem ásamt tilfærslu á innri garð á að draga úr ókyrð innan hafnar. 

Þá eru viðræður við ríkið um yfirtöku á Herjólfi á fullu skriði en þegar hafa tveir fundir verið haldnir og fl. verið dagsettir í þessari viku.  Myndin hér fyrir neðan er af þeim Páli Guðmundssyni útgerðarstjóra á Huginn, Grími Gíslasyni framkvæmdastjóra Atlas og fyrrverandi formanni stjórnar Herjólfs hf., Lúðvíki Bergvinssyni lögmanni hjá Bonafide, Yngvari Harðarsyni og Vigni Jónssyni hagfræðingum hjá Analitika.  Hún var tekin á fyrsta fundi þess teymis sem vinnur að samningum um rekstur Herjólfs fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar.

Það er einlæg afstaða bæjarstjórnar að mikilvægt sé fyrir heimamenn að komast nær ákvörðunarvaldinu í öllu sem snýr að samgöngum.  Eins og ÍBV peyjarnir syngja: „Þetta er okkar mál, tökum þátt af líf og sál...“ 

Previous
Previous

Áherslur Vestmannaeyjabæjar í viðræðum við ríkið um yfirtöku á rekstri Herjólfs

Next
Next

Herjóflur fór bilaður og kemur jafn bilaður