Framkoma Gunnars Braga honum til skammar

Viðskiptabann á Rússa kemur illa niður á mörgum og því miður eru sterkar líkur fyrir því að þjóðarbúið allt komi til með að líða fyrir.  Verst kemur það niður á sjávarbyggðum, íbúum þar og fyrirtækjum.  Það er ekki þar með sagt að rangt hafi verið að styðja aðgerðir gagnvart Rússum.  Það er hinsvegar þar með sagt að vanda hefði þurfti til verka langt umfram það sem gert var.  Þá er einnig sjálfsagt að málflutningur ráðamanna við þessar aðstæður sé yfirvegaður, skír og hófstilltur.

Gunnþór Ingvarsson

Maður er nefndur Gunnþór Ingvarsson, hann er framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.  Undir honum starfa 270 manns, lang flestir á Neskaupsstað.  Fyrirtækið sem Gunnþór stjórnar er einn af mikilvægustu stólpum þess byggðarlags.  Afleiðingar af aðgerðum stjórnvalda hvað viðskiptabann á Rússa varðar eru nú að hvolfast yfir fyrirtækið sem hann fer fyrir.  Mikilvægustu markaðarnir fyrir frystan uppsjávarfisk; loðnu-, síldar- og makrílafurðir auk mikilvægs markaðar fyrir bolfiskafurðir eru nú að lokast.  Slíkt kemur til með að bitna hart á flestum þeirra 270 starfsmanna sem starfa hjá Síldarvinnslunni, á fyrirtækinu sjálfu og á samfélaginu fyrir austan.

Starfi sínu vaxinn

Það er eðlilegt að í þeirri stöðu sem Gunnþór er í bregðist hann við á gagnrýnin máta.  Það er eðlilegt að hann hafi áhyggjur af fyrritækinu, starfsmönnum þess og samfélaginu á Reiðafirði.  Ef hann hefði það ekki væri hann ekki starfi sínu vaxinn.  Eðlileg viðbrögð Gunnþórs voru að tjá sig opinberlega og gagnrýna þann skaða sem búið væri að vinna á hálfraraaldar uppbyggingu á mörkuðum í Rússlandi.

Gunnar Bragi Sveinsson

Maður er nefndur Gunnar Bragi Sveinsson.  Hann er utanríkisráðherra.  Hann er kjörinn fulltrúi þjóðarinnar og honum er falið mikið vald sem utanríkisráðherra.  Gunnar Bragi er sá stjórnmálamaður sem ber besta ábyrgð á því að markaðir fyrir uppsjávarfisk eru nú í uppnámi.  Hann ber ábyrgð á því að fyrirtæki eins og Síldarvinnslan koma sennilega til með að lenda í miklum vanda.  Hann ber ábyrgð á því að starfsmenn Síldarvinnslunnar tapa tekjum og einhverjir sjálfsagt vinnunni.  Þessi ábyrgð gerir ákvörðun um viðskiptabann gagnvart Rússum hvorki rétta né ranga.  Þessi ábyrgð gerir það hinsvegar að verkum að ákvörðunin er gagnrýniverð.

Ekki starfi sínu vaxinn

Það er eðlilegt að stjórnmálamenn þurfi að ræða veigamiklar ákvarðanir sem snerta íbúa landsins. Það er eðlilegt að þeir þurfi að svara fyrir gjörðir sínar.  Ef þeir ráða ekki við að gera slíkt á málefnalegan hátt þá eru þeir ekki starfi sínu vaxnir.  

Hótanir 

Í stað þess að sýna því skilning að orð og gjörðir í utanríkismálum hafa afleiðingar fyrir íbúa þess lands og fyrirtæki og mæta þannig gagnrýni af stillingu brást Gunnar Bragi hinn versti við.  Steininn tók úr þegar utanríkisráðherrann og þingmaðurinn gekk svo langt í viðtalsþættinum „Á Sprengisandi“ að viðhafa lítt duldar hótanir um að ef Gunnþór hefði ekki vit á að halda sig til hlés –halda kjafti- þá yrði fiskveiðistjónunarkerfið endurskoðað.  Ef Gunnþór tjáir skoðanir sem ekki eru stjórnmálamanninum þóknanlegar megi allt eins búast við því að eignir hans og tengdra aðila verði gerðar upptækar. Þessar alvarlegu hótanir kryddaði ráðherrann svo með brigslum um arðgreiðslur og oflátungshátt Síldarvinnslunnar.  Ég vil trúa því að ráðherran hafi hér hlaupið á sig og þetta tilvik sé ekki dæmigert fyrir hann.  Eftir stendur að framkoman að þessu sinni var honum ekki samboðin heldur til skammar.

Ömurlegt

Það er ömurlegt fyrir okkur sem eigum allt undir sjávarútvegi að stjórnmálamenn skuli ítrekað leyfa sér að vega að atvinnugreininni.  Það veikir sjávarútveg og sjávarbyggðir.  Orð Gunnars Braga hafa vægi og í karpi um utanríkismál hefur hann ekkert að gera með að viðhafa slíkar hótanir.  Það er fullkomlega skiljanlegt að Gunnþór Ingvarsson bregðist við ákvörðun sem skaðar fyrirtæki hans og hans heimabyggð.  Rétt viðbrögð ráðherra hefðu verið að útskýra og réttlæta ákvörðun sína en ekki að viðhafa hótanir og brigslanir.  Að nálgast málið málefnalega en ekki að reyna að þagga niður í gagnrýnisröddum.  Slíkt er eingöngu merki um vondan málstað.

Previous
Previous

Málið sem ég ætlaði ekki að tjá mig um

Next
Next

Allir ósáttir við kynferðislegt ofbeldi