Málið sem ég ætlaði ekki að tjá mig um

Á seinustu vikum hefur verið nokkuð rætt og ritað um þá vinnu sem Illugi Gunnarsson vann og fékk greitt fyrir hjá Orku Energy þegar hann tók sér orlof frá þingmennsku.  Illugi snéri aftur á þing haustið 2011.  Í orlofinu vann hann hjá Orku Energy.  Síðar sat hann fund með fyrirtækinu sem ráðherra.  Upp hafa sprottið ýmsar kenningar um allt þetta. Ég ætlaði ekki að tjá mig neitt um þetta mál, en...

...ég stenst ekki mátið

Illugi var í erfiðri stöðu
Fyrir alla er erfitt að missa vinnuna, jafnvel þótt að það sé tímabundið.  Fram hefur komið að meðal annars vegna þessa orlofs lenti Illugi og fjölskylda hans í fjárhagsþrengingum sem bættust þar ofan á þær þrengingar sem fjölskylda Illuga gekk í gegnum í kjölfar hrunsins, rétt eins og nánast allar aðrar fjölskyldur í landinu.  Vegna þessarar stöðu seldi Illugi og hans fjölskylda íbúð sína.  Kaupandinn var einn af vinum Illuga sem ku heita Haukur og vera stjórnarformaður Orku Energy.  Illugi leigði húsið til baka á markaðsvirði.  Einnig hefur komið fram að Illugi og hans fjölskylda reyna nú að kaupa aðra íbúð. 

Vel gert hjá Össuri
Ef til vill er ástæða til að rifja upp að hagsmunir Orku Energy í Kína eiga að stóru leyti uppruna sinn í ferð sem farin var 2013 að undirlagi Össurar Skarphéðinssonar þáverandi utanríkisráðherra.  Össur var duglegur ráðherra og meðal verka hans var undirritun fríverslunarsamnings ásamt viðskiptaráðherra Kína.  Við sama tækifæri var einmitt ritað undir samning milli Orku Energy/Sinopec og Þróunarbanka Kína. Það gerði Össur án þess að stórnarformaðurinn væri vinur hans.  Það var vel gert hjá Össuri Skarphéðins að styðja við öflug íslensk fyrirtæki. (sjá hér

Vel gert hjá Jóhönnu
Ekki má heldur gleyma því að Kínverjar hafa lengi verið áhugasamir um tengsl við íslensk fyrirtæki á sviði jarðhitaverkefna.  Á sama hátt hafa íslenskir ráðherrar viljað leggja lykkju á leið sína fyrir íslensk fyrirtæki.  Jóhanna skrifaði einmitt fína grein um mikilvægi þessara samskipta 18. apríl 2013 sem hún kallaði „Sóknarfæri í samskiptum við Kína“ (sjá hér) .  Í umfjöllun um fund Jóhönnu Sigurðardóttur með Wen Jiabao forsætisráðherra Kína sem fram fór í apríl 2013 segir m.a.: „Þá ræddu ráðherrarnir jarðhitanýtingu og samstarf Íslands og Kína í þeim málum á alþjóðavettvangi sem og innan Kína.  Forsætisráðherra Kína er jarðfræðingur og hefur sýnt mikinn áhuga á jarðhitanýtingu og náttúru Íslands.“ Það gerði Jóhanna án þess að stórnarformaður eins af stóru orkufyrirtækjunum væri vinur hennar. Það var vel gert hjá Jóhönnu að treysta þessi tengsl og styðja þar við öflug íslensk fyrirtæki.
(sjá hér)

Vel gert hjá Katrínu og Guðbjarti.
Eðlilega eru íslenskir ráðamenn almennt áhugasamir um að styðja við bakið á íslenskum fyrirtækjum.  Það má gera á margan máta.  Katrín Jakobsdóttir og Guðbjartur Hannesson sýndu Orku Energy til að mynda eindreginn stuðning með því að vera viðstödd undirritun samnings milli Orku Energy og kínverskra stjórnvalda í Þjóðmenningarhúsinu árið 2012.  Það gerðu Katrín og Guðbjartur án þess að stórnarformaðurinn væri vinur þeirra. Það var vel gert hjá þeim að styðja þar við öflugt íslenskt fyrirtæki.

Vel gert hjá Illuga
Mjög hefur verið gert tortryggilegt að þessi umræddi vinur Illuga –sá sem réði hann í vinnu og keypti af honum húsið- hafi verið með í opinberri heimsókn til Kína í mars síðastliðnum.  Þrátt fyrir að aðkoma Illuga sem ráðherra hafi verið algerlega í anda þess sem aðrir ráðherrar höfðu gert á undan.  Sumir jafnvel talið að þar sé um spillingu að ræða.  Í þessari ferð var umræddi vinurinn, sem forsvarsmaður þess orkufyrirtækis sem er hvað umsvifamest í jarðhitaverkefnum í Kína.  Komið hefur fram að samstarfsverkefni þessa orkufyrirtækis sé í dag burðarás í samskiptum Kína og Íslands í orkumálum og hafi verið það frá því að forverar Illuga komu slíkum tengslum á.  Í sömu ferð voru alls 9 manns í svokallaðri „Business delegation“, ýmist fulltrúar frá Marel eða Orku Energy.  Bæði fyrirtækin hafa hagsmuna að gæta í Kína. Tilgangur ferðarinnar voru fundir með ráðherrum menningar- vísinda- mennta- og íþróttamála ásamt öðrum fundum, meðal annars vegna samstarfs Íslands á sviði heimskautarannsókna, loftlagsrannsókna og orkumála. Ráðherra sat einn fund með Orku Energy og samstarfsaðila þeirra í Kína. Getið var um þann fund í dagskrá heimsóknarinnar.  Það gerði Illugi þrátt fyrir að stórnarformaðurinn væri vinur hans. Það var vel gert hjá Illuga að styðja þar við öflugt íslenskt fyrirtæki.

Kostar hann nánast æruna
Ég er ekki viss um að Illugi hefði mætt til þessa tilgreinda fundar ef hann hefði vitað hvað myndi fylgja á eftir.  Ef til vill hefði hann fórnað þessu tækifæri til að styðja við íslenskt fyrirtæki ef hann hefði rennt í grun að það myndi nánast kosta hann æruna, að minnsta kosti tímabundið.  Síðan þá hafa nefnilega launagreiðslur Illuga verið gerðar tortryggilegar, atriði eins og hvort laun voru greidd fyrirfram eða ekki sögð ástæða afsagnar.  Illugi hefur verið krafinn þess að veita aðgengi að heimilisbókhaldi fjölskyldunnar og látinn framvísa launaseðlum og kvittunum fyrir persónulegum útgjöldum.  Laun sem hann fékk greidd fyrir vinnu sína jafnvel kallað lán til að gefa þeirri ímynd byr að um einhverskonar mútugreiðsur væri að ræða.

RÚV biðst afsökunar
Hún lét ekki mikið yfir sér yfirlýsing RÚV í hádegisfréttum í gær.  Hún var svona:
„Fréttastofa RÚV sagði á vef sínum á föstudagsköld að lán sem Illugi hafði fengið frá Orku Energy væru að hans sögn fyrirfram greidd laun.  Fréttastofa hefur engin gögn sem styðja þá fullyrðingu að Illugi hafi fengið lán frá fyrrnefndu fyrirtæki [Orku Energy] því er beðist afsökunar á þeirri fullyrðingu sem fram kom í fréttinni og hefur fréttinni verið breytt í samræmi við það.“

Ætli þetta dugi til að leiðrétta skaðann af slíkri fullyrðingu hjá þeirri fréttastofu hér á landi sem nýtur mests traust landsmanna?  (sjá hér)

Fræðimaður telur aðstoð ráðherra við Orku Energy eðlilega
Á afmælisdaginn minn í fyrravor, 28. apríl, hlustaði ég á viðtal við Gest Pál Reynisson, forstöðumann Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands ræða málefni Illuga og aðstoðina sem hann veitti fyrirtækinu í Kína  Hann hafði þetta um málið að segja: „Í ljósi þess að þetta er á erlendri grund, það er verið að kynna fyrirtækið sem aðrir [ráðherrar] hafa kynnt áður, þá hefði það í raun og veru þótt sérstakara ef hann myndi neita að kynna það á þeim forsendum að leigusalinn hans tengdist fyrirtækinu með einum eða öðrum hætti.“

Ætli þetta dugi til að leiðrétta fullyrðingar um spillingu?

Sem sagt....
Illugi gerði mistök.  Hann átti að skilja andrúmsloftið á Íslandi nægilega vel til að átta sig á því að hann yrði að ganga langtum lengra í upplýsingagjöf en verið hefur í gegnum tíðina.  Hann átti að átta sig á áhrifum lekamálsins.  Hann átti að vera bljúgur við fjölmiðla og svara öllum þeirra spurningum.  Jafnvel þegar hann var búinn að svara þá átti hann að svara aftur.  Ef umfjöllun var ósönn átti hann að leiðrétta.  Hann átti að gyrða niður um sig í beinni til að sanna að hann hafði ekkert að fela.  Fyrir sinn eiginn hag átti hann að sýna allar myndirnar í myndasafninu, líka þær sem enginn á rétt á að fá að sjá.  Sjálfur hefði ég ekki bara gert það sama og Illugi gerði, ég hefði gengið langtum lengra í þessa röngu átt.  Ég hefði skaða mig enn meira í þeirri viðleitni að vernda einkalífið. 

Nú er svo komið að staðreyndir málsins skipta orðið litlu.  Eftir stendur að þetta mál hefur skaðað Illuga.

Umræða um afsögn sem ráðherra vegna þess er hinsvegar ekki í takt við neinn veruleika.

Previous
Previous

Heilbrigðisþjónusta í Vestmannaeyjum er ekki í samræmi við það sem faghópur ráðherra telur að þurfi

Next
Next

Framkoma Gunnars Braga honum til skammar