Framrúðan eða baksýnisspegillinn?

Frestum landsfundi og gefum sveitarstjórnarmálum rými.

Töluverð umræða hefur verið um tímasetningu næsta landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Það er eðlilegt að slík umræða vakni enda langt um liðið frá því að við Sjálfstæðismenn komum saman til að stilla af strengi um stefnu flokksins. Upphafleg ákvörðun um að halda landsfund í febrúar 2025 var tekin með það fyrir augum að undirbúa alþingiskosningar. Þau mál hafa þróast á annan hátt en búist var við. Sú þörf er ekki lengur fyrir hendi. Næstu mikilvægu kosningar eru sveitarstjórnarkosningar sem fara fram 16. maí á þar næsta ári. Landsfund þarf að nýta til undirbúnings þeirra. Ef það verður best gert með því að fresta landsfundi fram á vor, þá er rétt að gera það. Ég treysti miðstjórn til að vega það og meta.

 

Hátt í 500 manns gegna trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í sveitarstjórnum

Í sveitarstjórnarkosningunum sem haldnar voru 14. maí 2022 fékk Sjálfstæðisflokkurinn alls 113 fulltrúa kjörna í 35 sveitarfélögum þar sem hann bauð fram. Af þessum fulltrúum voru 55 konur (49%) og 58 karlar (51%). Flokkurinn er í meirihluta í 24 sveitarfélögum og þar af með hreinan meirihluta í 7 sveitarfélögum. Lauslega áætlað má gera ráð fyrir því hátt í 500 manns gegni trúnaðarstarfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í sveitarstjórnarmálum þegar nefndir og ráð eru talin með. Þessi staða er ekki sjálfgefin.

 

Sjálfhverfa þingflokksins

Lengi hefur mér þótt sjálfhverfa þingflokks okkar sjálfsæðismanna stappa við óþol. Þeim þykir sjálfsagt og eðlilegt að allt starf okkar góða flokks gangi út á þeirra hugarheim, þingstörfin. Svo mikilvægur sem þinglegi hluti flokksins er þá er bakbeinið í flokknum sveitarstjórnarmálin. Það góða fólk sem þar starfar er orðið leitt á að vera séð sem ágætt til að baka vöfflur, blása upp blöðrur og klappa fyrir þingmannsefnum. Það kallar á virðingu fyrir mikilvægi sveitarstjórnarstigsins og plássi innan stjórnkerfis flokksins til að vinna þau störf af fullum þunga.

 

Uppgjör þarf að fara fram

Bent hefur verið á mikilvægi þess að „gera upp seinustu alþingiskosningar“ og stöðu flokksins almennt. Þar erum við Sjálfstæðisfólk flest sammála. Rétti vettvangurinn til þess er landsfundur og vera má að uppgjörið kalli á einhvers konar breytingar á stefnu og stjórn flokksins. Það er þó nákvæmlega ekkert sem segir að þetta „uppgjör“ sé betra í febrúar en í maí. Mörg rök hníga hins vegar að frestun og er þar ekki nokkur ástæða til að líta fram hjá þeim vanda sem löng ferðalög af landsbyggðinni skapa á þessum árstíma þótt vissulega geti verið erfitt fyrir þá sem ekki hafa kynnst slíku að setja sig í þau spor.

 

Baksýnisspegillinn og framrúðan

Á þingi bíður okkar stjórnarandstaða. Þar fáum við tækifæri til að vega og meta nennu og getu okkar fólks og hvort við sjáum eitthvert þeirra sem framtíðarleiðtoga, hvort sem slíkt umboð verður endurnýjað eða nýfengið. Það kann líka vel að vera að við viljum sækja forystufólk út fyrir þröngan hóp þingflokksins. Það kann meira að segja vera þjóðráð að horfa til leiðtoga í sveitarstjórnum um allt land. Svo mikið er víst að þar er mannvalið mikið og gott. Samhliða uppgjöri við árangur seinustu kosninga þarf áherslan núna að fara á sveitarstjórnarmálin. Þörfin fyrir að líta í baksýnisspegil þingkosninga má ekki hindra sýn okkar á framrúðuna.

Next
Next

Jólakveðja