Þorlákshöfn í samstarf um þjónustu við gámaskip -styrkir byggð

Frá því að þéttbýli fór að myndast í Þorlákshöfn fyrir rétt um 75 árum hefur styrkur samfélagsins þar ráðist af höfninni. Öllum vexti hafnarinnar hefur fylgt verðmætasköpun og þar með aukin velferð fyrir íbúa. Seinast sáum við það gerast þegar Smyril Line hóf siglingar þangað árið 2017 á ekjuskipum (RORO). Nú verður næsta stóra skref með því að taka einnig upp flutninga á gámum.

Þorlákshöfn hefur tekið miklum breytingum á seinustu árum. Á þessari mynd má vel sjá nýjan Suðurvarargarð sem gjörbreytir höfninni. Forsenda frekari framkvæmda við norðurhöfnina er svo aukið snúningsrými auk þess sem nýtt snið á Suðurvararkantinn dregur úr hreyfingu innan hafnar.

 Stórfelld uppbygging

Það voru því mikilvæg tímamót í gær þegar flutningafyrirtækið Cargow Thorship undirritaði viljayfirlýsingu um stórfellda uppbyggingu á hafnarsvæðinu í Þorlákshöfn sem felur í sér aðstöðu til að þjónusta gámaskip og áætlunarsiglingar til Þorlákshafnar. Stefnt er að því að félagið hefji starfsemi síðar á árinu. Þar með hefst nýr og spennandi kafli í þróun atvinnulífs og samgangna á Suðurlandi.

 

Nýta lóð sem áður var nýtt til útflutnings jarðefna

Samkomulagið gerir ráð fyrir að Thorship Cargow nýti fyrst og fremst hinn nýja Suðurvarargarð sem brátt verður tilbúinn. Þá mun væntanleg landfylling sem mikið hefur verið rædd verða nýtt sem gámavöllur og horft er til þess að nýta Nesbraut 5, sem áður var nýtt af BM Vallá til útflutnings jarðefna, undir vöruhús. Þessi hluti hafnarinnar fær því aukið vægi í hefðbundnum inn- og útflutningi á sama tíma vægi útflutnings jarðefna verður minni en verið hefur seinustu ár.

Þessi mynd sýnir hvernig suðurhluti hafnarinnar þróast í átt frá þeim flutningi á jarðefnum sem verið hefur seinustu áratugi á Nesbraut 5 og þess í stað verður um hefðbundnari vöruflutninga að ræða. JEI mun halda sínum myndarlega rekstri áfram á þeirri lóð sem þeir hafa nýtt seinustu áratugi.

 

 Eflir byggð og styrkir stoðir samfélagsins

Ekki þarf að fjölyrða um að í þessu framtaki felast gríðarleg sóknarfæri fyrir samfélagið í Þorlákshöfn. Sveitarfélagið Ölfus mun tryggja framúrskarandi aðstöðu við höfnina fyrir móttöku vöruflutningaskipa og gámaþjónustu, en Cargow Thorship mun nýta þessa aðstöðu sem aðalhöfn sína á Íslandi fyrir nýjar siglingarleiðir á milli landsins og Evrópu. Þetta skref er ekki aðeins mikilvægt fyrir atvinnulífið heldur einnig fyrir íbúa, þar sem aukin starfsemi við höfnina skapar fleiri störf, örvar fjárfestingar og styrkir stoðir samfélagsins. Það hefur saga Þorlákshafnar sýnt.

  

Sterk staða Þorlákshafnar
Þorlákshöfn hefur lengi verið þekkt fyrir náttúrulega kosti sína. Góð dýpt og rúmgóð hafnarmannvirki gera hana að kjörinni höfn fyrir stór fraktskip, en staðsetningin á suðvesturhorni landsins býður einnig upp á greiðfærar samgöngur við höfuðborgarsvæðið. Með þessu samkomulagi er verið að nýta þessa kosti til hins ýtrasta og styrkja stöðu Þorlákshafnar sem lykilþáttar í íslensku atvinnulífi. 

 

Previous
Previous

Þetta hefur aldrei gerst áður! – Stærsta skipið sem siglt hefur inn í Þorlákshöfn kemur í dag!

Next
Next

Framrúðan eða baksýnisspegillinn?