Fréttatilkynning
Nú fyrir skömmu barst Vestmannaeyjabæ áfrýjunarstefna Síldavinnslunnar í máli því sem Vestmannaeyjabær höfðaði gegn félaginu til efnda á forkaupsrétti sveitarfélagsins þegar bátar og aflaheimildir voru seldar frá Vestmannaeyjum 30. ágúst 2012.
Eins og komið hefur fram vann Vestmannaeyjabær fullnaðarsigur í héraðsdómi og voru dómsorðin afdráttarlaus.
Í dómsniðurstöðu komst dómarinn m.a. að þeirri niðurstöðu að kaupsamningur aðila hafi verið sérsniðinn viðskiptagerningur, sem miðaði að því að sniðganga ákvæði settra laga [um forkaupsrétt sveitarfélagsins], sértækum hagsmunum til framdráttar.
Í dómsorðum sagði.:
Ógiltur er samningur um kaup stefnda, Síldarvinnslunnar hf., á öllum eignarhlutum í Bergi-Huginn ehf. af stefnda, Q44., dagsettur í ágúst 2012.
Þar með var staðfestur sá réttur íbúa sjávarbyggða sem þeim er ætlaður í lögum um stjórn fiskveiða og þar með dregið úr líkum þess að hægt væri með lagatæknilegum gjörningum að sniðganga þann rétt.
Vestmannaeyjabær fagnar því að látið verði reyna enn frekar á rétt sveitarfélaga og almennra íbúa sjávarbyggða með áfrýjun til hæstaréttar. Illu heilli hafa íbúar sjávarbyggða mátt þola það í áratugi að sá réttur sem löggjafinn byggði inn í lög um um stjórn fiskveiða væri markvisst sniðgenginn.
Vestmannaeyjabær lýsir yfir fullum skilningi á því að Síldarvinnslan skuli nú hafa ákveðið að áfrýja dómi héraðsdóms enda brýnt fyrir alla aðila að leikreglur í sjávarútvegi séu skýrar og þar með að öllum sé ljóst hvort að sá réttur íbúa sem Vestmannaeyjabær berst fyrir og löggjafinn ætlaði þeim eigi að vera virtur.
Að lokum hvetur Vestmannaeyjabær þingmenn og íbúa sjávarbyggða til að veita þessu máli ríka athygli. Niðurstaða hæstaréttar mun ráða miklu um framtíð sjávarbyggða og atvinnuöryggi íbúa í sjávarbyggðum.
Fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar