Vínið, vandamálið og vangavelturnar - Stutt síðan sama umræða var um sölu á mjólk

Fram er komin tillaga um afnám einkasölu ríkisins á áfengi.  Það er gott.  Um leið er það hinsvegar áhyggjuefni hversu stutt við höfum fetað stíginn í átt að auknu frelsi og minni höftum.  

Það er ekki nema rétt um aldafjórðungur síðan sama umræða átti sér stað um aðra neysluvöru.  Þegar rætt var um afnám einkasölu ríkisins á mjólk fyrir 45 árum sagði þetta í Alþýðublaðinu:

„Enda þótt margir gallar séu á einkasöluskipulagi, er rétt að minnast þess, hvað gerast mundi ef það væri afnumið t.d. á mjólk.  Þá mundu fleiri en eitt fyrirtæki taka að sér mjókurdreifinuna.  Hér mundu rísa margar mjólkurstöðvar hlið við hlið, margir bílar mundu flytja mjólkina í sömu íbúðarhverfi, forstjórar yrður margir, skrifstofur margar tilkostnaður í heild margfaldur.    Menn hljóta að komast að raun um að ekki sé rétt að afnema einkasölu á mjólk og mjólkurvörum því að margfalt sölukerfi mundi leiða af sér margfaldan kostnað sem neytuendur mundur verða látnir greiða. „  

Blessunarlega var nú sala á mjólk gefin frjáls nokkrum árum seinna..  

Þjóðviljinn óttaðist þá mjög afleiðinarnar fyrir starfsmenn og í júlí 1976 mátti finna þetta:

Stórum hluta landsmanna þótti eðlilegt að eingöngu ríkið mætti selja mjólk.

 Til að gæta sanngirnis er þó rétt að halda því vel til haga að það er munur á alkóhóli og mjólk

Alkóhólismi er alvarlegur
Alkóhólismi er alvarlegur sjúkdómur og því miður algengur.   Reyndar svo algengur að á hverju ári leita um tvö þúsund Íslendingar sér meðferðar vegna alkóhólisma.  Þá eru ótaldir þeir einstaklingar sem glíma við sjúkdóminn en leita sér ekki aðstoðar.  Sá hópur er sennilega langtum stærri.  Á bak við hvern þessara  einstaklinga eru svo börn, vinir, foreldrar, makar og fleiri sem oft verða fyrir miklum sársauka vegna alkóhólismans. 

Ættgengt
Ég minnist þess úr sálfræðinámi mínu hvernig ýmsir héldu því fram að sálfræðilegir þættir hefðu hvað tryggasta forspá hvað ánetjun áfengis varðaði.  Vísindi hafa hinsvegar fært okkur nær því að skoða líkamlega og félagslega þætti samhliða þeim sálrænu. Aukin þekking hefur fært sjónir manna frá því að leita einungis orsaka alkóhólisma í tilteknum persónuleikaþáttum eða sálrænum vandkvæðum í æsku.  Fleira þarf til. Lengi hefur verið viðurkennt að alkóhólismi sé ættgengur og á síðari árum hafa margar rannsóknir stutt þá tilgátu að þetta ættgengi sé bundið erfðum.

Vínmenning
Um leið og of- og misnotkun áfengis er gríðalegt vandamál er áfengi vinsæl neysluvara.  Flestir neytendur hafa jákvætt viðhorf til vörunnar og nota hana sér til yndisauka.  Vínmenning hefur aukist til muna og sífellt fleiri leggja sig fram um að finna vín sem þeim hentar.  Ákveðin rauðvín með ákveðnum mat, ákveðinn bjór við ákveðna stemmningu og jafnvel ákveðið Gin, í ákveðna tegund af glasi, með ákveðnu magni af lime og ákveðnu magni af klaka, útí ákveðið magn af tónik við ákveðin tækifæri. 

18,4 milljón lítra áfengis seldir
Seldir alkóhóllítrar í ÁTVR voru 1.344.701 árið 2011 en 1.092.659 árið 2001.  Sem sagt 252.042 alkóhóllítrum meira.  Samtals seldust 18,4 milljón lítrar af áfengi árið 2011.  Ég er ekki viss um að þessi aukna neysla sé í réttu hlutfalli við aukin áfengisvanda þjóðarinnar.   Þar sem ég hef gaman af tölum þá þótti mér fróðlegt að samtals voru 4,2 milljónir afgreiðslna í vínbúðum árið 2011.  Samtals eru 228.000 einstaklingar yfir áfengiskaupaaldri á landinu.  Það merkir því að það eru 18 afgreiðslur á einstakling að meðaltali á ári.  Hver Íslendingur yfir 18 ára aldri fer því að meðaltali 1,5 sinnum í mánuði í ríkið. 

Vandamál eða neysluvara?
Á íslandi og víðar hefur löggjafinn nálgast áfengi fyrst og fremst sem vandamál og síðan sem neysluvöru.  Engum hefur verið treyst til að selja áfengi nema ríkinu.  Reyndar hefur viðhorfið breyst nokkuð á seinustu árum.  Sem dæmi má nefna að einkaleyfi ÁTVR á framleiðslu áfengis var fellt
niður árið 1986 (í dag eru innlendar tegundir 74% af heildarsölu á bjór), einkaleyfi á innflutningi á áfengi var fellt niður árið 1995 og einkaleyfi á innflutningi á tóbaki var fellt niður árið 2004.  Nú stendur eftir að afnema bann ríkisins á einkasölu áfengis.  Hingað til hefur helst verið rætt að afnema einkasölu ríkisins á áfengi undir 22% (sbr. nýlegt frumvarp sem lagt var fyrir alþingi) en væntanlega yrði einkasalan öll afnumin fljótlega enda myndi magn í dreifnu ÁTVR minnka um rúm 96% eða úr um 19 milljónum lítra í 700 þúsund lítra ef ÁTVR myndi hætta að selja áfengi undir 22%.

Forræðishyggja
Í nýlegri áfengisstefnu ríkisins er margt gott að finna.  Þar segir að stefnt skuli að því að seinka fyrstu kynnum unglinga af áfengi, minnka ölvunarakstur, hvetja til forvarna og fl.  Þar segir hinsvegar einnig  að aðalmarkmið áfengisstefnunnar sé að stýra neyslu almennings.  Þar með talið fullorðins fólks.  Það er síðan gert með einokun á markaði.   Síðan fylgir væntanlega skertur opnunartími, lakara vöruúrval, hærra verð og þar fram eftir götunum.   Þótt ég sé fullkomlega meðvitaður um þann mikla vanda sem fylgir alkóhólisma þá er ég andvígur slíkri forræðishyggju.

Tvöfalt siðferði
Sú staðreynd að ríkið hefur tekið sér einokunarstöðu á markaði með vinsæla neysluvöru (18,4 milljónir lítra árið 2011).  Setur ríkið líka í skrýtna stöðu.  Neyðir það í raun í tvöfalt siðferði.  Um tíma rak ríkið áfengissölu í barnafataverslun í Ólafsvík.  Á sama tíma var stefnan að draga úr tengslum áfengis við það sem tengist börnum og unglingum.  Í ársreikningum Vínbúðarinnar frá 2011 segir „Við setjum viðskiptavininn í öndvegi og tökum mið af væntingum hans.“  Á sama tíma gerir áfengisstefnan ráð fyrir því að stýra eigi neyslu með skertu aðgengi og háu verði.  Í áfengisstefnunni segir að stefna skuli að því að draga úr neyslu en í ársreikningum er [eðlilega] talað um hagnað og aukna sölu sem jákvæða.    

Er einokun að virka?
Velta má vöngum yfir því hvort að einokunin með sölu sé að virka. Nánast er stöðug aukning á sölu víns (kreppan hafði þó áhrif).   Sala rauðvíns jókst til dæmis um 4101 lítra milli áranna 2010 og 2011.  Svipaða sögu er að segja um sölu á tóbaki.  Til dæmis seldust um 10 tonn árið 2001 en 30 tonn árið 2011.  Sú sala jókst um 4 tonn bara milli áranna 2010 og 2011.   Sígarettur eru seldar í matvöruverslunum um allt land og þar með mjög aðgengileg neysluvara.  Samt reykja „aðeins“ um 16% 15 til 16 ára unglinga á Íslandi en 45% í Austurríki, 33% í Færeyjum, 32% í Danmörkum.  Færri í þessum aldurshópi reykja í Bandaríkjunum eða 14%.  Athyglisvert er að einokun ríkisins í sölu á áfengi er svipuð á Íslandi  og í Svíþjóð.  Samt drekka "aðeins" 31% Íslenskra unglinga á aldrinum 15 til 16 ára en 44% jafnaldra þeirra í Svíðþjóð.  Til samaburðar þá drekka 33% í þessum aldurshópi í Bandaríkjunum þar sem allt er vaðandi í áfengisauglýsingum og áfengi aðgengilegt í öllum bensínstöðvum, matvöruverslunum og víðar.

Erum við á réttri leið?
Er ekki ástæða til að staldra við og spyrja hvort við séum á rétti leið?  Er ekki kominn tími til að ræða þessi mál án ofstækis og með opnum huga.  Ég veit að á málinu eru að minnsta kosti tvær hliðar - rétt eins og var með mjólkina. Mér þykir samt eðlilegt að skoða það af fullri alvöru að ríkið láti af einokun á sölu þessarar neysluvöru.  

Previous
Previous

Fréttatilkynning

Next
Next

Ólögmæt úthlutun á makrílkvóta hefur kostað samfélagið í Vestmannaeyjum um 5 til 6 milljarða