Hanarnir fljótir á hauginn
Umfjöllun Kveiks skekur nú Íslenskt samfélag. Myndin sem þar er dregin upp er enda dökk. Alþjóðlegt fyrirtæki með starfsemi í flestum heimsálfum beitir mútugreiðslum í þróunarríki til að komast yfir náttúruauðlindir. Flestum sem sáu þáttinn var brugðið. Mér var það að minnsta kosti.
Miðað við það sem komið hefur fram bendir ýmislegt til þess að lög hafi verið brotin í starfsemi alþjóðafyrirtækis í Namibíu. Þetta fyrirtæki er sannarlega í margskonar rekstri hér á landi og reyndar í mörgum löndum í flestum heimsálfum. Enn hefur ekkert komið fram sem tengist starfsemi þessa fyrirtækis hér á landi hvað þá öðrum fyrirtækjum í sömu atvinnugrein.
Rannsaka þarf málið áfram af festu og einurð
Það er eðlilegt að vísbendingar eins og þær sem fram komu í þættinum verði rannsakaðar og það það af fullri einurð. Verði sekt sönnuð eiga dómstólar þeirra landa þar sem brot eru framin að gilda. Séu alþjóðalög brotin á hið sama við. Sekir eiga að standa skil á gjörðum sínum.
Raða sér á hauginn
Það sem hins vegar er ekki eðlilegt er að mál sem þetta sé á fyrstu stigum þess set í pólitískan búning. Að sjá hanana -helst á vinstri væng stjórnmála- raða sér á hauginn.
Það er fráleitt að tengja mögulegar mútugreiðslur alþjóðlegsfyrirtæki í Namibíu -jafnvel þótt það sé í eigu Íslendinga- við þörf fyrir breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.
Það er ömurlegt að sjá þingmann Samfylkingarinnar draga ráðherra í ríkisstjórn Íslands pólitískt inn í þetta mál þótt hann hafi hitt erindreka Namibíu í stundarkorn. Hvað þá að véfengja hann fyrir að hafa gengt stöðu stjórnarformanns viðkomandi fyrirtækis fyrir tveimur áratugum.
Það þarf hreinlega frjótt ímyndunarafl til að búa til samhengi milli mögulegra mútur greiðslna í Namibíu og þörfina fyrir hærri skatta á Íslandi. Er eitthvað eðlilegt við það að útgerðamaður í Þorlákshöfn, Grindavík eða á Þingeyri borgi hærri skatta ef Íslendingar í alþjóðarekstri brutu lög í Namibíu? Sér er nú hver vitleysan.
Vilja breyta Íslandi til að bregðast við brotum í Namibíu
Nú er bara spurning hvort fram komi krafa um kynjaða hagstjórn, stofnun miðhálendis þjóðgarðs, þjóðnýtingu fiskveiðikvótans og breytta kjördæmaskipan – allt til að bregðast við mögulegum brotum í Namibíu.
Yfirvegun, þungi og sanngirni
Málið lítur út fyrir að vera alvarlegt og það þarf að nálgast í samræmi við alvarleikann. Það þarf að nálgast af yfirvegun, þunga og sanngirni en ekki með pólitísku upphlaupi. Stjórnmálamenn verða að gæta að orðsopri Íslands, trúverðugleika viðskiptalífsins og hagsmunum okkar almennings. Upphlaup og tilraunir til að beintengja brotin hingað til lands eru ekki líkleg til þess. Hanarnir sem fyrstir rjúka á hauginn ættu ef til vill að spara galið.