Íslendingar eiga mikil tækifæri í matvælaframleiðslu og þá ekki síst í fiskeldi

Loðnubrestur veldur hinu íslenska þjóðarbúi ætíð miklum búsifjum.  Þessi kviklyndi fiskur er enda næst verðmætasta tegund okkar þegar litið er til útflutningsverðmæta fiskafurða.  Árið 2017 fluttum við út loðnuafurðir fyrir um 18 milljarða.  Þegar ekkert veiðist er því tjónið mikið. RÚV gerði því vel skil í umfjöllun í kvöldfréttum í gær og tiltók sérstaklega hvað þetta slær samfélagið allt og þá sérstaklega sjávarbyggðir eins og Fjarðabyggð, Vestmannaeyjar og fl. (sjá hér). 

Yfir 20 milljarðar

Það kemur ef til vill einhverjum á óvart að fiskeldi er í dag orðið mikilvægara en loðnan með tilliti til útflutningsverðmæta. Árið 2017 fluttum við Íslendingar út eldisafurðir fyrir 14 milljarða. Áætlanir gerða ráð fyrir því að í ár fari þessi tala yfir 20 milljarða.  Fiskeldi hér á landi getur auðveldlega nálgast að verða jafn mikilvægt og verðmætasta tegundin okkar, þorskurinn.  Í fyrra fluttum við út þorsk fyrir um 80 milljarða.  Þess má geta að hjá Færeyingum er fiskeldið orðið jafn verðmæt og veiðar á villtum stofnum og hvorki meira né minna en 45% af útflutningsverðmætum þeirra.

Pólitískurvilji og -þor

 Matvælaframleiðsla er sennilega stærsta einstaka atvinnugreinin í heiminum.  Hún er talinn velta 1,6 trilljónum og þar starfa um 28% alls vinnuafls. Mikilvægi matvælaframleiðslu á eftir að aukast með vaxandi velmegun og stórauknum fjölda jarðarbúa. Við Íslendingar eigum mikið inni hvað framleiðslu matvæla varðar og þá ekki síst í því er snýr að fiskeldi.  Það gerist hinsvegar ekki án pólitísksvilja og – þors.

Tækifærið er núna

Mannkyninu er að fjölga hratt.  Í dag eru fleiri á lífi en hafa dáið í sögu mannkynsins.  Áætlað er að á næstu 40 árum þurfi mannkynið að framleiða jafn mikið af mat og það hefur gert seinustu 8000 árin. Tækifæri okkar Ísendinga eru mikil í þessu og þá ekki síst í fiskeldinu. Draumur minn er sá að þingmenn allra flokka, og þá ekki síst Sjálfstæðisflokksins, taka eindregna afstöðu með fiskeldi með það fyrir augum að flýta fyrir vexti þess.  Þar gengur stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar ekki nægilega langt.

Previous
Previous

Hanarnir fljótir á hauginn

Next
Next

Íslandsbanki gegn karlmönnum og plasti