Hvenær hlustar maður á mann og hvenær hlustar maður ekki á mann?
Á vordögum kom hingað til lands, á vegum ríkisins, merkilegur maður að nafni dr. Carl Baudenbacher. Sá mikili kappi er fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins og var hann hingað kominn til þess að gera grein fyrir álitsgerð sinni um þriðja orkupakkann fyrir utanríkisráðuneytið.
Þingmenn og ráðherrar létu mikið með álit hans enda hann sérstakur sérfræðingur á þessu sviði. Hans mat var að það væri ekki annað réttlætanlegt en að íslensk stjórnvöld innleiddu Orkupakkann.
Það sem mér hefur helst þótt athyglisvert er að þessi álitsgerð er langt því frá það eina sem þessi kappi hefur sagt um alþjóðasamninga Íslands. Árið 2007 sagði þessi sami sérfræðingur nefnilega að EES samningurinn (sá sem liggur til grundvallar Orkupakka 3) sé yfirþjóðlegur samningur og brjóti því gegn stjórnarskrá Íslands.
Hvernig getur það farið saman að þeir sem stuðst hafa við orð Baudenbacher um Orkupakka 3, og notað þau til marks um mikilvægi þess að hann verði samþykktur, bregðast ókvæða við þegar bent er á að skoða þurfi nánar EES samninginn sem liggur til grundvallar?
Hlustar maður bara á mann þegar maður er sammála manni?