"Hannaður sem biðstofa..."

EES samningurinn hefur reynst þjóðinni vel.  Um það held ég að flestir geti verið sammála.  Í gegnum hann höfum við Íslendingar aðgengi að innri markaði ESB.  Þægindin og hagsældin sem fylgja aðgengi að margfalt stærri vinnumarkaði með frjálsu flæði fólks eru [nánast] óumdeild.

EES er undirbúningur að inngöngu í ESB

EES samningurinn hefur þó á sér fleiri hliðar.  Sá hluti hans sem snýr að aðlögun að ESB er að verða meira áberandi eftir því sem tímanum fram vindur.  Í ljós er að koma, það sem ætíð lá í augum uppi, að samningurinn er hreinlega undirbúningur að inngöngu í ESB.  Hugsaður þannig af ESB, hannaður þannig af sambandinu og undirritaður af fulltrúum okkar.

Biðstofa fyrir hlutlaus EFTA ríki.

Efist einhver um hvað EES samningurinn sé í raun þá er hægur leikur að slá þessu upp á vefsíðu þings ESB.  Þar segir að samningurinn sé: „…hannaður sem einskonar biðstofa fyrir hlutlaus EFTA ríki“ ("Designed as a sort of waiting-room for the neutral EFTA states ..."). 

Lítið fjallað um aðlögunarhluta EES

Hér á Íslandi er mikið rætt um EES samninginn.  Illu heilli er það nánast ætíð út frá þeim mjög svo hagsælu þáttum sem sannarlega eru í honum fólgnir.  Þannig hafa til að mynda Samtök Atvinnulífsins staðið sig vel í að útskýra kosti hans.  Til að mynda er hægt að finna stórgóða umfjöllun um að hagræn áhrif EES samningsins hér: EES skiptir sköpum.  Í þessari umfjöllun er þess þó hvergi getið að í raun réttri þá sé samningurinn aðlögunarsamningur inn í ESB.

Efnahagslegur samruni

Ólíkt þeim sem um málið fjalla hér á landi þá er Martin Selmayr framkvæmdastjóri framkvæmdastjórnar ESB hvergi banginn við fjalla á þann máta um EES samninginn.  Á Twitter lýsti hann eðli EES samningsins á þennan máta:  „Samningurinn er árangursríkt módel fyrir efnahagslegan samruna milli ESB og nágrannaríkja sambandsins“.  Svo mörg voru þau orð. 

Sambandssamningur en ekki samstarfssamningur

Hvað sem hver segir þá er EES í raun ekki viðskiptasamningur eins og svo oft er haldið fram hér á landi.  Viðskipti eru forsenda þeirrar samþættingar og samruna sem stefnt er að.  ESB skilgreinir samninginn enda ekki sem viðskiptasamning heldur „association agreement“.  Eðlileg þýðing á því orði væri „sambandssamningur“ en Utanríkisráðuneytið þýðir það af einhverjum ástæðum sem „samstarfssamning“. 

Rökin eru með og á móti

Það er auðvelt að bera virðingu fyrir afstöðu þeirra sem ganga vilja í ESB.  Fyrir því eru mörg sterk rök.  Það er ekki síður auðvelt að virða gagnstæða afstöðu enda liggja ekki síður sterk rök þar að baki.  Það sem ekki er hægt að þola er hinsvegar að storma þjóðinni í fang yfirþjóðlegs valds á fölskum forsendum.

Það þarf sterk bein, samstöðu og útsjónarsemi ef takast á að tryggja hagsmuni Íslendinga í alþjóðasamstarfi án þess að fórna þeim mikilvægu réttindum sem fólgin eru í því að vera sjálfstætt þjóðríki.  Þessa dagana eru margir að spyrja sig að því hvaða fólk og hvaða flokkar séu líklegastir til þess.

Previous
Previous

Hvenær hlustar maður á mann og hvenær hlustar maður ekki á mann?

Next
Next

Baðlón, ný skíðaaðstaða, gróðurhús og veitingasala í Hveradal í Ölfusi