Baðlón, ný skíðaaðstaða, gróðurhús og veitingasala í Hveradal í Ölfusi

Í gær var haldinn íbúafundur í Ölfusi til að kynna uppbyggingu við Skíðaskálann í Hveradöllum.  Um er að ræða afar metnaðarfulla framkvæmd á vegum Hveradala ehf. og er til að mynda gert ráð fyrir því að þarna verði allt að 100 starfsmenn og tóku fulltrúar fyrirtækisins það skýrt fram að áhersla yrði lögð á að manna fyrirtækið sem mest með íbúum úr sveitarfélaginu.  Framkvæmd sem þessi skapar okkur enn vaxandi tækifæri á sviði ferðaþjónustu.

Verkefnið sem verið hefur í undirbúningi í nánu samstarfi við sveitarfélagið í nokkurn tíma færist nú nær því að komast á framkvæmdastig og gangi allt eftir ætti starfsemi að geta hafist innan þriggja ára.

Skíðaskálinn verður stækkaður

Fyrirhugað er að stækka Skíðaskálann þó nokkuð ásamt því að reisa gróðurhús með söluaðstöðu svo og þjónustuhús fyrir útivistarfólk.  Ennfremur að setja upp skíðalyftu á sama stað og áður var í Hveradölum. Innar í dalhvelfingunni, í botni Stóradals, er áformað baðlón sem nýtir affallsvatn frá Hellisheiðarvirkjun.

Baðlónið verður svipað að stærð og Blá Lónið

Baðlónið sjálft sem verður án vafa aðal aðdráttaraflið verður allt að 8.500 m2 að flatarmáli, til samanburðar þá er Bláa Lónið 8.700  m2.  Það verður staðsett í botni Stóradals umkringtfjallshlíðum Reykjafells í vestri, norðri og austri og lokar baðhúsið hringnum í stórum boga til suðurs.  Baðlónið nýtir jarðhitavatn frá Hellisheiðarvirkjun.  

Stórt og myndalegt baðhús

Baðhúsið sjálft verður reist við baðlónið og er stærð þess áætluð allt að 3.000 m2 að grunfleti.  Þar verður öll sú þjónusta sem tilheyrir metnaðarfulluverkefni sem þessu.

1000 m2 gróðurhús

Gróðurhús verður reist nálægt Skíðaskálanum, allt að 1.000 m2 að flatarmáli.  Þar er stefnt að því að vera með ræktun á nytjajurtum svo sem tómötum, agúrkum og fl. og samhliða verður væntanlega  rekin veitingaaðstaða sem byggir fyrst og fremst á því sem ræktað verður á staðnum. 

Aðstaða fyrir skíðafólk og aðra sem hyggja á útivist í Ölfusi

Norðvestur af Skíðaskálanum verður reist 250 m2 þjónustuhús fyrir þá sem hyggja á útivist og skíðaiðkun.  Setja á upp skíðalyftu á sama svæði og gamla lyftan var við Skíðaskálann í Hveradölum.  Til sérstakrar skoðunar er að nýta Hveradal í kjölfarið sem dyrnar að Hengilsvæðinu öllu.

Hamingjan er hér

Ölfus er einstakt hvað náttúru varðar.  Allt frá Hengli niður í Herdísarvík, og Hafnarbergi upp að Húsmúla er umhverfið sem æfintýri líkast.  Svartar fjörur, einstakir hellar svo sem Arnarker og Raufarhólshellir, Reykjadalur með náttúrulaugarnar, Hengilssvæðið, Selvogurinn og allar hinar perlurnar raðast á þráð uppbyggjandi mannlífs og vilja til vaxtar svo úr verður kjörlendi ferðaþjónustu.  Þetta, auk þess að vera í um 55 mín. frá alþjóðaflugvellinum og um 30 mín frá Reykjavík, skapar okkur einstakt tækifæri til áframhaldandi vaxtar.

Previous
Previous

"Hannaður sem biðstofa..."

Next
Next

Blikur á lofti