Landsbyggðirnar þurfa á ferðaþjónustu að halda
Ferðaþjónusta er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Hún er sú grein sem aflar okkar litlu þjóð stærsta hluta gjaldeyristekna þjóðarbúsins. Hún er hinsvegar meira. Hún er líka sjálfsprottin upp úr umhverfi frumkvöðla um allt land. Hún er að mörgu leyti lík því sem var í sjávarútveginum þegar hann hélt uppi hinum dreifðu byggðum. Með öllu er óljóst hvort að ferðaþjónustan sem jarðvegur frumkvöðla lifi af breytingar þær sem ríkisstjórn boðar nú um að tvöfalda virðisaukaskattinn á hana á næsta ári.
Skattur á sjávarútveg hefur skaðað atvinnulíf landsbyggðanna og valdið samþjöppun
Á seinustu árum hefur sjávarútvegur breyst mikið. Hann stendur í dag ekki undir atvinnulífi landsbyggðanna í sama mæli og áður var. Plástrar eins og byggðakvóti, strandveiðar og fleira duga skammt. Gamli tíminn kemur einfaldlega ekki aftur. Breytingarnar eru margslungnar og hér verður því ekki haldið fram að skattastefnan ein hafi gert út af við svo margar smærri útgerði. Það skal hinsvegar fullyrt að eitt af því sem valdið hefur minni útgerðum vanda er skattastefna ríkisins. Hún hefur m.a. valdið því að smærri útgerðir ráða ekki við stöðuna. Eigendur þeirra gefast upp. Hinir stóru kaupa og verða enn stærri. Ekki er ólíklegt að innan fárra ára verði ekki nema 10 til 15 alvöru útgerðir í landinu.
Ferðaþjónustan bjargaði landsbyggðunum
Íbúar landsbyggðarinnar hafa því orðið að finna sér ný atvinnutækifæri. Af sama knérunn og sjávarútvegur óx af spratt nú fram ný atvinnugrein. Nestuð sterku vinnusiðferði og djörfung settu íbúar landsbyggðanna krafta sína öðru fremur í ferðaþjónustu. Hvalaskoðun á Húsavík, kajakaferðir á Ísafirði, hestaferðir í Skagafirði, lundaskoðun í Vestmannaeyjum, norðurljós á Neskaupsstað, handverk á Bakkafirði, jöklaferðir á Snæfellsnesi, jarðböð við Mývatn. Listi yfir lítil frumkvöðlafyrirtæki í landsbyggðunum sem leggja mörgum til atvinnu er langur. Um 27 þúsund manns starfa nú við ferðaþjónustuna hjá rúmlega 2.500 fyrirtækjum, flestum með færri en 10 starfsmenn. Sannarlega líkt því sem við í landsbyggðunum þekktum áður í sjávarútvegi.
Skilningsleysi
Í besta falli sýna áform ríkisstjórnarinnar skilningsleysi gagnvart landsbyggðunum, þörfum þeirra og eðli. Vel má vera að stóru fyrirtækin ráði við aukinn skatt ofan á erfið ytri skilyrði. Það gefur þó auga leið að samanlagt mun óhagstæð gengisþróun, hækkun launa og ríflega 100% hækkun virðisaukaskatts fyrst og fremst draga úr ferðalögum út fyrir höfuðborgarsvæðið. Þegar ferðamenn verða komnir til landsins munu þeir síður hafa efni á því að fara til Vestmannaeyja, Hafnar, Eskifjarðar, Egilsstaða, Akureyrar, Sauðárkróks, Blönduóss, Hólmavíkur, Patreksfjarðar, Ólafsvíkur eða annarra þeirra fjölmörgu staða úti á landi þar sem duglegt fólk hefur verið að byggja upp tækifæri í ferðaþjónustu eftir að fyrri kynnslóð atvinnutækifæra í sjávarútvegi voru af þeim höfð.
Illa undirbúið
Ekki dettur mér í hug að ætla neinum vilja til að skaða. Ég óttast hinsvegar að ríkisstjórn sjáist ekki fyrir í þessu enda þessi vanhugsaða skattahækkun tilkynnt án alls samráðs við atvinnugreinina. Engin greining fór fram á áhrifum á þessa nýju atvinnugrein sem margir á landsbyggðinni hafa lagt allt sitt traust á eftir að sjávarútvegurinn breyttist.
Nær að lækka stýrivexti
Aðgerðin er sögð nauðsynleg til að fækka ferðamönnum og draga þannig úr innflæði gjaldeyris sem stuðlar að styrkingu krónunnar. En það er til mun fljótlegri, sanngjarnari og einfaldari leiðir til þess heldur en ráðast að einni mikilvægustu atvinnugrein landsbyggðarinnar. Á árinu 2016 var innflæði vegna viðskiptajafnaðar 195 milljarðar króna og á sama tíma var annars konar gjaldeyrisinnflæði 330 milljarðar króna samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands. Fljótlegra og eðlilegra er að létta þrýstingi á gengið með því einfaldlega að lækka stýrivexti Seðlabankans. Þá hverfur hvatinn til vaxtamunarviðskipta og samstundis dregur úr of miklu innflæði gjaldeyris. Þetta er aðgerð sem stjórnvöld hafa í hendi sér og er að sjálfsögðu nærtækari en sú ómarkvissa hækkun virðisaukaskatts sem nú er í pípunum.
Upphafið að endi hans
Njáll á Bergþórshvoli er án vafa einn spakasti sonur hinnar íslensku þjóðar. Heilræði hans til Gunnars á Hliðarenda var að vega aldrei í sama knérrunn og rjúfa aldrei góða sátt. Án þess að fyrir Gunnari lægi vilji til að vanvirða ráð Njáls þá fór nú samt svo að hann hjó í tvígang í sama knérrunn þegar hann felldi þá feðga Þorgeir og Otkel. Það varð upphafið að hans endi.
Er rangt og veldur meiri skaða en réttlætanlegt er
Ég er ekki Njáll og bý ekki yfir visku hans. Þingmenn eru ekki Gunnar á Hlíðarenda og sjávarútvegur og ferðaþjónusta eru ekki þeir feðgar Þorgeir og Otkell. Við þingheim vil ég samt segja það að ráðast nú til atlögu við hina nýju grunnstoð atvinnulífs landsbyggðanna þegar sjávarútvegurinn hefur víða verið af honum hafður er rangt og kemur til með að valda meiri skaða en réttlætanlegt er.